Baldur Óskarsson

„Sólargeislinn kólnar á fjölunum / skilinn við bláa / ljósglætu / sem lifir á skammbitanum.“
(„Hanabjálkinn“)

Baldur Óskarsson fæddist í Hafnarfirði árið 1932. Að loknu miðskólaprófi á Skógum stundaði hann nám einn vetur við lýðháskóla í Svíþjóð. Því næst hélt hann til Katalóníu þar sem hann lærði listasögu og spænskar bókmenntir einn vetur við Universidad de Barcelona. Hann var blaðamaður á Tímanum 1957-64 og starfaði síðar sem fréttamaður hjá Ríkisútvarpinu. Hann var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur 1965-73. Baldur sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands og rithöfundaferill hans spannaði rúma fimm áratugi.

Fyrsta verk hans var smásagnasafnið Hitabylgja sem kom út árið 1960. Þremur árum síðar kom út eftir hann skáldsagan Dagblað. Árið 1966 sendi hann frá sér sína fyrstu ljóðabók (Svefneyjar) og upp frá því einbeitti hann sér einkum að ljóðagerð. Hann gaf frá sér vel á annan tug ljóðabóka, síðast bókina Langtfrá öðrum grjótum árið 2010. Safnritið Tímaland birtist árið 2000 en ljóðin í þeirri bók eru bæði á frummálinu og í þýskri þýðingu (Tímaland : kvæði = Zeitland : Gedichte). Baldur fékkst nokkuð við ljóðaþýðingar og gerði þar einkum skáldinu Federico Garcia Lorca góð skil. Baldur skrifaði einnig talsvert um myndlist í bækur og tímarit, t.a.m. um myndlistarmanninn Jón Engilberts.

Baldur lést þann 14. apríl 2013.

Mynd af höfundi: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Ljóðaljóð

Til eru ljóð sem bera serk og blæju –
þau sýna augun.
Önnur halda nakin í sólbað.
Þessi ljóð eru hamingjusöm – flest deyja í svefni.
Ljóð sem fæðast skinnlaus og komast ekki á kreik,
eiga þó til
að ganga aftur.
Og lifandi flegin ljóð –
þau berjast við dauðann.
Og þetta kalla menn ljótan viðskilnað.

- Úr ljóðabókinni Leikvangur (1976)

Lestur

Í þrengingum nætur
sá ég litla fleti
ljós og skugga
líkt og í hleðslu
úr smágrjóti – eins og letur.

Lestu.
Röddin var hörð
og mjúk.

Ég reis á fætur
rakti línur fjalla.

- Úr ljóðabókinni Gljáin (1990)

„Grænleitar varir teyga djúpan himin“: um skrifara myndanna grænu í tímalandi Baldurs Óskarssonar

„Haustið málar rautt og gult með vatnslitum“ segir í ljóðinu „Tímaland“ eftir Baldur Óskarsson frá árinu 1966 og árið 2000 gaf skáldið síðan út bókina Tímaland í samvinnu við myndlistarmanninn Bernd Koberling. Bókin er bæði á íslensku og þýsku og geymir úrval úr ljóðum Baldurs. Myndir Koberlings eru vatnslitamyndir, litríkar og dálítið órólegar, litirnir renna til og þrátt fyrir að sjá megi að margar eru einskonar náttúrustúdíur þá eru þær langt því frá að vera hefðbundnar landslagsmyndir. Þessar myndlýsingar eiga sérlega vel við ljóð Baldurs, sem einmitt einkennast af litum sem renna til í órólegum leik með myndmál auk þess sem náttúrusýnin er mjög sérstök eins og birtist svo fallega í „Vorljóði“ úr Döggskál í höndum (1987):

Um samráð við læki og fugla osfrv. –

Skrifari myndanna grænu fálmar sig hingað heim
að vanda fullur
víða kemur hann við
vakinn í dölum sofinn meðal tinda.

... Krossfiskur
krossfiskur á austurloftinu þegar ég vaknaði
horfinn inn í eilífðina...
vorljóð, huganir mjólkurhvítar, roðinn að baki.

Skrifari myndanna grænu, hingað heim!

Skrifarinn er líklegast guð sem þrátt fyrir samráð við læki og fugla og fleira hefur eitthvað skolað hlutunum til, hann hefur fengið sér smá styrkingu, en líklegast heldur of mikið því hann hefur villst af leið og er farinn að gera smávægileg mistök. Og kannski hafa litirnir eitthvað runnið til. Ljóðið sýnir vel þann lúmska og hlýja húmor sem finna má í módernískum og táknsæjum ljóðum Baldurs sem oft á tíðum eru ógagnsæ og hátimbruð – og ekki alltaf auðhlaupið að því að fylgja skáldinu eftir. „Torræður“ var algengasta lýsingarorð gagnrýnenda samtímans, sem þó voru almennt sammála um ágæti ljóða Baldurs og vildu sumir telja hann brautryðjanda í því að tengja ljóðlist og myndlist.

Tengsl Baldurs við myndlist birtast greinilega í ljóðum hans sem eru umfram allt litrík og ákaflega myndræn. Gestastofa (1973) er til dæmis rauðmáluð: orðið rautt, eða myndhverfing rauðs litar birtist í meirihluta ljóðanna og skapar óvæntar tengingar. Í fyrsta ljóðinu, „Í minningu þína“, er að finna rauðan tening og í „Gestastofu“ er annar teningur, að þessu sinni í félagi við rós og í gluggakistu. Í „Lönguföstu“ birtist okkur ákaflega litfögur mynd þar sem blár hængur laugast kertaljósi á hvítum stalla og „rafgulur bjarminn ísar í grænu húmi/bogagöngin/inn í vínrauða hvelfing.“ Lesandinn finnur fyrir löngun að rissa upp þessa liti og sjá ljóðið fyrir sér þannig. Í „Geisladegi“ litar kvöldskinið „hugina rauðu“, og í „Interno“ hanga ryðbrunnar dulur á fúnu þili. Dimmar glufur í þilinu eru „minni um skóginn sjálfan/bleika stofna og barkrauða/í sárum“ og ljóðið endar svo á dularfullan hátt úti í skógi þar sem yfir hvílir einhver óljós ógn. Blóðlitað vatn, rauður hnöttur, blároðnir þræðir og dumbrauð alda, rauður kólgubakki, glóandi eðalsteinn – þannig heldur rauði liturinn áfram að rekja sig milli ljóða, oft í félagi við aðra liti, en alltaf hann sker sig svo úr, jafnvel þegar hann er í bakgrunni, eins og í ljóðinu „Íbis“: „Blikandi skjöldur á rauðum feldi./Rökkur./Rústir og steingervi tímans – /fuglmennið svarta.“

Ekki lætur Baldri síður vel að rissa upp magnaðar myndir í orðum. Í öðru ljóði ljóðabálksins „Kirkjan“ er mögnuð mynd af innviðum líkamans myndhverfðum í húsi – eða er það hús sem myndhverft er sem líkami?:

Í fölu myrkri innan fjögurra veggja: æðar og sinar strengdar þvert um salinn, strekktar á rafta, hert við skinin bein sem stingast inn úr svörtu fúnu holdi. Kirtlar til þerris: klasi upp við loft, hringaðir þarmar gerðir upp á snaga, lungu sem hanga rykfallin í horni, nýru sem liggja kramin út við gaflinn í fölu myrkri innan fjögra veggja, í grafhvelfingu meðvitundarinnar.

Og gulur bjarmi drýpur. Hvaða högg ... heyrast – sem stigið þungum frosnum fótum á fjalagólfi niður.
Hvaða högg?

Úrið sem mælir tímann undir kodda. Hjarta mitt kviksett, múrað inn í gaflinn.

Í strekktum æðum stígur marið blóð. Á strengdar sinar leikið hröðum höndum. Og lungun grípa andann snöggt á lofti en nýrun herpast saman út við gaflinn; sjá þarmakippan gefur frá sér slím, og klasinn fellur. Klasinn fellur ofan. –

Ljóðið er í fyrstu bók Baldurs, Svefneyjar (1966) og er sláandi grafískt. Í því birtast jafnhliða ímyndir úr hrollvekjum og goðsögum. Tilfinningin fyrir rými er margföld, í fyrstu er hátt og vítt til veggja, þar sem æðar og sinar eru strengdar þvert yfir salinn, en síðan skreppur rýmið saman í grafhvelfingu meðvitundar, og við erum skyndilega stödd í rúmi, með höfuðið á kodda og hjartað múrað í gaflinn og tilfinningin fyrir innilokun og köfnun tekur yfir.

Á stundum kallast Baldur á við þekkta myndlistarmenn og lýsir myndum þeirra í orðum. Í Leikvangi (1976) finnur hann „Giorgio De Chirico“ sem beinir honum að einkennilegum turni: „Hann er blár – segir hann – og rauður/hvítar súlur allt í kring á hæðum,/kemur í ljós nýmána .... hörfar/eins og regnbogi“. Í Hringhendu (1982) er ljóð um „Edvard Munch og fleiri“: „Tvær verur – logarauð og blá,/hvort vefur annað örmum á svörtu djúpi“, og í Döggskál í höndum (1987) er að finna ljóð innblásin af Kandinsky, Þorvaldi Skúlasyni og Rene Magritte og í ljóðinu „Insula Dulcamara“ vísar skáldið til samnefndrar myndar Paul Klee og ávarpar hann svo:

Kæri Páll,
í dag var ég að skoða eyjuna þína, víðan sjáinn

fiðlutónn
fettist upp á halanum
í löngum sveig
liðkar háls, reisir makka

kvika að kvöldi hneig
Dulcamara, mér datt í hug – eyja dáin

Þessi hugmynd um að teikna í orðum er síðan færð í form í ljóðinu „Teikn“ í Rauðhjöllum (1994), en þar teiknar skáldið upp táknsæja mynd af hyrndum manni, barni við hest og einhverjum sem kemur langt langt úr loftinu, er fjórir og eldur. En fyrst teiknar hann augu til að sjá myndina:

Efst teikna ég gleraugu með augasteina
- þau sjá allt
næst teikna ég manninn
og hann er með horn
neðst teikna ég skötuna skötuna
og hún kemur í manninn
nú teikna ég hestinn
og barnið er hjá hoonum –
litla barnið broosir hjá hestinum –
og svo

og svo teikna ég þann
sem kemur langt langt í loftinu
og hann er fjórir
og líka eldur.

Tónninn er barnslegur eins og birtist í hinu löngu o-um, og lesandi sér fyrir sér barnateikningu, mögulega af þeim félögum Satan, Jesú og Guði.
Baldur kallast einnig reglulega á við önnur skáld, enda er hann einnig ljóðaþýðandi og í bókum hans er meðal annars að finna þýðingar á ljóðum Lorca, Eliot, Soyinka, Machado og Barböru Köhler, auk kínversku skáldanna Lí Ho, Sjúang-sjú, Tú Mú og Lí Sjang-jinn.

Þrátt fyrir að Baldur Óskarsson sé í dag þekktastur sem ljóðskáld þá hóf hann rithöfundarferil sinn með smásagnasafni og skáldsögu. Skáldsagan Dagblað (1963) er, eins og titillinn gefur til kynna, saga um fréttamann á dagblaði. Eins og síðar meir í ljóðunum er það hin myndræna sýn höfundar sem gefur sögunni kraft, Baldur gæðir ritvélar og prentvélar lífi og skapar með því nokkuð ógnandi sýn, því vélar þessar hafa tilhneigingu til að gleypa fólk. Lýsingin á ritvél sögumanns er frábær og minnir skemmtilega á sýrðar senur úr bókum Williams Burroughs.

Hitabylgja kom út árið 1960 og inniheldur 12 smásögur sem fjalla ýmist um samtíma eða fortíð. Sögurnar eru táknrænar og biblíuþemu birtast víða og margar sagnanna eru með goðsögulegum blæ. Þessi biblíuþemu og vangaveltur um guð eru einnig ríkt þema í ljóðum Baldurs, eins og sjá má á ljóðunum „Teikn“ og „Vorljóð“. Í kaflanum „Helgimyndir“ í Krossgötum (1970) er sagt frá engli sem dregur saman skýin og kveikir regnboga, hann heldur á bók og stígur „brennandi fótum á jörðina – á hafið“, og „Inni í sortanum heyrði þrumurnar tala.“ Í Steinaríki (1979) er blóði roðið á báða stafi „Í þessu ljóði“ sem hefst með orðunum „mannlaust skip og mörg/brot af manni“.

Önnur goðmögn birtast í ljóðum Baldurs, eins og „Íbis“ og eins konar móður/jarðar- eða tunglgyðja sem í einu ljóði Leikvangs er nokkuð bosmamikil: „Hin bosmamikla gyðja er farin hjá./Maðkarnir gægjast upp úr moldinni.“ Hér er einnig kvengerfing á ferðinni, kvengerfing náttúrugoðmagna er algengt myndmál. Annað algengt þema, sem á stundum blandast hinu goðsögulega, er vísindi, sérstaklega stjörnuvísindi. „Í sólmánuði“ í Rauðhjöllum ljóma krónur trjánna í veldi ljóssins, Kónguló bíður við glitrandi vef sinn, kisa veiðir mús, „en ég er að lesa um svartholin í geimnum -/hvernig menn halda að svarthol veiði stjörnu“. Þannig gleypa vísindin goðmögnin, en þó ekki, því eins og segir í „Hawking – með fyrirvara“ í sömu bók, þá gæti hin nýja heimsmynd eðlisfræðinnar gefið til kynna að „heimurinn væri guð“.

Náttúran er spegluð í umheiminum og umheimurinn í náttúrunni. Náttúran er Baldri hugleikin eins og flestum íslenskum skáldum, þó ekki yrki hann hefðbundin landslagsljóð – ekki frekar en myndir Koberlings eru hefðbundnar landslagsmyndir. Landslagið birtist okkur frekar í nærmynd, smámynd, spegli eða sem sneið, eins og í ljóðinu „Að haustlagi“ í bókinni Gljáin, en þar hittir skáldið fyrir gæsahóp í túnkraga, „þær voru spakar og góndu á mig“. Honum sýnist þessir fuglar allir eins og sér heldur ekki muninn á grasinu sem greri í vor og hinu sem féll í fyrra. Í titilljóðinu „Gljáin“ er brugðið upp fjölda slíkra mynda: „Svart/ekki svart“, „en sægrænn litur bakvið slikju svarta/og litur blóðs/yfir sjónbaug“, „húsið með burstina dökku/blikar í straumi“, „reykblá fær rósalitinn/himinskálin“ og „nótt dimma nótt/hér líður tíminn líður/í þeim ljósa draumi/dimma/djúpa nótt“.

Stundum birtast næstum altækar yfirlitsmyndir úr náttúrunni. Í slíkum ljóðalandslögum lýtur tíminn sínum eigin lögmálum eins og kemur berlega í ljós í sjálfu „Tímalandinu“. Þar er dregin upp mögnuð mynd af sveit, dal eða bæ, sem eins og víðar tekur á sig guðlega mynd, með vísunum í jötur, engla, reykelsi og rödd hins Ókunna sem talar ofan af hæðum. Árstíðirnar eru felldar saman, „sléttan hvílist undir hjarni“ og „leirhnúkar standa vörð, albúnir að snúast gegn vorinu“. En vorið kemur samt og „gróðurinn réttir mér heitan ilm“, faðirinn stendur við slátt og svo haustar og „Haustið málar rautt og gult með vatnslitum“, og afi kemur í heimsókn með silfurbúinn staf og hvítur í augum.

Ljóðið sem er prósaljóð spannar tíma og rúm og getur þannig skoðast sem táknrænt fyrir ljóð Baldurs í heild sinni, og til að undirstrika tímaferðalagið frekar má skoða hvernig það kallast á við ljóð úr Rauðhjöllum. Í ljóðinu „Grá-Blá-Grænt“ er lýst ferð í Heiðmörk, þarsem „Barrið sníður vindinn, blágráan vindinn, í syngjandi strengi, og mosinn mýkir hvern tón“. Söngurinn er „Grá-blá-grænt“. Líkt og í „Tímalandi“ er dregin upp mynd af síkvikri náttúru, fullri af litum og hljómum. En nú hefur hið stóra táknlega samhengi árstíða og guða vikið fyrir kyrrlátari mynd af gönguferð og tónleikum vinda og gróðurs.

Þannig fylgir ljóðið tímanum eftir og breytist með honum og nálgun skáldsins á viðfangsefnið er ný. Í ljóðabókinni Eyja í ljósvakanum (1998) er einmitt áberandi þessi samfella nútímalegrar nálgunar og agaðs ljóðmáls sem hefur fágast og styrkst í tímalandi ljóðsins síðustu þrjá áratugina. Titillinn „Ljóð“ stendur yfir auðri síðu og virðist þar með lýsa yfir dauða þessa eðla forms – sérstaklega með tilliti til þess að skáldinu tekst svo fjálglega að lýsa formi „Sögu“ á síðunni á móti: „Hún á að enda/í þann mund sem er hafin/og hefjast á ný sem ylgja/undir-alda“. En kannski lýsir auður pappírinn alls ekki dauða ljóðsins, heldur einmitt orðfæð þess og kyrrð, gagnvart ylgju og undiröldu sögunnar. Það mætti hugsa sér að titill bókarinnar vísi til stöðu sjálfs ljóðsins, sem einskonar eyju í tæknivæddu samfélagi ljósvakamiðla.

Hafið er sterkt minni í Eyjunni, og þá oft í samsetningunni haf og himinn, þarsem vængjaðar verur sem fægja hugann „löngum vængjum/gráum“ eins og segir í „Þar“. „Sundmaður“ ákveður að sleppa og gefa eftir: „Hann var í hafinu/hafið í honum – snertir berggrunn og bláloftið/í sömu andrá“. Og sjálf eyjan í ljósvakanum birtist okkur þannig í „Ein kom nærri“: „Eyja í ljósvakanum/iðjagræn!/Austur um landið/sigli ég minn sjó“ og síðar, „Og þarna sé ég hana ennþá/eyjuna mína“. Blaðmikil jurt vex á bjargi við sjóinn, í rauðum sjó eru þungir straumar og íbjúgar stundir, í sögunni er undiralda og í „Bókmenntalegu minni“ lætur skáldið orð sín drjúpa í hákarlsuggasúpu freðmýrar, þangað til það bólar á þeim.

Eins og áður sagði eru ljóð Baldurs almennt kennd við módernisma, og bera merki táknsæis, en einnig bregður fyrir súrrelískum stundum eins og í ljóðinu „Hylur“ úr Krossgötum. Þar er dregin upp mynd af hyl, sem er bæði ímynd munns og augna: „Grænleitar varir teyga djúpan himin“ og fylla svartar kverkar af blárri veig, augun festast við úfinn og „kvöldrauð tunga seilist hægt um herðar“. Þessari kyrru mynd af hinum munúðarlega hyl er síðan sundrað þegar „andgustur fer um vatnið“ og „augun bresta“. Ljóðið er enn eitt dæmið um þá myndauðgi sem einkennir ljóð Baldurs og í þessum sterku myndum sameinast öguð nálgun á tungumálið og sá hæfileiki að bregða upp áhrifamiklum svipmyndum. Í ljóðinu sér lesandinn dimmbláan himinn speglast í svörtu vatninu sem er umkringt grænum börmum. Kvöldsólin varpar ílangri birtu yfir hylinn, sem einnig speglar augu áhorfandans og golan sem gárar vatnið gerir bæði að spilla kyrrð myndarinnar og hugsanlega vekja áhorfandanum tár, og sjónhverfingin brestur. Brestur augnanna táknar einnig dauðann, en dauðaminni eru víða, og hverfast iðulega í myndum. Í ljóðinu „Hanabjálkinn“ í Gestastofu skilur sólargeislinn við bláa ljósglætu á ljá og varpar svörtu krossmarki innum gluggann. „Hagldirnar horfast í augu“ og ljóðmælandi lætur sem hann sofi. Vögguvísan Bíbí og blaka myndar hér stef við þessa tvöföldu dauðamynd ljás og krossmarks og svefn vögguljóðsins tekur á sig uggvænlegan blæ. Enn er dauðinn myndaður í ljóðinu „Mynt“ úr sömu bók, en þar er að finna meiri leik með hefðbundið dauðamyndmál. Myntin speglar kringlótt form klukkunnar sem telur kringlóttar stundir sólarhringsins. Og ljóðmælandi ákallar sláttumanninn sem er hin hefðbundna ímynd dauðans, nema nú í líki myntsláttumanns: „Hvers mynd og yfirskrift er þetta, sláttumaður?“

Þessi ljóð eru eins og kyrramyndir af dauða og fegurð, skarplega dregin andartök, snöggar skissur sem spila á skugga og ljós. Ljóðið er það form orða sem mest líkist myndlist, knappt form nútímaljóðsins lagar sig betur að svipmyndum og augnablikum en frásögum. Slíka svipmynd er að finna í „Á ferð í rútu – austurleið“ í Gljánni, en þar kemur kvöldið með smyrslin sín „og ber í augu farþeganna/Og lítill drengur segir í hálfum hljóðum:/Mamma – sjáðu hvað allt er fallegt“. Það er í þessum myndrænu ljóðum sem ljóðlist Baldurs ber hvað hæst, hann fangar kringlóttar stundir og þær líða ekki, heldur „hvíla, eins og litafletir, hlið við hlið“, eins og segir í ljóðinu „Hvíldardagur“ úr sömu bók. „Nú vef ég að mér, einum svona degi“, segir ljóðmælandi og ljóðið endar í þessari fullkomnu, en þó síkviku kyrrð, sem skáldinu lætur svo vel að skapa.

© Úlfhildur Dagsdóttir, 2002

Almenn umfjöllun

Eysteinn Þorvaldsson: „Blátt er stormsins auga: um ljóðagerð Baldurs Óskarssonar“
Andvari, 116. árg. 1991, s. 138-154

Um einstök verk

Dagblað

Ólafur Jónsson: „Indriðaskólinn“ (ritdómur)
Félagsbréf, 9. árg., 2. tbl. 1963, s. 56

Endurskyn

Sigurður Hróarsson: „Staðgengill óendanleikans“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 3. tbl. bls. 137-40.

Gestastofa

Erlingur E. Halldórsson: „Sjónhimna og hylur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 34. árg., 3.-4. tbl. 1973, s. 315-318

Langtfrá öðrum grjótum

Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 201-10.

Year:
1988
Publisher:
Category:
Year:
2007
Category:
Year:
2002
Publisher:
Category:
Year:
1987
Publisher:
Category:
Year:
2014
Publisher:
Category:
Year:
2004
Publisher:
Category:
Year:
2006
Publisher:
Category:
Year:
1998
Publisher:
Category:
Year:
1973
Publisher:
Category:
Year:
1990
Publisher:
Category:
Year:
1982
Publisher:
Category:
Year:
1970
Publisher:
Category:
Year:
2010
Publisher:
Category:
Year:
1976
Publisher:
Category:
Year:
1994
Publisher:
Category:
Year:
1979
Publisher:
Category:
Year:
1966
Publisher:
Category:
Year:
1963
Publisher:
Category:
Year:
1960
Publisher:
Category:
Ár:
1963
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2002
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1987
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2014
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2004
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
2006
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1998
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1973
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1990
Útgefandi:
Flokkur:
Ár:
1960
Útgefandi:
Flokkur:
Í upphafi bókar Baldurs Óskarssonar, Langtfrá öðrum grjótum, eru þessi orð: Nóg er ort / og kannski var það markmið / að gefa tauminn slakan /losa knjátakið. Einhverntíma tilkynni Baldur mér að nú væri hann væri hættur að yrkja ljóð. Það var fyrir allavega þremur bókum síðan. Og í fyrra sendi hann frá sér þessa massívu bók sem telur tæpar 200 síður og þarmeð tæp 200 ljóð. Einkunnarorðin eiga vel við, því þó nóg sé kannski ort er engin ástæða til annars en að gefa tauminn slakan og það virðist skáldið hafa gert, því hér ægir öllu saman, vandlega smíðuðum ljóðum, örstuttum hugleiðingum og svo ljóðum sem eru meira eða minna stef við eða einskonar samtal við ljóð annarra skálda.
Ekki láir við stein eftir Baldur Óskarsson

Með þessum orðum tekur ljóðabók Baldurs Óskarssonar á móti lesanda: "Við fyrstu kynni er ljóðabókin borg / séð frá hafi / Þú siglir meðfram ströndinni / götur opnast og sund / og líklega tími til kominn / að leita hafnar". Og að lokum: "Líklega tekur borgin þér opnum örmum". Ég man varla eftir skemmtilegra og sterkara upphafsljóði á ljóðabók, mér fannst eins og mér væri tekið opnum örmum og fann strax hvernig bókin fangaði mig – eftir svona upphaf er ekki annað hægt en að lesa sig áfram og sjá hvað gerist, hvort ekki opnist götur og sund. Og sem fyrr olli Baldur mér ekki vonbrigðum, það líf og sá leikur sem heillaði mig þegar ég fyrst las ljóð hans er hér enn til staðar, auk þess sem litagleðin er ríkjandi sem fyrr.

Ég man ekki hvort það var fyrir tveimur eða þremur ljóðabókum sem Baldur tilkynnti að sú yrði hans síðasta. Gott ef þetta var ekki Dagheimili stjarna sem kom út árið 2002, árið sem skáldið varð sjötugt.

Ljóðið „Klúka“ hefst á þessum línum: „Stundin sem okkur var gefin / og nú ber að þakka“, á vel við þegar ég sest niður og skrifa umfjöllun um síðustu bækur Baldurs Óskarsson