Villueyjar

villueyjar
Ár: 
2019
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Sjálfstæð hetja í leit að sannleikanum

Villueyjar er önnur bók Ragnhildar Hólmgeirsdóttur. Fyrri bók hennar, fantasían Koparborgin, kom út árið 2015 og var tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og til Fjöruverðlaunanna, auk þess sem hún hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar. Villueyjar er sjálfstætt framhald af Koparborginni, en borgin úr þeirri síðarnefndu tilheyrir nú fortíðinni og dularfullum horfnum heimi sem aðalpersóna Villueyja, hin 14 ára gamla Arilda, fær smjörþefinn af í upphafi sögunnar.

Arilda og yngri bróðir hennar Maurice eru af fátækum aðalsættum og alast upp hjá öldruðum afa sínum eftir að foreldrar þeirra deyja þegar systkinin eru mjög ung. Þau ganga í heimavistarskóla fjarri heimahögunum, á afskekktri eyju þar sem ekkert virðist þrífast annað en skólinn þeirra. Arilda er afbragðsnemandi og stefnir á feril í þjónustu konungsríkisins; hún vill fá tækifæri til að sjá heiminn og gera merkar uppgötvanir og allt virðist stefna í að þessi draumur hennar muni rætast. Uppáhaldsfagið hennar í skólanum er kortagerð og þennan örlagaríka vetur er nýr kennari í faginu, sem ákveður að bregða út af vananum og senda nemendur í óvenju langan könnunarleiðangur um eyjuna. Arilda lendir í ógöngum og villist í mikilli þoku og fyrr en varir áttar hún sig á því að þokan geymir eitthvað hræðilegt sem vill henni illt. Hún kemst undan við illan leik en hún getur ekki hætt að hugsa um hryllinginn sem hún fann fyrir og ákveður að leita sannleikans um eyjuna sem skólinn hennar stendur á. Leit hennar leiðir hana að ýmsum uppgötvunum sem eiga eftir að kollvarpa heimsmynd hennar og sýn hennar á lífið. Hún þarf að treysta á sjálfa sig, greiða úr misvísandi upplýsingum og feta hættulega slóð til að ná takmarki sínu og komast að sannleikanum.

Arilda ferðast vítt og breitt í leit sinni að upplýsingum sem geta leitt hana á rétt spor og heimur sögunnar leikur stórt hlutverk í þessu samhengi. Þrátt fyrir að sögusviðið sé fantasíuheimur ber hann ákveðin líkindi við okkar heim og er það einna helst áberandi í staðarnöfnum og sögulegum atburðum sem vísa í staði og atburði í heimsmynd og menningarsögu okkar heims. Söguheimurinn er á heildina litið afskaplega vel uppbyggður og umhverfið sem Arilda lifir og hrærist í stígur ljóslifandi fram í huga lesandans. Jafnvægi milli persónusköpunar og umhverfis er mjög gott en Arilda sjálf, Maurice og Kórinna vinkona Arildu eru helstu persónur sögunnar. Þær eiga það sameiginlegt að vera marglaga og breyskar, þær búa allar yfir kostum og göllum sem gera þær mannlegar og meira trúverðugar. Þó að Arilda sé hetjan er hún þannig líka unglingsstelpa sem glímir við sjálfsmynd sína og hugmyndir um stöðu sína í lífinu. Hin ungi Maurice er annars vegar kátur og kærulaus en líka stundum lítill og umkomulaus og Kórinna er stundum fljót að rjúka upp í reiði sem kemur henni oft í vandræði, en er á sama tíma sönn og trygg vinkona.

Fantasíur fjalla yfirleitt á einhvern hátt um baráttuna milli góðs og ills og í Villueyjum kemst Arilda að því að það er ekki eins auðvelt og hún hélt í fyrstu að greina í sundur hver tilheyrir hvaða fylkingu, hverjir eru góðir og hverjir illir. Hún fær ekki bara innsýn í veröld sem hún vissi ekki að væri til í gegnum það ólíka fólk sem hún kynnist á ferð sinni, heldur áttar hún sig líka á því að glæst stríð og hetjudáðir konunga sem hún lærir um í skólanum segja ekki endilega alla söguna, heldur hefur saklaust fólk í gegnum tíðina liðið fyrir hvert stríð og hvern sigur og fært hrikalegar fórnir sem aldrei er talað um. Heimsmynd Arildu molnar smátt og smátt, reynslan sem hún öðlast á ferðalaginu þroskar hana og breytir sýn hennar á lífið. Hún lærir að hafa varann á og treysta á sjálfa sig en líka að þiggja hjálp og leiðbeiningar frá vinum og bandamönnum þegar það á við.

Fantasíur og sígild ævintýri eru nátengd og eiga margt sameiginlegt og saga Arildu er engin undantekning þar á, en úrvinnslan á þeirri hefð er hér nýstárleg, bæði nútímaleg og áhugaverð. Hetjan Arilda er ekki aðeins fátækur en göfugur kolabítur sem þarf að bjarga konungsríkinu heldur er hún líka prinsessan í álögum. Hún er jú aðalskona og flíkar því reglulega til að komast áfram, auk þess sem í ljós kemur að á henni hvíla einskonar álög. Hún er tvær dæmigerðar ævintýrapersónur sem slegið er saman í eina, engin þörf er á prinsi til að bjarga henni úr háska og berjast við ófreskjur heldur sér hún alfarið um það sjálf, með leiðsögn frá vitrum leiðbeinendum, galdraþulum og töfragripum, eins og vera ber.

Villueyjar fer rólega af stað en jafn og þéttur stígandi leiðir að óhjákvæmilegu lokauppgjöri sem endar með slíkri óvissu að ekki er annað hægt en að vonast eftir framhaldi. Koparborgin kemur reglulega við sögu en tengingin við borgina er nokkuð óljós og virðist einna helst til þess fallin að gefa vísbendingu um að vænta megi framhalds í einhverri mynd. Að öðru leyti er gengið frá öllum þráðum sögunnar og fléttan gengur vel upp. Villueyjar er þannig vel skrifuð og grípandi bók sem maður sökkvir sér í, enda bæði áhugaverð og heillandi fantasía.

 

María Bjarkadóttir, desember 2019