Valur eignast vinkonu, Holupotvoríur alls staðar! Dinna í blíðu og stríðu

Valur eignast vinkonu
Ár: 
2021
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Holupotvoríur alls staðar!
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Dinna í blíðu og stríðu
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Traustur vinur getur gert kraftaverk

Það jafnast ekkert á við góðan vin. Vináttan er eitt það mikilvægasta í lífi okkar allra og góðir vinir styðja hvorn annan í gegnum súrt og sætt. Það felst mikill þroski í því að eignast vini þó að stundum getur reynst snúið að fóta sig í nýjum samskiptum. Börn eiga oft í svo fallegum samskiptum sín á milli og oft getur stuðningur vina á jafningjagrundvelli verið alveg jafn mikilvægur og sá sem foreldrar veita. Barnabækurnar sem hér verða teknar til umfjöllunar fjalla allar um vináttuna, hvernig sögupersónurnar mynda ný tengsl eða styrkja gömul. Valur eignast vinkonu og Holupotvoríur alls staðar! sýna mikilvægi fjölbreytileikans og það hvernig börn úr ólíkum áttum geta myndað með sér sterk vinasambönd og Dinna í blíðu og stríðu fjallar um það hvernig vinir styðja hvern annan í gegnum erfiðleika og áföll. 

Vinir úr ólíkum áttum

Valur eignast vinkonu er önnur bókin um Val en sú fyrri, Valur eignast systkini, kom út árið 2019. Höfundur bókarinnar er Helga Sigfúsdóttir og myndirnar gerir Jóhanna Þorleifsdóttir. Líkt og í fyrri bókinni sækir Helga í persónulega reynslu við skrif sögunnar en hún er móðir tveggja drengja sem veita henni innblástur við gerð sagnanna um Val. Í fyrri bókinni lærir Valur að ekki eru allir eins, en litli bróðir Vals, Hafsteinn Nói, fæðist með skarð í vör og góm.

Að þessu sinni byrjar ný stelpa á leikskólanum hans Vals, hún heitir Eva og kemur frá Þýskalandi. Eva skilur ekki íslensku og talar bara þýsku. Valur og vinir hans á leikskólanum taka henni opnum örmum og komast fljótt að því að þrátt fyrir að Eva tali annað tungumál geta þau skemmt sér konunglega saman. Eva verður enga stund að læra íslensku og krakkarnir læra smá þýsku á móti.

Bókin hentar lesendum á eldri árum leikskólagöngunnar og þó það sé töluverður texti á hverri síðu eru myndirnar litríkar og skemmtilegar og börnin kannast vel við aðstæður sögupersónanna. Þrátt fyrir að bókin gerist á leikskóla á efni sögunnar vel erindi við eldri börn og þegar ég las bókina fyrir 3ja ára son minn var eldri bróðir hans, 7 ára, sestur hjá okkur um leið og fylgdist hugfanginn með. Það er sérstaklega gaman að sjá að á myndum Jóhönnu eru bæði börn og kennarinn á leikskólanum hans Vals af margvíslegum uppruna. Með því skapast ekki andstæður með komu Evu í skólann. Það er alls ekki verið að ýta undir það að útlendingar séu ólíkir íslendingum í útliti heldur er fjölbreytileiki til staðar fyrir og Eva bætist í flóruna. Sagan vekur þá hugsun hjá börnum að heimurinn er stærri en þau geta ímyndað sér og að það er fleira en bara tungumál sem veldur því að tvær manneskjur skilji hvor aðra.

Sammannlegur skilningur

Holupotvoríur alls staðar! eftir Hilmar Örn Óskarsson fjallar um vinina Maríus og Hávarð, 8 ára stráka í sumarfríi sem kynnast Bartek sem er nýfluttur til Íslands frá Póllandi. Strákarnir lenda í æsispennandi ævintýri og taka upp á ýmsu drepfyndnu. Bókina prýða myndir eftir Blævi Guðmundsdóttur sem styðja við textann sem er töluverður en bókin er hluti af Ljósaseríu Bókabeitunnar. Í henni eru bækur sem eru sniðnar að þörfum nýrra lesenda og kjörnar fyrir þá sem eru að æfa sig í lestri. Holupotvoríur alls staðar! hentar vel til þess að nýlega læs börn æfi sig að lesa sjálf en hún er ekki síður skemmtileg samlesning fullorðinna og barnanna.

Bókin segir eins og áður kom fram frá þeim Maríusi og Hávarði sem kynnast Bartek sem er nýfluttur frá Póllandi og hefur ekki lært stakt orð í íslensku. Allt sem Bartek segir er því skrifað á pólsku og svo er þýðingaskrá aftast í bókinni og þangað þarf að fletta til að skilja það sem Bartek segir. Þrátt fyrir að tala ekki sama tungumálið er einhver sammannlegur skilningur á milli drengjanna þriggja og þeir leggja af stað í mikla hættuför að rannsaka steypt rör rétt hjá heimilum þeirra sem þeir eru vissir um að sé fullt af skrímslum. 

Bókin er uppfull af húmor og strákarnir taka upp á ýmsu mjög fyndnu. Einnig verður mjög fyndið þegar strákarnir reyna að skilja hvorn annan með því að teikna upp það sem þeir vilja koma til skila og þegar íslensku drengirnir reyna fyrir sér á pólsku og Bartek á móti á íslensku. Samskipti drengjanna eru engu að síður falleg og tær, þeir eru ekkert að búa til vandamál úr því að tala ekki sama tungumál, þeir finna bara lausnir og læra að skilja á nýjan hátt.

„Varlega,“ sagði Hávarður og lagði hönd á öxlina á Bartek.
„Warlegha,“ svaraði Bartek og kinkaði kolli.
„Ostrożnie,“ hvíslaði hann svo og hélt áfram.
Hávarður vissi að þeir Bartek höfðu skilið hvor annan þótt þeir hljómuðu ekki nákvæmlega eins. (52)

Þó að bókin fjalli um hvernig drengirnir þrír tali saman án sameiginlegs tungumáls er því umfjöllunarefni ekki troðið framan í lesendur. Fléttan þeysist áfram þegar drengirnir leggja í spennandi leiðangurinn og það að Bartek tali pólsku og strákarnir íslensku verður að eðlilegum hlut í söguheiminum.

Holupotvoríur alls staðar! er stórskemmtileg bók og líkega koma bestu meðmæli sem hægt er að gefa henni frá 7 ára syni mínum sem sagði á meðan lestrinum stóð „Þessi bók er svo skemmtileg að ég vona að hún sé milljón kaflar!“ Hvað titilinn varðar verður því ekki uppljóstrað hér hvað holupotvoríur eru, ef þið viljið komast að því þurfið þið einfaldlega að lesa bókina.

Vinátta í gegnum súrt og sætt

Dinna í blíðu og stríðu er fjórða bókin í sænska bókaflokknum um Dinnu eftir Rose Lagercrantz í þýðingu Guðrúnar Hannesdóttur. Bækurnar um Dinnu fjalla um Dinnu sem býr með pabba sínum en mamma hennar er dáin. Í þessari bók er Dinna í sumarfríi eftir fyrsta bekk en jafnaldrar Dinnu eru einmitt markhópur bókaflokksins, börn sem eru nýbyrjuð að lesa sjálf. Textinn er hæfilega flókinn og ekki of mikið magn á hverri síðu og myndir Evu Eriksson eru einfaldar en fallegar svarthvítar teikningar sem styðja vel við textann.

Sumarfríinu eyðir Dinna úti í eyju með Ellu Fríðu bestu vinkonu sinni og fjölskyldu hennar. Dinna skemmtir sér vel en dvölin í eyjunni er þó ekki komin til af góðu því að um vorið varð pabbi hennar fyrir bíl og hefur verið mikið slasaður á sjúkrahúsi. Pabbi hennar hringir þó í hana á hverju kvöldi en eitt kvöldið kemur ekkert símtal og Dinna verður leið og áhyggjufull. Daginn eftir kemur pabbi óvænt í heimsókn í eyjuna og er með Veru, nýju kærustuna sína, með sér. Dinna tekur þessum fréttum ekki vel og lokar sig af og neitar að tala við pabba sinn og Veru. Samband Dinnu og Ellu Fríðu er einstakt og í bókinni takast þær saman á við súrt og sætt. Vinkonurnar fíflast saman og gera ýmislegt fyndið og sniðugt. Sérstaklega fyndið og skemmtilegt atvik á sér stað þegar Ella Fríða á að vera að æfa sig á fiðluna sína en stingur upp á því að gera það frekar úti í vatninu.

Ella Fríða stóð úti í vatninu og spilaði ofsahratt á fiðluna en Dinna dansaði í kringum hana og lét eins og hún væri orðin alveg tryllt.
Hún steypti sér kollhnís, snérist eins og skopparakringla og gólaði af öllum kröftum.  (48)

Þetta atvik á sér stað rétt áður en pabbi Dinnu og Vera koma út í eyjuna og þess vegna er breytingin sem verður á líðan Dinnu við fréttirnar um Veru sérstaklega áberandi. Stuðningur Ellu Fríðu er Dinnu afar mikilvægur í framhaldinu. Hún passar upp á vinkonu sína og styður hana í gegnum erfiðleikana á frumlegan og skemmtilegan máta. Í lok sögunnar hefur Dinna sæst við pabba sinn og tekið gleði sína á ný. Hún hefur líka eignast nýja vinkonu úr ótrúlegustu átt þegar hún ákveður að Vera skuli fyrst og fremst vera vinkona sín og ekki kærasta pabba hennar.

Vináttan er einn mikilvægasti þáttur í lífi okkar allra, bæði barna og fullorðinna. Börnum er mikilvægt að sjá sterk og falleg vinasambönd í bókum sem þau lesa. Í bókum geta þau séð margar hliðar mannlegra samskipta og lært ýmislegt sem getur nýst þeim í raunveruleikanum. En bækur fyrir börn eru ekki eingöngu til að kenna og fræða, þær þurfa líka að veita gleði og hamingju og best er þegar þetta tvennt tvinnast saman þannig að annað styðji hitt. Bækurnar sem hér hefur verið fjallað um gera það svo sannarlega.
 

Kristín Lilja, desember 2021