Umfjöllun: Listin að bjarga verðmætum

umfjöllun
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Listin að bjarga verðmætum

Höfundaverki Þórarins Eldjárns mætti lýsa sem skáldæð sem rennur í nokkrum vel skilgreindum kvíslum. Formin skilgreina bakkana, og efnisinnihald straumanna og að einhverju leyti efnistök skáldsins eru talsvert ólík frá einni til annarrar. Skáldsögurnar hafa önnur erindi en smásögurnar, ljóðin fara sínu fram, og það er sérstakt skoðunarefni hvað er líkt og hvað ólíkt með því sem Þórarinn yrkir fyrir fullorðna ljóðkera og svo börnin, sem hann hefur sinnt öllum íslenskum skáldum best og lengst, eða frá því Óðfluga kom út 1991. Það er viðeigandi að byrja í þeirri einstöku kvísl.

Barnaljóð

Beittur orðabeitari,
besti samanskeytari.
Algjör yfirfleitari,
ekki á skeri steytari.
Orðaþrautaþreytari,
þjálfari og spreytari. …

(“Rímleitarinn”, Fuglaþrugl og naflakrafl)

Frá aldamótum hafa komið út einar tólf bækur í bundnu máli Þórarins ætlaðar börnum. Þar af sjö í „meginstrauminum“, ef svo mætti kalla bækurnar sem hann hefur unnið með Sigrúnu systur sinni: Grannmeti og átvextir (2001), Tíu litlir kenjakrakkar og Gælur, Fælur og þvælur (2007), Árstíðirnar (2010), Fuglaþrugl og naflakrafl (2014), Ljóðpundari (2018) og Rím og roms (2021).

Við þetta bætist Á dýrabaki (2006), lítil bók sem Þórarinn „ljóðskreytti“, en Brian Pilkinton samdi og teiknaði, og tvö lítil kver með vatnslitamyndum Eddu Heiðrúnar Backman og vísum Þórarins, Ása og Erla og Vaknaðu, Sölvi (2012). Þá eru ónefnd endurort Hávamál (2011) með myndlýsingum Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, sem kallast á við barnaútgáfu Völuspár sem kom fyrst út 1994. Einnig Karnival dýranna (2010), þar sem Þórarinn yrkir vísur í bók með myndum Kristínar Maríu Ingimarsdóttur byggðum á samnefndu tónverki Camille Saint-Saëns.

Þannig líða sjaldnast meira en ein þrjú ár milli bóka af þessu tagi hjá Þórarni. Fyrir vikið eru barnaljóðin smám saman orðinn einn viðamesti hluti höfundarverks hans, nokkuð sem óvíst er að hafi hvarflað að honum þegar Óðfluga fór í prentsmiðjuna.

Efnistök, stíll og yrkisefni hafa líka haldist í svipuðum dúr allar götur frá Óðflugu. Ljóðin eru jafnan stutt, eitt til fjögur erindi velflest. Vel mætti hugsa sér lengri bálka af barnaefni, jafnvel í anda Disneyrímna.  Stærri sögur í ljóðformi, þjóðsögur eða annað, gætu verið áhugavert tilbrigði í barnaljóðaflóruna. Einnig mætti hugsa sér bækur með sterkari þemabindingu. Sú eina þeirra sem lýtur þannig aga er Árstíðirnar, en hún sker sig merkilega lítið frá öðrum bókum að innihaldi, þó ljóðunum sé raðað eftir tengslum sínum við vetur, sumar, vor og haust. Eina dæmið um slíkan bálk eru Tíu litlir kenjakrakkar, sem ætlað var að leysa af hólmi Tíu litla negrastráka, sem eðlilega þykir óviðeigandi í nútímanum.

Þess má að geta að á þessum tíma hefur Þórarinn íslenskað þrjár erlendar ljóðsögur fyrir börn, Greppikló (The Gruffalo, 2003) og Greppibarnið (The Gruffalo’s Child, 2004) eftir Juliu Donaldson og Örleifur og hvalurinn (Pan Maluskiewicz i wieloryb, 2014) eftir Julian Tuwim. Smáritin sem Þórarinn vann með Eddu Heiðrúnu og Brian Pilkinton eru vissulega samfelldar smásögur en vel hægt að ímynda sér viðameiri verk frumort eða lengri sögur í ljóðbúningi.

Það væri líka áhugavert að sjá Þórarinn gera tilraunir með að yrkja ljóð fyrir börn í óbundnu formi, eða allavega lausara en raunin hefur orðið. Eftir því sem hefur liðið á feril hans á sviði „fullorðinsljóða“ hafa skilin milli háttbindingar og frjálsari efnistaka orðið óskýrari og merkilegt hvað það hefur lítið smitast inn í barnaefnið. Er þó leikur að orðum og rannsókn á merkingu þeirra ekki síður mikilvæg þar en í fullorðinsefninu, þar sem losaralegra form virðist ekki hentar síður við orðaleikina en bragarhættirnir gömlu.

Yfirlýst erindi Þórarins við börnin er vissulega ekki síst að kynna þau fyrir íslenskri kveðskaparhefð og þeim reglum ríms, hrynjandi og ljóðstafa sem þar gilda. Að því leyti eru bækurnar nokkurs konar dæmasafn, sem spannar allt frá dróttkvæðum hætti til sonnettu með viðkomu í algengum rímnaháttum.

Sú bókanna sem rekur þetta erindi skilmerkilegast er Gælur, fælur og þvælur, sem er nokkurskonar háttatal, með nöfn bragarháttanna fyrir neðan heiti kvæðanna. Þessar þröngu skorður virðast hafa hentað Þórarni vel, því þetta er albest heppnaða bókin hvað innihald snertir. Sem dæmi má nefna þessa sérlega skýru, einföldu en þó heimspekilegu lýsingu á skjaldböku (undir langhenduhætti):

Hún Baka Skjaldar er bráðvel gefin,
betur en sumt mannfólkið.
Kann að stíga stuttu skrefin,
stefnir alltaf fram á við.

Baka kvartar engu yfir,
áfram gengur hægt og vel.
Ríku innra lífi lifir
læst – og frjáls – í sinni skel.

Þess má geta í framhjáhlaupi að þónokkur tónskáld hafa spreytt sig á að tónsetja barnaljóð Þórarins. Einhver albest heppnaða atlagan er einmitt hljómdiskurinn Gælur, fælur og þvælur, þar sem Ragnheiður Gröndal syngur lög Jóhanns Helgasonar við ljóð úr samnefndri bók auk nokkurra annarra. Lögin eru dýrðleg í einfaldleika sínum og vinna frábærlega með ljóðunum.

Yrkisefni barnaljóðanna eru – vitaskuld – gjarnan úr heimi barnsins. Nútímalegum hversdagsheimi, en ekki síður úr heimi sveitar og náttúru sem fæst börn hafa beina reynslu af í dag. Þjóðsögur og eru teknar nýjum tökum. Nefna má sem dæmi, bæði úr Grannmeti og ávöxtum, hana Gilitrutt sem allir vita núna hvað heitir („engin persónuvernd“) og hefur því misst máttinn, og Nykurinn í samnefndri tjörn fyrir norðan, sem hefur bætt ráð sitt og kominn í ferðaþjónustu, og ekki lengur við hæfi að hæðast að hófunum hans á okkar siðvöndu tímum.

En fyrst og síðast er það tungumálið sjálft sem er viðfangsefni skáldsins. Það á ekki síður við um barnaljóðin en þau sem ort fyrir þau sem eldri eru. Oft virðist kveikjan vera ný hlið á gömlu orði, sjaldséðir möguleikar á rími, óvænt samhengi. Þannig er það með Robba rafmagnsmann (Rím og roms) sem á sér þá æðstu þrá að „efla stuð“ og er „kannski spennufíkill“.  Í Fuglaþrugli og naflakrafli rekumst við á afa að iðka forna lestrarkennsluaðferð:

Hann er bráðum búið spil
en býsna seigur enn:
Með bandprjónsaðferð býr hann til
bókstafstrúarmenn.

Í sömu bók er orðið „jólastress“ sett í nýtt og dramatískt samhengi af miklum glæsibrag:

Rjúpan fer í fötin senn,
fína hvíta dressið.
Bráðum koma byssumenn,
byrjar jólastressið.

Leikur að málinu er gegnumgangandi í ljóðabókunum, en mögulega mest áberandi í tilraunagleðinni í Grannmeti og átvöxtum. Titilljóðið er t.d. langur bálkur af upptalningu orða sem hljóma eins og möguleg ávaxtaheiti (sviðaldin, sæfíkjur, nöldrur) og nöfn á óþekktum grænmetistegundum (sauðlaukar, kviðkur, átómatar). Í öðru ljóði, Klarinetttitttré, safnar Þórarinn saman öllum hugsanlegum, og nokkrum illhugsanlegum, orðum þar sem sömu stafir koma þrisvar fyrir í röð.

Í sömu bók er líka sonnettan “Fugl þar sem var lauf”, þar sem skáldið notar einungis einsatkvæðisorð af mikilli íþrótt, sem efast má um að sé alveg við barna hæfi. Lokalínurnar eru svohljóðandi:

En þar sem lauf hékk sest nú fugl við fugl
er fyllt í skarð? Nei, æpt og skríkt tómt rugl.

Einsatkvæðissonnettann birtist fyrst í Yrkju, afmælisriti til Vigdísar Finnbogadóttur (1990), sem undirstrikar hve óljós mörkin milli barnaljóðanna og hinna sem ætluð eru fullþroskuðum ljóðaunnendum geta verið í skáldskap Þórarins.

Skyld hugsun kviknar við lestur útgáfu Þórarins á Hávamálum. Þar vekur athygli hve skammt hann gengur í raun við að enduryrkja þetta forna og torskilda kvæði. Bæði hvað varðar orðfæri, en líka í að gera siðaboðskapinn „boðlegan“ í okkar pena nútímasamfélagi:

Ef annan þú átt
sem þú illa treystir
en vilt samt hafa gott af honum
skaltu fagurt við hann mæla
en flátt hyggja
og launa fals með lygi.

Alltaf er eitthvað sem gleður í barnaljóðum Þórarins Eldjárns. Óvænt rím, ófyrirséður endahnykkur, ný vending orðanna. Þá verður líka að minnast á hlut Sigrúnar Eldjárn, sem vitaskuld er einnig afkastamikill og merkur höfundur sjálf. Sá heimur sem Sigrún hefur skapað í myndum sínum, bæði í ljóðabókunum sem hún vinnur með bróður sínum og í hennar eigin verkum, er ótrúlega heildstæður og skemmtilegur. Nánast eins og annað Ísland; litríkt, raunsætt, ævintýralegt, þjóðlegt og sérviturt.

Segja má að það sama gildi um barnakveðskap Þórarins.

Fullorðinsljóð

Ég uni mér við íþrótt
í ólgandi kyrrð
tengi orð við orð
færi orð af orðum
færi orð í orð
ýmist blíð eða stríð
berskömmótt eða launheit

Sú er sífelldlega
og sannlega vammi firrð

(“Vammfirðing”, úr samnefndri bók)

Fyrstu óbundnu ljóð Þórarins birtust í fjórðu ljóðabók hans, Yddi (1984), og þóttu nokkur tíðindi, enda sérstaða hans sem ungt skáld að vinna innan strangrar hefðar fyrri alda hans helsta og þekktasta einkenni. Enda reyndist Þórarinn síður en svo hættur að lúta þeim aga og allar götur síðan hafa þessar tvær hefðir lifað saman í ljóðlist hans fyrir fullorðna. Barnaljóðagerðin hefur alfarið verið helguð rími og ljóðstöfum, enda tilgangur hennar öðrum þræði að þjálfa brageyra yngstu kynslóðarinnar.

Ekki er laust við að það sé samhljómur á stundum milli bundna málsins í barnabókunum og hinum sem ort eru fyrir fullorðna. Sem verður að telja til marks um hversu mikið skáldið leggur af sjálfu sér í barnakveðskapinn, til viðbótar við fræðslu- og þjálfunargildið.

Frá aldamótum hefur Þórarinn sent frá sér sex frumortar ljóðabækur sem ekki eru beinlínis ætlaðar börnum. Hættir og mörk (2005), Fjöllin verða að duga (2007), Vísnafýsn (2010), Tautar og raular (2014), Vammfirring (2018) og Til í að vera til (2019). Athygli vekur að milli Hátta og marka og næstu ljóðabókar á undan líða fjórtán ár, langlengsta tímabil án fullorðinsljóðabókar á ferlinum. Á þeim tíma koma tvær viðamestu skáldsögur Þórarins út: Brotahöfuð (1996) og Baróninn (2004), tvö smásagnasöfn og nokkrar barnabækur, auk smáprósakversins Ég man (1994). En frá því ljóðagerðin sneri aftur á verkefnaskrá skáldins hafa bækurnar birst með nokkuð reglulegu millibili.

Margt af því sem þegar hefur verið sagt um Þórarinn sem barnaljóðskáld á jafn vel við um hitt sem hann yrkir fyrir „jafningja“ sína. Sérstaklega gildir það um viðhorfin til tungumálsins sjálfs og fyrirferð þess í skáldskapnum : Hvernig það er bæði verkfæri og eitt helsta viðfangsefni skáldsins, leit að hinu óvænta í orðunum, eiginleikum sem dagleg notkun þeirra dylur. Jafnvel alveg niður í greinamerki, eins og í prósaljóðinu “Pláss” í Fjöllin verða duga, þar sem spurningamerki eru kölluð „eyru textans“.

Þessi glíma og dans við tungumálið er hreint ekki alltaf stiginn sérlega hátíðlega. Þvert á móti. Orðaleikir, ekki allir rándýrir, virðast oft vera bæði kveikja og helsta erindi kvæðanna.

Ég leita svo mikið í lágkúru
– að launum ég hlýt marga ákúru –.
Þetta’er aldeilis hreint
ekki af áhuga beint
heldur af andúð á hákúru.

(“Kúrur”, Vísnafýsn)

Og mikið er gaman þegar frumleg hugsun og snjöll mynd rúmast í fullkominni ferskeytlu. Þannig lagað gera fáir betur en Þórarinn:

Bruna hratt með barðahví
bílar svartan dregil.
Kókett Esjan kíkir í
Kollafjarðarspegil

(“Sætt landslag”, Tautar og raular)

Í síðari ljóðabókunum (og smásagnasöfnunum örlítið líka) ber dálítið á óþoli gagnvart ýmsum eiginleikum nútímans. Það ræðst síðan af afstöðu lesandans til hvers viðfangsefnis hvað virkar hnittið og hvað ekki:

Framförum ég flíka
og fagna ef ég get.
Allt sem var áður klíka
er orðið tengslanet.

(“Framfarir”, Til í að vera til)

Hressandi „gamaldags“ heimsósómi sést líka, eins og í bálkinum um Húsavíkur-Jón í Vammfirringu. Eða í hinu snjalla ljóði “Höfðatorg” í Tautar og raular, sem byrjar á línunum „Til hvers þennan turn / við torgið, mér er spurn.“ og lýkur á „Peningapúkar á bita / pyngju vildu fita / ekki sést ljós frá innsiglingarvita.“ Eftirsjá eftir gömlum tíma og veröld sem var birtist hér og hvar. Til dæmis í lokaorðum “Bundins slitlags” í Háttum og mörkum, þar sem „þeyst er um sveitir / ýmist í einskisnýtri sprettu / eða tilgangslausum þurrki.“

Þórarinn er ekki tilfinningalega nærgöngult skáld, þó honum liggi ýmislegt á hjarta. Sjaldan fær lesandinn á tilfinningunna að hann horfi inn í kviku höfundar. Í Vammfirringu er einn bókarhluti helgaður minningarljóðum og þar má sjá skáldið opna sig varfærnislega:

EHB

Krían er komin
kennir trega í gargi
saknar síns vinar
hvergi pensill í munni
að performera fyrir.

Ekkert slær hún samt af
leikur listir sínar ótrauð
hefur fordæmi fyrir því
að sýningin blívur.

Að við yfirgefum ekki sviðið þó við hverfum af sviði.

Útgangspunktur þessarar greinar eru hin skýru mörk milli verka Þórarins Eldjárns í ólíkum greinum, en ljóðagerð hans ögrar þeirri „kenningu“ nokkuð. Það er óneitanlega talsverður samgangur milli ljóða fyrir börn og fullorðna eins og við höfum séð. Eins hafa veggir milli bundins og óbundins máls riðlast og sigið með árunum. Það mætti jafnvel segja að örsögutilraunirnar í Margsögu (1985) hafi flutt sig um set og sest að sem prósaljóð í síðari ljóðabókunum.

Ó- og líttbundnu ljóðin, háttbundnu kvæðin og barnavísurnar eru þegar að er gáð sama marki brenndar. Af helstu einkennum mætti nefna nákvæmni, hófstilltan húmor og smekkvísi, sem þó fær aldrei að standa í vegi fyrir góðri skrítlu. Einnig nett, og mögulega vaxandi, óþol í garð sumra einkenna nútímans, og meðfylgjandi ljúfsár eftirsjá eftir veröld sem er að hvefa. Fyrst og síðast birtast í ljóðunum viðhorf hins leitandi og fróða orðkera til tungumálsins. Þórarinn er skáld orðnautnarinnar og hugmyndanna sem rannsókn á máli okkar laðar fram.

Þegar best lætur fellur þetta allt saman, eins og í þessu ljóði í Háttum og mörkum. Eitursnjallt og óvænt rím, skörp og vingjarnlega háðsleg sýn á nútímann og trylling hans. Ekkert sem bendir til annars en þetta sé fyrst og fremst skemmtikvæði, sem gæti þessvegna átt heima í einhverri barnabókanna. Og svo lokahnykkur sem mætti segja að leysti gamla gátu. Einarðlega nútímalegt ljóð bundið í eldfornan rímnahátt.

La Gioconda

Um píramídann inn og áfram oní gljúfrið.
Flaumurinn af fólkinu
sem fyllir Lúvrið.

Það hirðir ekki hót um fleiri hundruð sali
sannarlega samtaka
í sínu vali.

Það fossar inn að festa ÞIG á filmur sínar
opinmynnt af áhuga
sem aldrei dvínar.

Til að eignast augnsvip þinn og endurskap’ann
Í Delhi, Maine og Mýrarsýslu
en mest í Japan.

Dularfulla daufbrosandi dána kona.
Þú vissir trúlega alltaf að þetta
yrði svona.

Smásögur

Frá árþúsundamótum hefur Þórarinn sent frá sér fjögur smásagnasöfn, til viðbótar við þau þrjú sem áður voru komin út: Eins og vax (2002), Alltaf sama sagan (2009), Þættir af séra Þórarinum og fleirum (2016) og Umfjöllun (2021). Ljóst er að smásögur eru veigamikill hluti af höfundarverki Þórarins. Margar þeirra einstaklega snjallar og nokkrar hljóta að teljast með því markverðasta og lífseigasta sem skrifað hefur verið í smásöguformi á íslensku. Óneitanlega ber þar hæst sögur úr eldri söfnum, en efnistök Þórarins hafa ekki breyst meira en svo þessa fjóra áratugi sem smásagnaútgáfan spannar að þau sem nutu þess að lesa Ofsögum sagt og Margsögu finna í hverri bók eitthvað í svipuðum dúr. Í öllum safnanna er eitthvað bitastætt á gamalkunnan hátt, en þó með nýjum keim.

Smásögur notar Þórarinn, með nokkrum markverðum undantekningum, til annarra hluta en skáldsagnaformið. Söguleg viðfangsefni eru fáséð, Þórarinn leitar í smásögum sínum langoftast fanga í nútíma eða nálægri fortíð. Gamansemi er í forgrunni fremur en túlkun tilfinninga, sköpun spennu eða glímu við formið. Þriðju persónu frásögn langalgengust, en oftast þegar fyrsta persóna fær orðið fer ekki milli mála að þar er höfundur sjálfur að segja frá einhverju markverðu úr eigin lífi og minni, eða í það minnsta á efnið rót sína þar. Þannig er titilsagan í Eins og vax upprifjun á sögu vaxmyndasafns Óskars Halldórssonar, minningum höfundar um safnið í Þjóðminjasafninu og sögur af föður hans sem tengjast vaxmyndunum. Og lokasagan í Þáttum af séra Þórarinum er enn persónulegri og nærgöngulli. Þar kemur alveg nýr Þórarinn til sögunnar í lokin. Einlægur og rétt nær að halda yfirvegun sinni og ró í vanmáttugri reiði yfir óvægni örlaganna.

Aðrar sögur er erfiðara að tengja beint við persónulega reynslu, en sækja seið sinn frekar í tíðaranda sem fleiri hafa aðgang að og minningar um. Ein af bitastæðustu sögum þessa tímabils er Úr sögu Bobbsambandsins (Umfjöllun), þar sem þetta hálfgleymda spil er hluti af nokkuð víðfðemri þroskasögu. Þar kemur einnig fyrir skáldið Arnþór Christiansen sem skýtur upp kollinum hér og þar í smásagnaheimi Þórarins, en öðrum þræði er saga Bobbsambandsins upprunasaga skáldsins.

Önnur eftirminnileg saga þar sem Arnþór kemur við sögu er “Ólán klárað” (Þættir af séra Þórarinum), sem er þó varla réttnefnd smásaga. Þar er að finna tíu atlögur skáldsins dularfulla til að klára sérkennilegt og endasleppt kvæði Jónasar Hallgrímssonar úr Annesjum og eyjum, smásagnalistin komin inn í landhelgi ljóðsins með góðum árangri.

Hér verður að minnast á þá skemmtilegu sérvisku skáldsins að nota nafnið Rósa á sem flestar af meira aðlaðandi kvenkynspersónum sínum. Nokkuð sem gleður þá lesendur sem sökkva sér í þennan sagnasjóð þó erfitt sé að geta sér til um tilefni þess eða merkingu.

Margar sagnanna eru nokkurskonar tilraunir með orð og kringumstæður. Þórarinn lýsir þessum tilraunum í sögunni “Hvaðefsaga” (Alltaf sama sagan). Hvernig sögur geta kviknað við það að láta sér detta í hug einhverjar aðstæður sem lúta þessari formúlu: Hvað ef…? Hvað ef fjöllin væru hol að innan? (Hvaðefsaga). Hvað ef menn væru ráðnir í vinnu í ferðaþjónustunni við að leika flökkumenn? (“Flökkusaga”, Alltaf sama sagan). Hvað ef við töluðum öll okkar eigin tungumál? (“Orðanna hljóðan”, Eins og vax.) Hvað ef þú vaknar upp einn daginn og er orðinn helgur maður? (“Hans heilagleiki”, Þættir af séra Þórarinum).

Í öðrum sögum er útgangspunkturinn ekki stærri en sérkennilegt orð. Þau geta verið algeng, eða í það minnsta þekkt orð sem fanga athygli höfundar. “Kauði” (Alltaf sama sagan) er dæmi um slíka sögu, þar sem tilraun er gerð til að lýsa manni sem orðið virðist eiga vel við. En svo eru líka sögur þar sem orðið er „heimasmíðað“. “Hlendi” (Eins og vax) er slík saga, sem er þá fyrst og fremst rannsókn á því sem slíkt orð gæti nýst til að lýsa. Eðli máls samkvæmt eru þessar sögur gjarnan nokkuð endasleppar og sverja sig að sumu leyti frekar í ætt við rannsóknir á orðum og orðatiltækjum sem einkenna ljóðagerð Þórarins, bæði fyrir börn og fullorðna.

Í þessum síðari söfnum sjást líka dæmi um sögur sem minna meira á viðfangsefni og efnistök sögulegu skáldsagnanna. Titilsagan í Þáttum af séra Þórarinum og fleirum er gott dæmi, sem og “Hringur á fingri”, frásögn lítillar stúlku af aðdraganda og eftirmálum þess þegar Eggert Ólafsson ferst „í brúðarörmum“ á leið yfir Breiðafjörð (Umfjöllun). Bitastæðasta sagan af þessu tagi, og jafnframt sú sem auðveldast er að sjá fyrir sér sem „fullgilda“ skáldssögu, er “Bróðir Jóns á Krossum” (Eins og vax) þar sem sálarstríð sögumanns kallast á við örlög bróður hans, Jóns Rögnvaldsonar, sem fyrstur var brenndur fyrir galdra á Íslandi.

Smásagnaheimur Þórarins Eldjárns er þannig ákaflega fjölskrúðugur, þó heildarsvipur sé einnig sterkur. Glöggur og sæmilega vel lesinn smásagnaunnandi myndi ekki vera lengi að geta sér til um höfundinn, verði einhver þessara sagna fyrir honum án höfundanafns.

Nýjasta safnið, Umfjöllun, hefur að geyma drjúgan skammt af vel heppnuðum sögum. Hér hafa verið nefndar “Úr sögu Bobbsambandsins” og “Hringur á fingri”. Upphafssagan, “Þegar strengurinn brast”, er sömuleiðis áhrifarík saga á mörkum skops og harms, líkt og Tsékhov-leikritin sem þar eru í bakgrunni. Gleðiríkt kynlíf er ekki algengt viðfangsefni í sagnaheimi Þórarins, en birtist óvænt í Árbæjarsafninu í “Toffí og Þjolla” og er til marks um það að allir höfundar geta komið jafnvel dyggustu lesendum sínum á óvart.

Skáldsögur

Eftir Þórarinn liggja fimm skáldsögur, þar af tvær útgefnar eftir árþúsundamót. Baróninn (2004) og Hér liggur skáld (2012). Fimm til átta ár líða að jafnaði milli skáldsagnanna.

Á sviði lausamálsskáldskapar „í fullri lengd“ er Þórarinn Eldjárn fyrst og fremst úrvinnslumaður sögulegs efnis. Meira að segja hið sérkennilega og einarðlega nútímalega Suggabox (1988) er stútfullt af vísunum í þjóðtrúarefni og sögulega atburði. Aðrar skáldsögur Þórarins eru allar byggðar á grunni heimilda, og segja má að þróunin sé í þá átt að leyfa þeim að tala sem beinast við lesandann, með sem minnstri truflun af erindi skrásetjarans.

Raunar má segja að þessarar þróunar sjái stað innan texta Barónsins, þar sem sviðsetningar og „skálduð“ samtöl og hugsanir aðalpersónurnar í upphafi bókarinnar víkja þegar á líður og endursagnir heimilda og beinar tilvitnanir í blaðagreinar taka stöðugt meira rými.

Í Hér liggur skáld virðist sem komið sé að endastöð í þeim efnistökum. Engu er líkara en höfundur hafi ákveðið að létta nútímalesendum lífið með að endursegja og þjappa saman efni Svarfdæla sögu og Þorleifs þáttar jarlaskálds, nokkurn vegin óbreytt að innihaldi, án þess að leggja mikið til málanna sjálfur með nútímalegum túlkunum eða óvæntum sjónarhornum. Sagan er lipurlega sögð og spennandi – auðveldara að fylgja þræðinum en í hinni illa varðveittu Svarfdælu. Málfarið er frábærlega útfært hjá Þórarni – tengslin við fornmálið eru skýr en allt er samt munntamt og auðlæsilegt.

Um svipað leyti og þessi síðasta skáldsaga kom út hefur þórarinn trúlega verið að vinna að seinni endursagnarbók sinni upp úr Eddukvæðum, Hávamálum fyrir börn, þar sem einmitt má dást að þvi hvernig tekst að halda málblænum, einfalda og „nútímavæða“ aldrei um of. Lesendur skáldsagna fyrir fullorðna gera á hinn bóginn gjarnan ráð fyrir að fleira hangi á spýtunni hjá höfundum en hrein endursögn.

Þannig er því að sjálfsögðu ekki farið með Baróninn, enda ekkert grundvallarrit fyrir hendi til að endursegja, þó ritaðar heimildir séu plássfrekar í texta Þórarins, og þá gjarnan óbreyttar þegar líður á. Engu að síður sver sagan sig greinilega í ætt við sögulegar skáldsögur eins og algengast er að skilja það hugtak. Höfundurinn hefur sjálfdæmi um að hvað miklu leyti heimildirnar ráða för og er frjálst að sviðsetja atburði og semja frá eigin brjósti samtöl og hugrenningar sem þétta vefinn og varpa ljósi skáldskaparins á það sem rás tímans hefur falið. Á sama tíma er alveg ljóst að verið er að segja sögu manns sem sannarlega var til og samferðamanna hans. Allir koma fram undir sínum réttu nöfnum og tilfinningin er sú að Þórarinn láti heimildirnar ráða för svo langt sem þær ná.

Það er ljóst af ritdómum um bókina að flestir líta á tilgang þess að rannsaka og rita um ævi barónsins á Hvítárvöllum, Charles Gauldrée-Boilleau, og feril hans á Íslandi sérstaklega sé fyrst og fremst að skýra, eða allavega setja fram kenningu um, hvað hann hugðist fyrir með veru sinni og umsvifum á Íslandi. Gjarnan er fundið að því að Þórarinn svari ekki, reyni jafnvel ekki að svara, þessari spurningu. Það er kannski ekki allskostar rétt, þó svörin séu kannski svo einföld og augljós í Baróninum að auðvelt sé að sjást yfir þau: djúpstæð þörf með rætur í fjölskyldusögunni til að gera sig fjárhagslega gildandi í veröldinni, og svo sálarlífsveila sem í dag væri sennilega kölluð geðhvarfasýki sem knýr Gauldrée-Boilleau til að setja af stað djörf og jafnvel óraunhæf verkefni en sviptir hann möguleikanum á að fylgja þeim eftir eða breyta um stefnu þegar á þarf að halda.

Í eðli sínu eru skáldsögur auðvitað óáreiðanlegar heimildir, en engu að síður skilur Baróninn lesandann eftir með þá tilfinningu að hann hafi nokkuð góða mynd af manninum, sögu hans og ættarinnar, og auðvitað athafnasemi á Íslandi, sem enn sjást merki um. Svipmyndirnar í fyrri hlutanum af bæjarlífinu í Reykjavík eru ákaflega sannfærandi og bitastæðar, ekki síst kynni Gauldrée-Boilleau, og þar með lesandans, af Benedikt Gröndal. Það er vitaskuld nokkuð sérkennilegt að láta efnistök breytast og þróast eins og þau gera hér, en hvort það er endilega „galli“ er flóknara og persónubundnara mál.

Lokahnykkurinn er síðan bráðsnjall og birtist þar hin kaldhamraða kímnigáfa sem sést annars helst í smásögum og ljóðum Þórarins fyrir fullorðna.

Þýðingar

Í lokin er rétt að geta þess að á undanförnum árum hefur Þórarinn bæst í hóp þeirra öndvegishöfunda sem hafa komið verkum William Shakespeare í íslenskan búning. Þýðingarnar hafa flestar ef ekki allar verið unnar að undirlagi Þjóðleikhússins vegna uppfærslu viðkomandi verks, en hafa góðu heilli eignast framhaldslíf í bókarformi. Til þessa eru þetta Lér konungur (2010), Macbeth (2012), Jónsmessunæturdraumur (2019) og Hamlet (2020). Sérstakur fengur er að nýrri þýðingu Draumsins, en þetta lykilverk hefur fram til þessa ekki verið aðgengilegt á íslensku nema í einni þýðingu og tími til kominn að víkka það svið.

Orðfimi og smekkvísi Þórarins í meðferð bundins máls nýtur sín vel við að skila þessum verkum til íslenskra viðtakenda. Hátíðleiki og jafnvel hófleg fyrnska í réttu jafnvægi við leik og skáldlegt fjör. Lýsing sem vel mætti heimfæra á ýmislegt í höfundarverki Þórarins sjálfs, sem oft virðist vera að bjarga verðmætum og koma þeim áfram til þeirra sem eiga að erfa þau og ávaxta með sínum hætti.

Samband Þórarins við fortíðina: sagnfræðilega, bókmenntalega og persónulega, er greinilega sterkt og birtist í öllum kvíslum skáldskapar hans og tekur á sig fjölbreyttar myndir. Hann yrkir ljóð um UHU-lím og Royalbúðinga, heldur rímnaháttum á lífi í leikskólunum og gleður hagmælskuunnendur á öllum aldri í öllum sínum ljóðabókum. Hann sækir smásagnainnblástur á vaxmyndasafn æsku sinar og grefur eftir viðfangsefnum skáldsagnanna í þjóðarsögunni, oft utan alfaraleiðar.

Heildaráhrifin greina Þórarinn Eldjárn skýrt frá samferðamönnum í íslenskum nútímabókmenntum. Fyrir vikið ber minna á sérkennum einstakra kvísla og meira á því hvernig Þórarinn er sjálfum sér líkur.

Þorgeir Tryggvason, 2021