Truflunin

truflunin
Höfundur: 
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Magnþrungin íslensk vísindaskáldsaga

Hjartslátturinn. Ég reyndi að leiða það allt hjá mér og muna mannkynssöguna. Þótt ég væri ekki fyrst inn var ég ein af fáum útvöldum, ef ég lifði.
              Eitt lítið skref fyrir dauðann, risastökk fyrir sálfræðing.
             
Ég stýrði mér inn um gáttina, tók fyrstu skrefin og reyndi að njóta augnabliksins. Líkami minn skyggði á opið svo að göngin urðu dimm næstum um leið. Engin ljós í veggjunum. Ég átti að vita þetta en það truflaði mig samt. Í hinum enda ganganna sá ég daufa birtu frá ljósastaurum, síaða í gegnum hjúpinn, máða og fljótandi og litlausa. Hjá okkur var miður dagur en kvöld hjá þeim.
              Ég neyddi mig til að halda augum opnum, gekk síðustu skrefin að hjúpnum og fann fyrir nálægð hans: svimi, snöggur flökurleiki, doði í vöðvunum og ég var komin í gegn. (20)

Árið 2030 á einstakur atburður sér stað í miðbæ Reykjavíkur. Dularfull orka leysist úr læðingi og sérkennilegur hjúpur myndast sem nær frá Hallgrímskirkju, niður á Spítalastíg og norður að Hverfisgötu. Alheimurinn hefur kvíslast upp í tvær víddir sem snertast einungis á þessum litla blett í miðbæ Reykjavíkur. Fjórum áður síðar umlykur heljarinnar múr svæðið og öllum aðgangi er stjórnað af bandaríska hernum og NATÓ. Enginn fær að fara inn nema þrautþjálfað vísindafólk og útsendarar herjanna, svokallaðir agentar. Ferðin í gegnum hjúpinn er stórhættuleg en aðeins um tíu prósent útsendaranna lifa förina af. Íslenskur félagssálfræðingur sem hlýtur dulnefnið Halla er send inn til að hafa uppi á agentinum F sem hvarf sporlaust eftir að hafa sent frá sér torræð skilaboð um yfirvofandi hættu.

Þar hefst Truflunin, nýjasta skáldsaga Steinars Braga sem hefur áður sent frá sér fjölda áhrifamikilla bóka á borð við Konur (2008) og Kötu (2014). Lesandinn fylgir Höllu í upphafi verksins í gegnum gífurlegt öryggiseftirlitið umhverfis múrinn og handan hjúpsins, inn í Truflunina. Í heimi Höllu — Umheiminum — hafa liðið rúm fjögur ár frá kvíslun heimanna og öll heimsbyggðin hefur þráð að komast að því hvað Truflunin hefur að geyma. Inni í Trufluninni hafa hins vegar aðeins um tveir sólarhringar liðið og ,innfæddir’ eru fullkomlega grandalausir um kvíslun heimsins. Hjúpurinn sem umlykur Truflunina er ekki sjáanlegur innan frá en hún spannar gjörvallan heiminn, fullkomið afrit af Umheiminum þegar kvíslun heimanna átti sér stað.

Þegar Halla stígur í gegnum hjúpinn birtist hún skyndilega við Óðinstorg í Reykjavík Truflunarinnar. Hún á erfitt að ná áttum og henda reiður á hugsunum sínum, algengt einkenni hjá agentum fyrstu tímana inni í Trufluninni. Halla kemur sér fljótlega í samband við aðra útsendara sem munu aðstoða hana við leitina að F en krökkt er af alþjóðlegum agentum frá Umheimi sem leynast meðal ,innfæddra’ í Trufluninni. Fljótlega hefst spennandi atburðarás um stræti Reykjavíkur sem flettir ofan af örlögum F og leiðir lesandann að dýpstu leyndarmálum Truflunarinnar.

Ljóst er strax frá upphafi að Truflunin er einstakt verk. Steinari Braga tekst ótrúlega vel að blanda eiginleikum vísindaskáldskapar — sem við könnumst helst við úr erlendum bíómyndum og bókmenntum — við kunnuglegan miðbæ Reykjavíkur. Erlendar njósna- og öryggisstofnanir og framtíðarleg tækni umlykja draumkennt ráf Höllu um Þingholtin og dregur lesandann gjörsamlega inn í þennan nýja heim. Þessi blanda er langt frá því að vera eini styrkleiki verksins því það má kalla það gífurlegt afrek að skrifa djúpan tæknilegan vísindaskáldskap á íslensku. Rithöfundar og aðrir listamenn hér á landi þurfa oft að glíma við mikla sannleiksbyrði. Við Íslendingar getum oft verið tregir til að taka þátt í samkomulagi með íslenskum höfundum sem ætla að bregða út af raunveruleikasporinu (e. suspension of disbelief). Nóg er að staðsetja eitt fjall í vitlausri sveit og samningurinn er fyrir bí. Þess vegna kom það mér skemmtilega á óvart hversu fyrirhafnarlaust það var að sogast inn í heim Steinars Braga sem er uppfullur af minnum sem ættu að gera verið stuðandi innan íslensks hversdagsleika. En þrátt fyrir að takast listilega vel upp í vísindaskáldskapnum þýðir það ekki að Steinar Bragi fórni stíl eða leikni í skrifum. Það er skammarleg einföldun, en almennt er tilhneigingin að setja allar bókmenntagreinar á borð við fantasíu og vísindaskáldskap á einn enda gæðaskalans en há- og fagurbókmenntir á hinn. Vissulega má oft sjá meiri áherslu á plott í sumum bókmenntagreinum en unnendur ,alvöru bókmennta’ ættu ekki að láta slíka merkimiða blinda sig þegar kemur að vísindaskáldsögu Steinars Braga.

Líkt og í fyrri verkum þar sem Steinar Bragi vinnur með minni bókmenntagreina — eins og hryllingsstef í Konum (2008) og Hálendinu (2011) — er upplifun og skynjun í öndvegi fremur en plottframvinda. Í Trufluninni staldrar Steinar Bragi oft við og leyfir upplifun Höllu að vera í fyrirrúmi. Líkami Höllu skynjar enn að hluta til tímann í Umheiminum — sem er um einn mánuður fyrir hvern klukkutíma í Trufluninni — og keimurinn af þessum sérkennilega samslætti liggur yfir öllu og magnast upp í “hugsanasjóriðu” Höllu (96). Hugsanasjóriðan er svo endurleikin í huga lesandans þar sem rótgróið umhverfi okkar er framandgert með glænýjum hætti þannig hrikta fer í stoðum raunveruleikans.

Því má segja að ,áferðin’ fremur en ,ferðin’ sé í aðalhlutverki í Trufluninni. Andrúmsloft og huglæg úrvinnsla á því sem ber fyrir augu persónanna er í fyrirrúmi fremur en hasarinn og plottið sem leiðir að sögulokum. Leyndardómurinn sem kynntur er í byrjun er þó engu að síður ótrúlega tælandi og nær magnaðri og óvæntri niðurstöðu eftir ófyrirsjáanlegar vendingar. Framvinda fléttunnar og uppljóstrun leyndardómsins stendur og fellur með fágaðri meðhöndlun á tæknimáli — þ.e.a.s. hvernig ,vísindin’ eru kynnt í sögunni. Hér heillaðist ég gjörsamlega af áreynslulausum lýsingum á flóknum tæknilegum fyrirbærum á borð við gervigreind sem voru allt að því ljóðrænar. Íslensk tæknihugtök hafa aldrei verið jafn þjál eins og í meðförum Steinars Braga og leyfa gífurlega frumlegri vísindaskáldskapar-fléttu verksins að njóta sín.

,Meistaraverk’ er þreytt klisja í bókagagnrýni en ég verð loks að játa mig sigraðan gagnvart henni: Truflunin eftir Steinar Braga er meistaraverk. Íslenskar vísindaskáldsögur hafa áður verið gefnar út en engin þeirra sem ég hef lesið hefur komist nálægt afreki Truflunarinnar. Dýpt og frumleiki þess framandi í sögunni er hreint út sagt framúrskarandi og framsetningin stenst hæstu kröfur fagurbókmennta-snobbara. Sjálfsagt munu lesendur hafa jafn mismunandi skoðanir á bókinni og þeir eru margir en ég er óhræddur að slá því föstu að Truflunin er einstakt verk.


Már Másson Maack, desember 2020