Tilfinningar eru fyrir aumingja

tilfinningar eru fyrir aumingja
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Hvort er lífið dren eða metall?

En það var komið að ögurstundu í vinahópnum. Bara eitt matarboð í viðbót þar sem ekki væri rætt um annað en dren og annað fasteignaviðhald og eitthvert okkar hefði hent sér fram af svölunum eða kveikt í sér.  Þetta var bara í alvöru orðið krítískt ástand. [...]
Við vorum í matarboði hjá Ingunni og Ómari þegar ég stakk fyrst upp á þessu.
  “Hvað segið þið krakkar? Hrikalegt blóðbað, limlestingar, hefnd, ofsi, hatur! Eruð þið ekki til í þetta?” Ég reyndi að segja þetta á eins hressan og jákvæðan hátt og ég gat. En vinir mínir sem sátu allt í kringum fallega borðstofuborðið hennar Ingunnar göptu bara. (5-7)

Eftir að meirihluti vinahópsins byrjaði í gagnkynja samböndum og festi kaup á fasteignum leið Höllu eins öll gleði hefði dáið. Þau voru núna öll á fertugsaldri og ekkert þeirra virtist lengur gera nokkuð spennandi eða skemmtilegt. Allar þeirra stundir saman voru orðnar gegnsósa af endalausu hjali um dren, bakflæði og stormjárn. Halla leggur því í lokasókn til að draga þau aftur í heim hinna lifandi: hún stingur upp á að þau stofni metal hljómsveit. Eftir miklar efasemdir og skynsamlegar ábendingar um að eiginlega ekkert þeirra kunni nú á hljóðfæri, og í ofan á lag hvað þau eru auðvitað öll gasalega upptekin, ákveða þau loks að slá til. Kannski verður þetta sniðugt, kannski munu þau geta komið fram svartklædd og drungaleg í Vikunni með Gísla Marteini. Og hver veit nema þetta muni kannski hjálpa Höllu að komast yfir nýleg sambandsslit.

Þannig hefst önnur skáldsaga Kamillu Einarsdóttur, Tilfinningar eru fyrir aumingja (2021), en hún hefur áður gefið frá sér Kópavogskróniku (2018). Lesendur sem nutu hispursleysis og beinskeytni fyrri bókarinnar ættu að una sér vel við lestur Tilfinningar eru fyrir aumingja. Stíll verksins er óþvingaður og hugleiðingar aðalpersónunnar Höllu renna jafn ljúflega fram eins og bjórsmurt trúnó á borulega reykingarsvæðinu á Húrra. Á trúnóinu með aðalpersónu sögunnar púslast smám saman skýrari mynd af sambandi Höllu og Nökkva og hvar hún var stödd lífinu þegar hún stingur upp á stofnun hljómsveitarinnar. Þrátt fyrir að krækja verksins sé hugmyndarík atburðarrás — að fólk á fertugsaldri leiti til dauðarokks til að vinna bug á snemmmiðaldrakrísu — liggur styrkur bókarinnar mun frekar í kænni nálgun á hrærigraut vandamála sem fólk upplifir í dag. Hljómsveitin og markmið vinanna að koma fram í Vikunni með Gísla Marteini dúkkar mun sjaldnar upp en búast mætti við í upphafi (sem sumir kunna að syrgja), en þess í stað fá lýsingar á tilfinningalífi Höllu og vina hennar að njóta sín. Lýsingarnar feta á milli næmni og fjarlægni á sérkennilegan máta sem endurspeglar mótþróa Höllu gegn því að takast á við erfiðu tilfinningarnar sem mara undir yfirborðinu — af hverju ætti maður að svo sem að eyða tíma í að rýna í tilfinningar ef þær eru fyrir aumingja?

Gott dæmi um það er sambandið sem virðist vera kveikjan að stofnun hljómsveitarinnar. Nökkvi hljómar eins og hinn fullkomni kærasti. Hann var góðmennskan uppmáluð, átti það til að elda dýrindis mat á meðan Halla dáðist að upphandleggsvöðvunum hans. En þess á milli nær kuldinn sem stafaði af Nökkva og sjálfsefinn sem tók sér bólfestu í Höllu að verða óþægilega augljós.

Mig langaði svo að senda honum skilaboð um hvað ég saknaði hans ennþá mikið. En þegar við vorum saman svaraði hann slíkum skilaboðum með þeim upplýsingum að ég væri með oxýtocin-fráhvörf. [...]
Einu sinni spurði ég hann af hverju hann væri svona á móti stjórnlausu oxýtocin-flæði. Þá sagði hann mér sögu af því að einu sinni hefði fyrrverandi kærasta hans farið í burtu í viku og hann leið þá svo miklar vítiskvalir og skildi ekkert í því fyrr en hann fann grein á internetinu sem sagði að hann væri að upplifa oxýtocin-fráhvörf. Síðan hefði hann passað sig á þessu. (45)

Óþægindin sem ég vísa til að ofan stafa helst af ósamræminu í því hvernig Halla tekst á við tilfinningar. Halla er næm á tilfinningalíf sitt og annarra og varpar öflugu kastljósi á það sem sögumaður en um leið brynjar hún sig gagnvart því. Í bók Kamillu er ekki verið að velta sér upp úr dramatískum atburðum né dvalið við það sem er mest krassandi. Þess í stað fljóta þeir af og til upp að yfirborðinu í stríðum straumi af frásögnum af klaufalegu ástarfari, tilgangslausu lífsgæðakapphlaupi og misheppnuðum hljómsveitaræfingum.

Ástarlíf Höllu eftir sambandsslitin flæðir fram með svipuðum ryþma sjálfsrýni og afneitunar. Ásamt stöku flörti úti á lífinu tekur hún upp vandræðalega fjarrænt chat-samband við “metalmanninn” sem hún hittir stopult á tónleikum. En hér mætast áhugaverðir þræðir hjá Kamillu. Hún er skemmtilega hæðin út í gegnum verkið, sérstaklega þegar hún tekur fyrir inspíreraða millistjórnendur á RÚV, vaxjakkaklædda spjátrunga og aðra óviljasmáborgara. Húmorinn er aldrei langt undan og hún lætur þau vandamál sem mörg okkar eru að díla við — eins og mótsagnakennd netsambönd sem vekja upp sjálfshatur — oft virka hjákátleg, en nær að gera það gjörsamlega án þess að gera lítið úr vægi þeirra. Kamilla tekst á við þau með hlýju og skilningi án þess að skorast undan því að benda á að við tökum sumu of alvarlega. Hún grefur undan tilraun Höllu að brjótast út úr lífsleiða norminu með því að gera takmark hljómsveitarinnar að komast í Vikuna með Gísla Marteini, helsta skemmtiefni miðaldra fólks sem fylgir norminu. Samt sem áður er uppátækið aðdáunarvert þar sem Halla gerir tilraun til að brjótast undan ,drenunum’ í lífi okkar, vandamálum sem eru óhjákvæmileg og eiga hug okkar allan þegar við stöndum frammi fyrir þeim. Með metalinn að vopni, þ.e. hugarfarið og þróttinn til að brjóta upp normið, gerir Halla hetjulega atlögu gegn lífsleiða og sjálfsefa. Tilfinningar eru fyrir aumingja fjallar þannig um drenin í lífi okkar og ræðst gegn þeim með skeytingarleysi metalsins.
 

Már Másson Maack, desember 2021