Þúsund og einn hnífur

Þúsund og einn hnífur eftir Hassan Blasim í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar
Höfundur: 
Ár: 
2015
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Furðulegur hversdagsleiki

Þúsund og einn hnífur og fleiri sögur frá Írak er smásagnasafn eftir íraska rithöfundinn og kvikmyndagerðarmanninn Hassan Blasim. Líkt og titill verksins gefur til kynna eiga allar sögurnar sér stað í Írak. Þær fara fram á mismunandi tímum, flestar í kringum stríðin við Íran og Bandaríkin. Sjá má endurtekin þemu í sögum Blasim en honum tekst að nálgast þau á fjölbreyttan hátt. Meðal fyrirferðameiri þemanna eru ofbeldi og stríð – sem birtast bæði í persónulegum reynslum einstaklinga sem og á stórsögulegan máta – þar sem átök stríðandi fylkinga verða smávægileg í hinu stóra samhengi. Sögur Basims eru ekki aðeins ólíkar að umfangi, þær eru einnig ólíkar í afstöðu til raunveruleikans. Sumar sagnanna eru kyrfilega bundnar við raunveruleika fólks í Írak en aðrar taka á sig ævintýranlegan blæ þar sem furður ráða ríkjum og minna helst á töfraraunsæisbókmenntir sem oftast eru kenndar við Suður-Ameríku.

Furður og óraunveruleiki

„Holan“ er ein hinna töfrandi sagna þar sem ísköldum raunveruleika er skeytt saman við furður. Aðalsögupersónan er í miðjum átökum, að safna saman vistum, þegar tveir grímuklæddir byssumenn hrinda upp hurðinni. Söguhetjan hleypir af og nær að koma sér undan. Í þessum stutta inngangi má sjá að ofbeldi og óhugnaður virðist vera hluti af daglegu lífi persónunnar, eins og í flestum sögum verksins. Á flóttanum fellur aðalpersónan í holu þar sem „skjaldbökulegur“ gamall karl situr. Holan er yfirnáttúrulegt svið þar sem lögmál tímans eru rofin. Skjaldbökumaðurinn hefur dúsað í holunni í hundruð ára og minnir einna helst á anda úr sagnabálknum Þúsund og ein nótt. Söguhetjan tekur loks við keflinu af skjaldbökumanninum sem íbúi holunnar. Stuttu síðar, út frá tímaskynjun söguhetjunnar, fellur ung stúlka í holuna. Ytri heimurinn, þar sem tíminn líður með hefðbundnum hætti, er gjörbreyttur – en um leið alveg eins. Stúlkan er úr dystópískri framtíð þar sem enn eitt stríðið dynur yfir landið.

Í „Holunni“ spanna furðurnar allan skalann, allt frá hefðbundnum arabískum ævintýrum til vísindaskáldskapar. Þjóðasagna- og ævintýrablæ má finna í fleiri sögum í verkinu. „Brjálæðingurinn á Frelsistorginu“ minnir á upprunagoðsögu og dæmisögu sem blandað er við raunsæja lýsingu af átökum. Þar er velgengni eins hverfis í Írak rakin til komu tveggja guðlegra vera. Í „Brjálæðingnum á Frelsistorginu“ eru guðlegu verurnar rótin af vopnuðu átökunum í sögunni. Furðurnar og ævintýraeiginleikar sögunnar eru því ekki í forgrunni né meginumfjöllunarefni sögunnar. Það sama má segja um hinar sögur Blasims. Furðurnar í sögum Blasim verða oft og tíðum farvegur fyrir raungervingu á upplifun persónanna og á köflum táknræn leið til að reyna að ná utan um hið óskiljanlega ástand ófriðar.

Framandleiki hversdagsins

Helsti styrkur verksins liggur þó ekki í notkun Blasim á furðum til að varpa ljósi á raunveruleikann. Framandleiki hversdagsins sem sprettur fram innan um furðurnar er það sem veitir verkinu líf. Ekki verður komist hjá því að lesa bók Blasim út frá samhengi samtímans. Stríð í Miðausturlöndum, staða flóttafólks, hælisleitenda og þeirra sem búa á stríðshrjáðum svæðum hafa sjaldan fengið jafn mikla umfjöllun í vestrænum miðlum eins og þau gera um þessar mundir. Þúsund og einn hnífur er áhrifamikið innlegg inn í þá umræðu þar sem hún er í senn beint og óbeint að kljást við þau mál sem eru helst í deiglunni. Við fáum fágæta innsýn inn í líf fólks sem býr á þeim átakasvæðum sem eru aðeins fjarlægar fréttir fyrir okkur á litla og einangraða Íslandi.

Íbúar miðausturlanda eru smám saman að verða mennskari í vestrænum fjölmiðlum. Ákveðin vitundarvakning er að eiga sér stað og loks er farið að líta á flóttafólk, fyrst og fremst, sem fólk – rétt eins og þegar við hugsum til fólks á Vesturlöndum. Skáldskapur á borð við smásögur Blasims geta einnig, líkt og breyttur fréttaflutningur, haft áhrif á  viðhorf Vesturlandabúa til þessa heimshluta. Í sögum sínum dregur Blasim upp hversdagslegar myndir af þeim ógnum sem við á Vesturlöndum heyrum af í fréttum en höfum aldrei þurft að upplifa. Við lestur skáldskapar, sem er mjög persónuleg iðkun að mínu mati, er varla hægt að komast hjá því að setja sjálfan sig í spor persónanna. Með því fær lesandinn aðgang að nýjum stöðum og upplifunum. Fyrir íslenska lesendur er það án efa framandi og ný reynsla að spjalla við menn í sprengjuvestum á hverfisveitingastaðnum, að hreinsa til eftir sprengjuárásir, að sækja um hæli og að þurfa að búa við ógn ofbeldis á hverjum degi.

Það sem er mikilvægast í frásögnum Blasims af ofbeldi er að þær hafa ekkert með ofbeldisblæti okkar Vesturlandabúa að gera. Ofbeldið er ekki notað til að draga skýra línu milli góðs og ills því heimurinn er jú flóknari en svo. Eins og aðalpersónan í sögunni „Veruleikinn og skýrslan“ segir í umsókn sinni um hæli: „Það sem ég segi hefur ekkert með hælisbeiðni mína að gera. Það sem skiptir ykkur máli er hryllingurinn“ (164). Þetta varpar ljósi á kröfur okkar um að fólk á flótta verði að hafa upplifað það allra versta. Ekkert svigrúm er fyrir frásagnir fólks sem uppfylla ekki þær kröfur.

Með því að neita okkur – vestrænum lesendum – um að draga upp einfalda, skýra og hryllilega mynd af Írak og öðrum Miðausturlöndum verða sögurnar mun ískyggilegri. Þær rista dýpra því þær verða óþægilega raunverulegar og neyða okkur til að setja okkur í spor persónanna. Við fáum ekki að fela skilningsleysi okkar á bakvið grótesku ofbeldisins og þurfum þess stað að velta fyrir okkur samfélagsgerðinni og aðstæðum fólksins sem á í hlut. Þúsund og einn hnífur er prýðilegt dæmi um mikilvægi þýðinga. Það að nálgast þennan heim á íslensku, í góðri þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar, skapar nálægð við framandi og fjarlægar aðstæður. Og það getur bara talist jákvætt.

Már Másson Maack, október 2015.