Taugaboð á háspennulínu og Herbergi í öðrum heimi

taugaboð á háspennulínu
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
herbergi í öðrum heimi
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Hugmyndaheimar, heimsmyndir og sjálfsmyndir

Una útgáfuhús er tiltölulega nýtt forlag og hefur það m.a. að leiðarljósi að vera vettvangur fyrir nýja höfunda. Í ár koma út hjá forlaginu tvær bækur eftir ungar konur sem báðar gefa nú út bók í fyrsta sinn, ljóðabókina Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur og smásagnasafnið Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabetu Bragadóttur. Bækurnar eiga það sameiginlegt að í þeim er fjallað um íslenskan hversdag og tilraunir fólks til að mynda sér heimsmynd og tengjast hvert öðru. Hversdagsleikinn sem þær lýsa er þó langt í frá grár heldur kafa þær undir yfirborð vanans og mynda nýjar tengingar og sjónarhorn sem gera hið kunnuglega annarlegt.

Taugaboðum á háspennulínu er skipt í tvo hluta eða tvö ljóð: „Taugaboð á háspennulínu“ og „Lifandi vísindi“. Í fyrra ljóðinu fylgist lesandinn með barni fæðast, vaxa úr grasi og læra að beita tungumálinu. Í því er greinilegur línulegur þráður, barnið fæðist í fyrsta erindi og frásögninni lýkur á ákveðinni úrlausn í sambandi þess við tungumálið. Takturinn í frásögninni er þungur og myndmálið vísar í úfið haf, grjót, múrsteina og veggi, málm og trumbuslátt. Samband persónunnar við tungumálið er stormasamt, orðin eru henni þung í vöfum og formlegir eiginleikar ljóðsins vísa sífellt í stritið sem það er henni að tjá sig.

Það er áberandi hversu líkamlegt tungumálið er í heimsmynd ljóðsins. Orð eiga sér efnislega tilveru. Þau eru ekki aðeins merki sem ætlað er að tjá hugsanir heldur eru þau taugaboðin sem lifa í líkamanum og loftið „sem titrar / þegar það mætir mótstöðu / heimsins.“ (12). Persónan nær illa tökum á þessum efnislegu orðum og upplifir jafnvel að þau sitji föst í líkama hennar:

milli rifbeina
dvelja blýþung orð
skorðuð

á meðan allt suðar í kring:
fluga
útvarp í bílnum
líf

truflun á fjarskiptasambandi
nærð ekki út
(17)

Það mætti segja að það séu ekki bara orðin sem sitja föst í innri heimi persónunnar heldur einnig hún sjálf. Til að hún öðlist tilvist í hinum ytri heimi og í tengslum við annað fólk þurfa orðin hennar einnig að öðlast tilvist þar. Tungumálið er hluti af líkama persónunnar og sjálfsmynd og til að marka sér stað í tilverunni verður hún að geta beitt því. Þangað til burðast hún ein með orðin og einangrast frá umheiminum.

Ljóðið lýsir ofur hversdagslegum ferlum, máltökunni og þróun sjálfsmyndar, sem við höfum öll gengið í gegnum á einn eða annan hátt en sýnir jafnframt hversu ögrandi og merkileg verkefni þetta eru í raun. Það veltir upp spurningum um hversu stóran þátt tungumálið eigi í heimsmynd okkar, hvernig við sköpum tengsl með orðum og síðast en ekki síst hversu stórfurðulegt það er að orð séu yfir höfuð til.

„Lifandi vísindi“ segir frá ástarsambandi tveggja persóna sem búa í sama fjölbýlishúsi. Í því má greina sömu stef og í fyrra ljóðinu en þar er fjallað um líkamleikann, tungumálið og tengsl við annað fólk. Tónninn er þó afar ólíkur stríðum tóninum í „Taugaboð á háspennulínu“ en hann er léttur og gamansamur og má sjá ákveðinn fáránleikahúmor í bæði efnistökunum og myndmálinu. Þótt frásögnin eigi sér greinilegt upphaf og enda lýsir hún ekki endilega línulegri þróun. Það má segja að efnistökin breikki og umfjöllunarefnið verði lífið og tilveran almennt, frekar en það afmarkaða ferli sem glíman við tungumálið er.

Þessi umbreyting er svolítið hastarleg. Við lestur á tvískiptri ljóðabók hneigist lesandinn sennilega til að lesa seinni hlutann að miklu leyti út frá forsendum fyrri hlutans en það væru mistök hvað þessa bók varðar. „Lifandi vísindi“ lýsir allt öðrum ljóðheimi en „Taugaboð á háspennulínu“ og hans er best að njóta á sjálfstæðum forsendum.

Í upphafi flestra erinda ljóðsins setur Arndís Lóa fram skemmtileg fróðleikskorn í ætt við þau sem má einmitt lesa í tímaritinu Lifandi vísindi. Saman við þau fléttar hún svo hugleiðingum og frásögnum af hversdeginum, ástarsambandinu og umheiminum. Þetta er gert með passlegri virðingu bæði fyrir ljóðrænunni og vísindunum og kemur róti á greinamuninn sem við viljum gjarnan gera milli listar og vísinda, staðreynda og fegurðar, tilfinninga og þekkingar, og veruleika og hugarheims. Þetta má t.d. sjá í 13. erindi:

vélhönd hefur svo næma fingur
að hún getur tekið
mjúklega upp
jafn veikbyggðan hlut
og egg
sett í sjóðandi vatn
án þess að brenna sig

við mælum ekki sársauka á skalanum 1-10
heldur notum róf krónískrar samúðar

Með því að tefla saman næmni vélhandar og mannlegu sársaukamati; skýrt skilgreindum skalanum 1-10 og óljósu hugtakinu samúð; og veikbyggðu eggi og sjóðandi vatni undirstrikar Arndís Lóa þverstæðurnar sem eru hluti af öllum tilraunum okkar til að skynja, skilja og meta veruleikann.

Skynjun og tengsl eru einnig mikilvæg umfjöllunarefni í Herbergi í öðrum heimi en meðan Arndís Lóa rýnir mest í líkamlega skynjun einbeitir María Elísabet sér frekar að hugmyndaheimum. Hún skoðar hvernig við túlkum upplifanir okkar á misjafnan hátt og hvernig það mótar hugmyndir okkar um lífið og samskipti við aðra. Í bókinni eru sjö sjálfstæðar smásögur sem fjalla allar á einhvern hátt um samskipti og tengsl í heimi þar sem hver einstaklingur lifir og hrærist í eigin hugarheimi og samskipti manna á milli verða alltaf einskonar millilandasímtöl.

Gegnumgangandi í sögunum er viðleitni persónanna annars vegar til að byggja upp eða varðveita sjálfsmynd sína og þá heimsmynd sem byggir á henni og hins vegar til að tengjast öðrum á forsendum þessarar heimsmyndar. Persónurnar reka sig ítrekað á að heimsmynd þeirra samræmist ekki heimsmynd fólksins í kring um þær og eru þess vegna flestar örlítið úr sambandi við hver aðra og umheiminn, einangraðar og einmana án þess að gera sér endilega grein fyrir hvað ber á milli.

Háðhvörf eru drifkrafturinn í flestum sögunum. Persónurnar skortir sjálfsþekkingu, þær vita ekki hvað þær vilja eða hvaða hvatir liggja að baki þeirra eigin gerðum og vegna þess eiga þær líka erfitt með að skilja og túlka hegðun annarra. Persónurnar hafa ákveðnar hugmyndir um eigin vegferð en lesandinn, sem stendur utan við sértækan hugarheim þeirra, hefur mun betri skilning á aðstæðum. Það er freistandi að verða drjúgur með sig við að fylgjast með persónunum ítrekað taka örlítið skakkan pól í hæðina en sú tilfinning endist aldrei lengi. Til þess eru lýsingarnar of raunsæjar og of líkar þeim hversdegi sem við eigum öll sameiginlegan. Það er of auðvelt að sjá sjálfan sig í persónunum til að dæma þær mjög hart.

Líkt og Arndís Lóa setur María Elísabet hversdagslegar upplifanir í nýtt samhengi og skapar þannig ákveðinn annarleika. Órum og furðum er blandað inn í flestar sögurnar en slíkt á sér alltaf hversdagsleg upptök. Í sögunum „Mannleysa“ og „Ég er ekki kona, ég er sjö ára“ blandast ímyndunarafl barna inn í söguna; í sögunni „Konan mín“ gegna elliglöp svipuðu hlutverki; í „Við hljótum að sjá eitthvað þótt við förum ekkert“ virðist ein persónan glíma við ranghugmyndir; og persónurnar í „Frjálsir andar“ eru meira og minna drukknar. Þannig nær María Elísabet að rýmka hugtakið veruleiki og undirstrika hversu lygilegur hversdagurinn er í raun. Þetta má t.d. sjá í „Við hljótum að sjá eitthvað þótt við förum ekkert“. Hún segir frá Narfa, dreng í ástarsorg sem getur ekki meðtekið að fyrrverandi elski hann ekki lengur og því eru hugsanir og hans og hegðun aðeins á skjön við veruleikann. Nágrannakona hans, sem „er dálítið spes“ (111) tilkynnir honum að um nóttina muni nýtt tungl birtast á himni og gjörbreyta öllum lífsskilyrðum á jörðinni. Hvorki lesandinn né Narfi trúa þessari fullyrðingu en þó liggur einhver tvísýna í loftinu. Seinna færist sjónarhornið svo til Fríðu, móður Narfa sem stendur úti í garði þegar komið er fram á nótt:

Garðurinn var niðurgrafinn og kjallarinn í húsinu því nánast á jarðhæð. Fríðu varð litið á stóra gluggana og sá sjálfa sig speglast í myrkvaðri rúðu. Spegilmyndin var óskýr. Henni sýndist hún vera tvöföld. Í bakgrunni fylgdist hún með svörtum himninum opnast þegar skýin röknuðu í sundur og tunglið kom í ljós, skínandi í fyllingu.
Á bak við tunglið sýndist henni vera annað stærra tungl. Á bak við það hið þriðja, svo annað, svo annað.  (122)

Lesandinn er nærri viss um að um tálsýn sé að ræða. Hins vegar eru skilin á milli ytri veruleika og innri hugarheims orðin það óljós að það að Fríða sjái mörg tungl á lofti eitt andartak nægir til að gera það að raunverulegum atburði.

Styrkur sagnanna í Herbergi í öðrum heimi liggur þannig í tvíræðum veruleika sem er bæði annarlegur og kunnuglegur og í gölluðum einmana persónum sem gera óþægilega kunnugleg mistök. Þó er tónninn í bókinni alls ekki svartsýnn. Við erum öll aðeins úr sambandi, öll aðeins að misskilja hvert annað og öll svolítið einmana. En það þýðir ekki að það sé ekki ástæða til að reyna. Ekki vegna þess að dag einn hrökkvi kannski allt í liðinn og einangrun og misskilningur hætti að vera til, heldur af því að mannleg samskipti felast einmitt í skapandi misskilningi, heimsmyndaárekstrum og því að halda endalaust áfram að reyna.

Það var gaman að fá að lesa bæði Taugaboð á háspennulínu og Herbergi í öðrum heimi. Báðir höfundar benda lesendum sínum á ný sjónarhorn og nýjar tengingar. Þær sýna fram á hversu miklar furður veruleikinn rúmar í raun og varpa ljósi á bæði ytri og innri heima okkar allra, sem og endalausar tilraunir okkar til að skilja okkur sjálf og aðra.
 

Eva Dagbjört Óladóttir, desember 2020