Strendingar – fjölskyldulíf í sjö töktum

strendingar
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Út við lygnan straum

Við hrifumst, við rifumst við lásum í lærðum hvort á annað, við kysstumst og leiddumst og störðum og þögðum og elskuðumst, elskuðumst, elskuðumst út í eitt. Myndir af okkur eru úti um allt hér, ég sakna þeirra, ég sakna okkar, en við erum enn til. Við erum enn við, bara örlítið meira undin, bara örlítið verpt. Áður vorum við lítil í stórri borg en nú finnst okkur við stór í litlum bæ. Hvort tveggja hefur sinn sjarma, hvort tveggja er tálsýn. (49)

Að segja sögu með því að gefa öllum helstu persónum (og jafnvel aðgerðarlitlum aukapersónum) orðið á víxl er alþekkt aðferð og oft áhrifarík. Hjá mörgum koma líklega vinsælar endursagnir Einars Kárasonar á Sturlungu upp í hugann, sem eflaust hafa opnað mörgum lesandanum leið inn í þá miklu sögu framhjá ættartölum og tyrfni frumtextans. Lesendum Strendinga – fjölskyldulífs í sjö töktum eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur gæti líka orðið hugsað til hinnar miklu bókar tyrkneska Nóbelshöfundarins Orhan Pamuk, Nafn mitt er rauður, þar sem menn, dýr, lík, náttúrufyrirbæri og jafnvel hugtökin sjálf hjálpast að við frásögnina.

Hér er ekki gengið svo langt, þó ómálga barn og marglífa köttur séu á mælendaskránni ásamt með hversdagslegri ræðumönnum. Strendingar er líka öllu tíðindaminni en bækur Einars og Orhans, þó hún lýsi reyndar talsverðum umbrotatíma í lífi fjölskyldunnar sem sagt er frá, þetta hálfa ár sem sagan spannar.

Eva er byggingarfulltrúi á Stapaströnd, litlu þorpi einhversstaðar á Norðurlandi vestra, skammt frá öllu stærri bæ, Hamarsvík. Það ríkir umtalsverð óræðni í lýsingu staðhátta, þorpið virðist bæði örsmátt, en ber þó bæði blómabúð og jafnvel menntaskóla. Þá virðist það ekkert vefjast fyrir Pétri, eiginmanni Evu, að búa í krummaskuðinu en vinna jafnframt á auglýsingastofu í höfuðborginni, en hann er reyndar í fæðingarorlofi meðan sagan gerist.

Annað sem gæti bent til að Yrsu Þöll sé ekki sérlega umhugað um nákvæma eftirmynd raunveruleikans í sögunni er orðfæri í sambandi við landbúnað, en Pétur er bóndasonur og Bergur faðir hans er ein persóna bókarinnar. Ég er nokkuð viss um að bændasynir myndu tala um „fé“ en ekki „kindur“ í því samhengi sem bústofninn ber á góma hjá Pétri og Lýð bróður hans, og að tala um að „slá túnið“ sem verk sem falið er yngri syninum eins og hvert annað viðvik hljómar einkennilega.

En þetta eru smáatriði og þegar upp er staðið er trúverðug, nákvæm og nærfærin endursköpun hversdagslífsins – og þeirri sérútgáfu þess sem lifað er í litlum bæjum – einmitt aðalsmerki Strendinga, og verulega vel heppnað hjá þessum tiltölulega nýbyrjaða höfundi.

Þegar sagan hefst er allt með eins kyrrum kjörum og hægt er að fara fram á í lífi nokkuð dæmigerðrar millistéttarfjölskyldu með þrjú börn, þar af eitt kornabarn og annað úr fyrra sambandi konunnar við óáreiðanlegan spilafíkil. Það er helst að skáldadraumar Péturs setji óvanalegan blæ á heimilislífið og jafnvel frásögnina sjálfa. Pétur tekur skáldskapinn alvarlega, hugsar stórt, eða réttara sagt smátt, því hann kemst aldrei lengra en að velta fyrir sér öreindum málsins, hljóðunum sem orðin eru samsett úr, og hvernig meta megi fegurðina út frá þessum grunneiningum. Á hinum enda skáldskaparins er Silja fósturdóttir hans, sem nær í seinni hluta sögunnar undraverðum frama í falinni veröld fantasíu- og hryllingssagnaskrifa á ensku á netinu. Það er nokkuð lýsandi fyrir úrvinnslu Yrsu Þallar á spennupunktum sögunnar að þegar Pétur kynnist skrifum Silju og verður vitni að velgengni hennar, með nálgun sem stangast svo harkalega á við hans eigin fagurfræði, eru viðbrögðin hvorki höfnun eða hneykslun né persónuleg krísa vegna eigin vanmáttar og „ósigurs“ fyrir sigurgöngu Silju, heldur nokkurskonar opinberun:

Geta óæðri orð tjáð æðri tilfinningar?
Geta ómerkilegar setningar verið gæddar djúpri merkingu?
Geta ómstríð og groddaleg hljóð endurspeglað þokka og glæsileika? (211)

Eftir kyrrláta byrjunina fer fljótlega allt á hliðina í lífi fjölskyldunnar. Tvær meginástæður liggja þar að baki. Í fyrsta lagi einstaklega smábæjarleg og sannfærandi uppteiknuð deila um kirkjubyggingu sem verður að blaða- og samfélagsmiðlamáli og kostar Evu starfið og um tíma sálarfriðinn. Sú seinni er koma Bergs inn á heimilið, en hann er illa haldinn af elliglöpum og getur ekki lengur séð um sig sjálfur á bænum í Borgarfirði þar sem hann hafði búið allan sinn búskap. Bergur heldur áfram að lifa í fortíð sinni í íbúð fjölskyldunnar með tilheyrandi árekstrum, en myndar helst tengsl við Steinar sonarson sinn sex ára, sem sjálfur á í umtalsverðum erfiðleikum í krakkalífinu og leikur tveimur skjöldum í flóknum vef eineltis og vináttu, sem er sérlega vel teiknaður af Yrsu Þöll.

Vel hefði mátt sjá fyrir sér dramatískari úrvinnslu og afleiðingar af þessum áföllum öllum. Það hefði auðveldlega getað hrikt umtalsvert meira í stoðum fjölskyldunnar en hér verður raunin, jafnvel svo að eitthvað hefði endanlega brostið. Leið Yrsu Þallar í gegnum ólgusjóinn er hins vegar þvert á móti merkilega hrein og bein og mál fjölskyldunnar leysast meira og minna án alvarlegra langtímaafleiðinga, virðist lesandanum í sögulok.

En þó spennu- og dramaáhugafólki sé kannski lítið skemmt og finnist það jafnvel illa svikið af úrvinnsluleiðum höfundar þá bjóða Strendingar upp á umtalsverðar sárabætur. Almennt talað felast þær í trúverðugri og nærfærinni lýsingu venjulegs fólks í erfiðum aðstæðum. Það er líka ágætt að skáldskapurinn minni stundum á að oftast séu færar slóðir úr ógöngunum sem við villumst flest í einhversstaðar á lífsleiðinni. Og að þær eru líka í frásögur færandi. Síðast en ekki síst nær Yrsa hvað eftir annað að sýna okkur smámyndir af hversdegi, kenjum og hinu óvenjulega í venjulegu bjástri nútímaíslendingsins, sem gleðja og vekja.

Dæmin eru mörg: Vandræðagangurinn í samskiptum Silju og Kristjáns, sem nær að vera kærastinn hennar í nokkrar blaðsíður. Óhuggulegi unglingaleikurinn „Ein mínúta í helvíti“ sem bæjarkrakkarnir stunda í kirkjugrunninum. Það óútskýrða, en merkingarþrungna smáatriði að Lýður kallar föður sinn „Berg“ en Pétur notar „pabbi“.

Eða þá þessi lýsing á venjulegu kvöldi á heimilinu meðan allt leikur í lyndi:

Þessi tími dags snýst um að nýta hvert handtak, hverja staðsetningu okkar Péturs. Hann er inni á baði, lógískt að hann bursti tennur drengsins. (24)

Og að Silja skuli hafa „elskað bensínlykt frá því hún var barn“. Eða að Pétur skuli bara geta:

… lesið efri blaðsíðuna á opnunni þegar hann liggur á hliðinni, svo hann skiptir stöðugt um stellingu. (237)

Allt kemur þetta saman í bitastæðri og sannfærandi mynd af hversdagslífi venjulegs fólks sem lendir í erfiðum aðstæðum og kemst í gegnum þær.

Í síðustu bók Yrsu Þallar, Móðurlífið – blönduð tækni, fannst mér höfundurinn færast aðeins of mikið í fang í glímu við hugmyndir um sköpunarferlið og textann, meðfram spennandi atburðarásinni. Það er ávæningur af þessum tilraunum í nærveru kattarins Mjálmars/Sahure sem virðist vera á einu af sínum síðari lífum í húsi byggingarfulltrúans, en er jafnframt í sambandi við nornirnar úr Macbeth og alheiminn sjálfan, og í innskotum kornabarnsins Ólafíu, sem hvorugar ná að setja mikilvægan svip á Strendinga – fjölskyldulíf í sjö töktum eða afvegaleiða hana af þeirri raunsæisbraut sem gerir hana jafn áhrifaríka í látleysi sínu og raun ber vitni.
 

Þorgeir Tryggvason, desember 2020