Sögumaður

Höfundur: 
Ár: 
2015
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Sögumaður

En samt sem áður er það hér, á þessu augnabliki, sem þráður myndarinnar, í kvikmyndahúsinu við Hverfisgötu, er slitinn í augum þess áhorfanda í salnum sem innan skamms tekur við hlutverki sögumanns. Því hann, sögumaðurinn, yfirgefur bíósalinn. Ástæðan er sú að önnur persóna, maður sem sá fyrrnefndi hefur veitt eftirför frá því um hádegi […] stendur upp úr sæti sínu og gengur út úr salnum.
(Bls. 10)

Sögumaður hefst á frásögn af upplifun á annarri frásögn þar sem kvikmyndinni La Grande Bouffe er lýst. Þessi lýsing setur strax tóninn í verkinu og gefur til kynna þá frásagnarleiki sem bókin býður upp á. Aðalpersóna verksins og sögumaður þess að mestu, G., er hugfanginn af kvikmyndinni en þarf að yfirgefa sýninguna til að halda áfram eftirför sinni sem hann hóf fyrr um daginn.

Á rigningardegi í júní, meðan heimsmeistarakeppnin í fótbolta stendur sem hæst, fer G. á pósthúsið í miðbænum til að póstleggja handrit að skáldsögu. Meðan hann bíður í röð á pósthúsinu sér hann mann sem hann kannast við. Maðurinn reynist vera hinn hálfbrasilíski Aron Cesar, sem G. álítur vera vandræðadreng og jafnvel tengjast undirheimunum. G. ákveður, án þess að hafa skýra ástæðu til, að elta Aron Cesar. Eftirförin í gegnum miðbæ Reykjavíkur verður að þungamiðju frásagnarinnar en hún er einnig krydduð með misskýrum endurlitum og hugleiðingum G. Í endurlitunum kemur meðal annars fram tenging G. við Aron Cesar, en þeir hafa báðir verið ástfangnir af sömu konunni, Söru. Sagan verður þar með eins konar spæjarasaga þar sem G. skipar sjálfan sig sem rannsakanda máls sem er aldrei er til staðar. Eftirförin virðist byggjast á áráttu frekar en rökum.

Umfjöllunarefni verksins einskorðast aftur á móti ekki við atburðarásina og eltingarleik G. Textinn sjálfur er sitt eigið viðfangsefni og frásögnin er marglaga. Sögumaður er, eins og titillinn gefur mögulega til kynna, sjálfsaga eða sögusögn (e. metafiction) þar sem textinn dregur athygli að sjálfum sér og byggingu sögunnar. Eins og sést í brotinu hér að ofan er talað um atburði sögunnar á bókmenntafræðilegum nótum. Vísað er til Arons Cesars sem annarrar „persónu“ frekar en manneskju og lesandinn er búinn undir skiptingu sjónarhorns þegar G. tekur við sögumannshlutverkinu. En strax vakna spurningar um það hver þjónaði þessu hlutverki áður en G. tók við því. Eftir því sem á líður eykst leikurinn með frásögnina ef eitthvað er og það getur reynst erfitt að átta sig á því hver eigi sögumannsröddina, sem virðist geta breyst hvenær sem er. Þrátt fyrir að sögusagnaeiginleiki Sögumanns sé eftir á að hyggja einn af meginþráðum verksins bar ekki of mikið á honum meðan á lestri stóð. Bragi fer varlega með formið og lætur leiki með sjónarhorn og sjálfsvísanir aldrei bitna á frásögninni sjálfri. Leikirnir eru ekki einungis leikjanna vegna heldur eru þeir hluti af stærra mengi og þjónusta heildina.

Sögumaður einkennist því af frásagnarleik að hætti sögusagna sem skeytt er við skemmtilega jarðbundna atburðarás og afmarkað sögusvið, þar sem skáldsagan á sér stað á einu eftirmiðdegi í miðborg Reykjavíkur. Stíllinn er fágaður og hæfir því sögumanninum G., sem er hálfgert bókmenntasnobb, en um leið er hann ekki of hátíðlegur. Textinn er auðlesanlegur sem gefur meira svigrúm til að beina sjónum að sögusagnareiginleikum verksins. Fyrir mér ber bókin það með sér að maður eigi að lesa hana tvisvar eða jafnvel þrisvar. Þar sem bókin er einungis 170 síður er auðvelt að endurtaka leikinn og fylgja sögumanninum G. aftur í eftirförina í gegnum Austurstræti og Bankastræti, bregða sér á kvikmyndasýningu á Hverfisgötu og njóta leiksins sem textinn leikur. Að kjammsa á litlu endurlitunum og púsla saman lífi persónanna. Textinn er árennilegur og bjóðandi. Sögumaður ætti að uppfylla helstu kröfur sem lesendur gera til fagurbókmennta án þess að verða fráhrindandi í augum þeirra sem meira eru fyrir afþreyingarbókmenntir. Það ættu allir að finna sér eitthvað við hæfi í Sögumanni; ef ekki við fyrsta lestur, þá mögulega í öðrum eða þriðja.

Már Másson Maack, janúar 2016