Pólífónía af erlendum uppruna

pólífónía
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

"Einskonar fæðing innflytjendabókmennta á Íslandi"

Bókmenntir innflytjenda eru vaxandi bókmenntagrein sem hefur notið vinsælda víða um hinn vestræna heim á undanförnum áratugum. Á Norðurlöndum hafa slíkar bókmenntir hlotið fjölmargar tilnefningar og verðlaun á síðustu árum. Þó að innflytjendur á Íslandi séu ekki færri en á öðrum Norðurlöndum í prósentum talið hefur sýnileiki þeirra innan íslenskra bókmennta ekki verið mikill síðustu ár. Ljóðasafnið Pólífónía af erlendum uppruna markar því viss tímamót í íslenskri bókmenntasögu en það hefur að geyma úrval ljóða eftir fimmtán höfunda sem allir eru innflytjendur á Íslandi. Ljóðasafnið kom nýverið út hjá Unu útgáfuhúsi undir ritstjórn Natöshu Stolyarova og inniheldur ljóð eftir höfundana Juan Camilo Roman Estrada, Önu Mjallhvíti Drekadóttur, a rawlings, Vilja-Tuulia Huotarinen, Randi W. Stebbins, Jakub Stachowiak, Meg Matich, Elías Knörr, Sofie Hermansen Eriksdatter, Giti Chandra, Fransesca Cricelli, Natasha Stolyarova, Deepa R. Iyengar, Ewa Marcinek og Mao Alheimsdóttur. Öll koma þau úr ólíkum áttum og hafa verið búsett mislengi hér á landi en fjalla í ljóðasafninu um reynslu sína af því að vera innflytjendur á Íslandi. Í eftirminnilegum formála Natöshu Stolyarova að ljóðasafninu segir: „Við erum til og við erum mörg. Það er eftirspurn eftir okkar skáldskap og hér er svarið. Þetta er einskonar fæðing innflytjendabókmennta á Íslandi og ég vona að henni fylgi margar bækur, í margar kynslóðir, um ókomna tíð.“

Pólífónía

Orðið pólífónía í titli ljóðasafnsins vísar til þess þegar margar raddir mynda samhljóm. Í ljóðasafninu mætast raddir ólíkra ljóðskálda sem hvert um sig hefur sinn persónulega stíl og einkenni. Þó að persónulegur stíll ljóðskáldanna skíni í gegn er ljóðum hinna ólíku skálda raðað saman af slíkri vandvirkni að þau mynda fallegan samhljóm. Titill Pólífóníu er því afar lýsandi. Saman segja ljóðin margþætta sögu af upplifun ljóðskáldanna af Íslandi; sögu af söknuði og þrá, fordómum og tillitssemi, uppgjöri og aðlögun. Um leið kallar ljóðasafnið á vangaveltur um hugmyndina um þjóðerni og mörkin á milli þess að vera kunnugur og ókunnugur, innlendur og útlendur á ákveðnum stað. Í ljóðasafninu er þar að auki vakið máls á kynþáttahyggju og öðrum hindrunum sem innflytjendur kunna að mæta í íslensku samfélagi. Um þetta fjallar Ewa Marcinek til að mynda í ljóði sínu „Íslenskur draumur“:

Í íslenskum draumi
dansa tvö börn á sviði.
Stelpan þekkir sín spor,
hún er ballettdansari.
Strákurinn hefur ekki hugmynd,
svo hann þykist vera rappari.
Fyndið par, þessi tvö litlu börn.
Hvíta fólkið meðal áhorfenda
hlær og klappar
þangað til að kona móðgast.
Hún er svört og stelpan líka.

Í íslenskum draumi
opnar maður munninn og tapar öllu:
húsi sínu, börnunum, eiginkonunni, bílnum,
peningunum, starfinu, kennitölunni, réttindum sínum.
Allt sem tunga hans snertir
hverfur.
Slæmur hreimur er eins og andremma.

Margröddun og fjöltyngi

Hugleiðingar um tungumál, vald þess og vægi er ákveðið leiðarstef í Pólífóníu sem hefur að geyma ljóð og ljóðaþýðingar á nokkrum ólíkum tungumálum, þar á meðal íslensku, ensku, finnsku, dönsku og portúgölsku. Ljóðasafnið er þannig tvímála eða í raun margmála og þau ljóð sem ekki eru frumort á íslensku eru birt í íslenskri þýðingu með textann á frummáli til hliðar. Pólífónía er því ekki einungis margradda heldur einnig fjöltyngt rit sem vekur máls á ólíkum hliðum tungumálsins. Mörg ljóðin fjalla þar að auki um þá upplifun að vera staddur í framandi málheimi eða upplifa sig sem útlending innan tiltekins tungumáls. Þau lýsa einnig þeim hindrunum og fordómum sem nýir málhafar sem tala íslensku með hreim kunna að mæta innan íslensks samfélags. Í ljóðinu "Málið" eftir Önu Mjallhvíti Drekadóttur eru formreglur og málfræðilegar hömlur tungumálsins til að mynda til umræðu.

„En takið eftir því að merking orðs skiptir líka máli“,
upplýsti málfræðikennarinn okkur á endanum.
Og ég föst í beygingardæminu
fastandi hálfa ævina á formsatriðunum.

Í gegnum Pólífóníu er farið með tungumálið á leikandi og skapandi máta og möguleikar þess kannaðir á ýmsan hátt. Í ljóðaúrvali Elíasar Knörr „Ritskoðun nr. 1-6“ leikur skáldið sér með mörkin á milli „réttrar“ og „rangrar“ íslensku. Við fyrstu sýn virðist ljóðið skrifað á hefðbundinni íslensku en við nánari athugun kemur í ljós að um ólæsilegan graut þykjustu-orða og skopyrða er að ræða: „nei / þessi trjólaða misbæsting dexar okkur öll / væri herra Forhembi í einhverjum blaska / myndu allir þveðlar mjaftarinnar kautra sig“. Í ljóðum Elíasar er tungumálið þannig framandgert gagnvart hinum almenna málhafa og lesandinn settur í spor þeirra sem líta íslenskuna ókunnugum augum.

Heima og heiman

Er heima tiltekinn staður, minning eða einfaldlega ákveðið ástand? Hvað gerist þegar þú flytur á nýjan stað og gamla heimalandið hverfur í fortíðina? Hvenær máttu kalla nýja staðinn heima?

Í opnunarljóði bókarinnar yrkir ljóðskáldið Juan Camilo Roman Estrada um norðrið og leit sína eftir stað til að tilheyra. Í gegnum ljóðið verður ljóst að norðrið er ekki eiginlegur staður í huga ljóðmælanda heldur öllu fremur huglægt ástand eða ímynd sem mótuð er út frá almennum hugmyndum um ósættanlegar andstæður norðurs og suðurs, hins kunnuga og þess framandi. Þó að ljóðmælandi setjist að í norðrinu og geri sér þar heimili heldur hann áfram leit sinni að hinu ímyndaða norðri: „Sannast sagna / á engin heima í norðrinu. / Enn er það ósigrað / utan seilingar, / ókunnugt. / Þarna úti! / Þarna úti! / Þarna úti!“ Þessar andstæður og hugmyndir um hið hvítþvegna norður er til umræðu í fleiri ljóðum í safninu en mörg þeirra fjalla einmitt um kynþáttahyggju, þjóðerni og ímynduð heimalönd.

Sögupersónur Íslendingasagnanna og aðrar þekktar þjóðhetjur koma við sögu í Pólífóníu en í safninu er þar að auki að finna ýmsar tilvísanir í íslenskar þjóðsögur. Þannig stíga Snorri Sturlusson og goðin Freyja, Skaði, Rán og Ægir til að mynda á svið í áðurnefndu ljóði Juan Camilo og ljóðmælandi tekur á sig selsham í ljóði Meg Matich „Selshamur við Gróttu“ sem skírskotar til samnefndrar þjóðsögu úr safni Jóns Árnasonar. Íslensk náttúra, fegurð hennar og ofsi eru þar að auki í forgrunni í ljóðasafninu og segja má að safnið sé afar þjóðlegt að þessu leyti.  

Líkt og Natasha Stolyarova bendir á í áðurnefndum formála ljóðasafnsins veitir sjónarhorn innflytjenda í bókmenntum innsýn í veruleika sem er bæði framandi og kunnulegur í senn og getur þannig gefið lesandanum tækifæri á að öðlast aukna þekkingu og skilning á fjölbreytileika mannlegrar reynslu. Pólífónía af erlendum uppruna hefur fram að færa mikilvæga sýn á íslenska menningu og samfélag og er því afar verðmætt – og tímabært – framlag til íslenskra bókmennta. Þetta er margradda ljóðasafn í fallegri umgjörð sem brýtur blað í íslenskri bókmenntasögu um leið og það varpar ljósi á stöðu innflytjenda innan íslensks samfélags.
 

Snædís Björnsdóttir, desember 2021