Jarðvísindakona deyr

Jarðvísindakona deyr
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Jarðvísindakona deyr

Þótt Ingibjörg Hjartardóttir hafi ekki verið áberandi í bókmenntaumræðu síðustu ára er hún mikilvirkur höfundur. Hún hefur skrifað fjölda sviðsverka fyrir atvinnu- og áhugamannaleikhús, ekki síst leikfélagið Hugleik sem hún tók þátt í að stofna, allnokkur útvarpsleikrit, eina ævisögu og fimm skáldsögur. Sú nýjasta heitir Jarðvísindakona deyr og kom út hjá bókaútgáfunni Sölku nú á dögunum. Svo virðist sem hún sé að einhverju leyti byggð á einu útvarpsleikrita Ingibjargar, Vísindakona deyr, sem Ríkisútvarpið flutti í tíu þáttum árið 1998. 

Jarðvísindakona deyr gerist í Selvík, afskekktu þorpi á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins. Eftir dapurlegt tímabil í sögu byggðarlagsins, með miklu atvinnuleysi, horfir nú loks til betri vegar því erlendur auðkýfingur ætlar að reisa þar eitt stærsta kísilver í heimi. Hjól atvinnulífsins hafa þegar tekið að snúast og fyrirséð að þorpið muni aftur fyllast af fólki og verslanirnar af ferskvöru. Það er því fátt sem skyggir á gleði þorpsbúa þegar fyrsta skóflustungan að verinu er tekin – ekki einu sinni hörmulegt slys sem varð á svæðinu aðeins nokkrum dögum áður þegar 32 ára gömul jarðvísindakona úr Reykjavík lést eftir að hafa ekið út af veginum skammt utan við þorpið og endaði á botni hinnar svo kölluðu Ófærugjár. En andlát hennar vekur forvitni Margrétar Guðmundsdóttur, húsmóður og ekkju sem komin er af léttasta skeiði. Hún dregur Sigrúnu, æskuvinkonu sína, með sér í rannsókn á tildrögum slyssins og linnir ekki látum fyrr en sannleikurinn liggur fyrir.

Jarðvísindakona deyr lætur ekki einfaldar bókmenntaskilgreiningar reyra sig á bás. Þetta er vissulega glæpasaga, bókin fjallar jú um rannsókn glæps og undir lokin fæst fullnægjandi lausn á gátunni – auk þess sem ýmislegt óvænt kemur í ljós varðandi fortíð persónanna. En um leið má segja að glæpamálið sé sjaldnast í forgrunni bókarinnar, að minnsta kosti ekki eftir að fyrstu köflunum sleppir. Það er í raun lífið í þorpinu, breytingarnar sem fylgja tilkomu kísilversins og umfram allt persónuleg málefni söguhetjanna, Margrétar, Sigrúnar, Gísla, eiginmanns Sigrúnar, og Kristjáns Richter, forstjóra Jarðskjálftastofnunar, sem ráða för.

Frásögnin er jafnframt römmuð inn á óvenjulegan hátt því fremst í bókinni er að finna texta sem túlka má sem nokkurs konar yfirlýsingu höfundar. Í þessum formála segir meðal annars: „Höfundurinn er ekki almáttugur. Hann skapar að vísu persónur sínar en hann stýrir ekki örlögum þeirra. Þær koma fullskapaðar úr höfði hans en síðan skrifa þær sig sjálfar.“ Þessi texti rímar síðan við örstuttan eftirmála þar sem tveimur af persónum bókarinnar er þakkað fyrir dýrmætt framlag sitt til að leiða söguna til lykta. Hugmyndin um að það séu sögupersónurnar sjálfar sem stýri frásögninni frekar en höfundurinn er ekki ný af nálinni. Margir rithöfundar hafa í gegnum árin lýst vinnuferli sínu svona, að þeir hafi jafnvel haft allt aðrar hugmyndir um hvernig atburðarás sögunnar ætti að vera en persónurnar svo tekið af þeim völdin og beint henni í allt aðra átt. Eins má segja að leikrit Luigis Pirandello, Sex persónur í leit að höfundi, sem skrifað var fyrir fyrir nákvæmlega 100 árum, snúist um einmitt þetta en þar mæta sex fullmótaðar persónur óvænt á æfingu leikhóps og eru, líkt og titillinn gefur til kynna, í leit að einhverjum sem getur miðlað sögu þeirra. Verk Pirandellos hefur gjarnan verið túlkað á þann veg að það fjalli um möguleika leikhússins sjálfs til að miðla veruleikanum. Þegar listaverk fjalla um sjálf sig með þessum hætti kallast það metafiction upp á ensku en á íslensku hefur gjarnan verið talað um sjálfsögur. Og einkenni sjálfsögunnar má finna víða í Jarðvísindakona deyr. Það kemur nefnilega í ljós snemma í sögunni að Sigríður hefur nýlokið við 39. bók hins landskunna glæpasagnahöfundar Stjörnu Steins. Stjarna Steins er dulnefni óþekkts höfundar sem enn hefur ekki tekist að fletta ofan af þrátt fyrir áralangar vangaveltur. Aðalpersóna bókflokksins ber sama nafn en hann byggir á rannsóknum hennar á raunverulegum glæpamálum. Fljótlega verður ljóst að 40. bók höfundarins dularfulla á að fjalla um slysið í Ófærugjá en kaflar úr henni taka að fléttast inn í frásögnina af lífinu í Selvík og rannsókn Margrétar á sama máli. Svo virðist sem bók Stjörnu heiti líka ‚Jarðvísindakona deyr‘ og miðað við textann er hún sjálf stödd mitt í atburðarásinni. Lesandinn spyr sig því ósjálfrátt hvort einhver þeirra persóna sem kemur við sögu gæti mögulega verið manneskjan á bak við dulnefnið og þannig eykur þessi hluti frásagnarinnar enn á spennuna.

Vangaveltur um stöðu höfundarins og önnur einkenni sjálfsögunnar hafa gjarnan verið tengd við ákveðna undirgrein glæpasögunnar, menningarlegu glæpasöguna, en Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco er iðulega nefnd sem dæmi um slíka frásögn. Það má auðvitað deila um hvort ástæða sé til að gera svo skýran greinarmun á afþreyingu og hámenningu en það er engu að síður ljóst að Jarðvísindakona deyr daðrar við þessa bókmenntagrein. Það er þó spurning hversu mikil alvara sé með daðrinu. Því þótt bókin beri skýr merki sjálfsögunnar fær lesandinn ekki beinlínis á tilfinninguna að það sem brenni á höfundinum sé að vekja upp heimspekilegar spurningar um mörk veruleika og skáldskapar. Upplifun undirritaðrar var að minnsta kosti frekar að þetta væri hluti af þeim leik sem einkennir frásögnina oft og tíðum. Það er nefnilega ákveðin glettni í þessum texta. Ekki bara í spaugilegum lýsingum eins og þegar það kemur fram að forstjóri Jarðskjálftastofnunar gangi ævinlega í sokkum með götum á hælunum, heldur líka í villtu lífi sögunnar sjálfrar sem neitar að lúta stífum lögmálum bókmenntagreinanna. Eins og þegar einni persónunni tekst fyrir misskilning að fá starf sem sérfræðingur á Jarðskjálftastofnun án þess að hafa nokkra menntun eða reynslu þar að lútandi og neyðist síðan til leggja kapal í vinnutölvunni vikum saman í von um að ekki komist upp um svikin. Þá minnir frásögnin eiginlega meira á farsa og sú raunveruleikatenging sem er gjarnan talað um að sé nauðsynleg glæpasögunni rofnar nánast alveg. Hvort þetta sé meðvitað eða af hálfu höfundar eða mistök er ekki gott að segja en með formálann í huga má ætla að þetta sé kannski eitt af þessum skiptum þar sem persónurnar fengu að stýra förinni, ákváðu óvænt að ráða sig í vinnu og höfundurinn þurfti þá bara að leysa það! 

Þótt þessi leikur og ólíkindalæti í söguþræðinum geti verið heillandi rís Jarðvísindakona deyr hæst í umfjöllun sinni um tengsl fólks, tengsl í gegnum áralöng hjónabönd og enn eldri vináttu. Það er oft svo mikil næmni og hlýja í þeim lýsingum, eins og þegar Margrét straujar allar skyrtur nýlátins eiginmanns síns áður en hún gefur þær í Rauða krossinn eða þegar Sigríður reynir að hafa vit fyrir vinkonu sinni í fatavali. Þótt bæjarpólitík, náttúruhamfarir og glæpamál séu vissulega fyrirferðarmikil á yfirborði sögunnar er kjarni hennar allt annars staðar, fólginn í þessu hversdagslega ölduróti lífsins sem færir fólk til skiptis nær og fjær hvert öðru. 

Guðrún Lára Pétursdóttir, júní 2021