Hugfanginn

hugfanginn
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

„Vertu þú sjálfur, eins og þú ert“

Síðastliðið vor efndu Sparibollinn, verðlaun fyrir fegurstu ástarjátninguna í íslenskum bókmenntum, í samstarfi við Króníku bókaútgáfu, til handritasamkeppni þar sem óskað var eftir óbirtu ástarsöguhandriti. Hlutskarpast varð handritið að bókinni Hugfanginn eftir Önnu Rögnu Fossberg og kom verkið út í byrjun nóvember. Áður hafði höfundur gefið út bókina Auðnu (2018).

Heillaður eða hlekkjaður?

Titill bókarinnar vísar til hlekkja hugans og það að vera afar heillaður af einhverju. Helsta birtingarmynd þessara hlekkja er hversu misskilinn og bældur Smári er, aðalsöguhetja skáldsögunnar Hugfanginn, en upphafssetning bókarinnar „Hvað skyldu þau halda um mig?“ gefur strax tóninn. Ef við lítum til hugarástands Smára er hann nýgreindur með hjartagalla og þarf að taka lyf til æviloka. Eins og gerist þegar einstaklingar greinast með ævilangan sjúkdóm fer Smári að hugsa um fortíðina og hvernig hann lenti í þeim sporum að vera einangraður og í raun munaðarlaus í fleiri en einum skilningi. Hann á ekki foreldra á lífi og á enga að sem vilja elska hann nákvæmlega eins og hann er. Svo er hann munaðar-laus í þeirri merkingu að hann er án alls munaðar þar sem hann leyfir sér ekkert sem veitir honum gleði eða lætur honum líða vel. Einföld sjálfsögð gleði stendur honum einfaldlega ekki til boða þar sem hann beitir sig hörðu til að vera eins og allir aðrir vilja að hann sé eða að minnsta kosti fer eftir sínum eigin hugmyndum um hvernig hann eigi að vera til að gera öðrum til geðs. Til að bæta upp fyrir fíkn og mistök foreldra sinna og skapofsa bróður síns ákvað Smári snemma að vera fyrirmyndarbarn og það hélst allt fram til fullorðinsáranna. Hann forðast að segja upphátt hvernig honum líður nema einstaka sinnum og þá sér hann svolítið eftir því. Strax á fyrstu síðum bókarinnar brotnar aðalsöguhetjan niður þar sem áralöng bæling tilfinninga brýst fram eins og fljót tára og hláturs.

Í æsku sinnar spor

Í gönguferð um æskuslóðirnar rifjar Smári upp barnæsku sína sem gefur um leið innsýn inn í líf Íslendinga á áttunda áratugnum og þann ótta sem lá í loftinu: „Óttinn við kjarnorkustríð var jafn raunverulegur þá og óttinn við hamfarahlýnun núna“ (79). En það er fleira sem vofir yfir, óuppgerð áföll og feluleikur sem hefur einkennt líf Smára alla tíð eru í forgrunni í því endurliti sem á sér stað á meðan hann gengur um æskuslóðirnar. Leiðin að hamingjunni er ekki eins auðsótt fyrir Smára og þá sem í kringum hann eru en hann er einstæðingur sem siglir á milli skerja og vill heldur afneita tilfinningum en takast á við þær. Þetta eru tilfinningar eins og reiði, höfnun, angist, sorg sem og að finnast hann hvergi eiga heima. Eins klisjulega og það virðist hljóma þá er hann ekki „besta útgáfan“ af sjálfum sér. Lesendur komast að því við lestur bókarinnar að Smári á það til að máta sig við aðrar fjölskyldur og ímynda sér að hann tilheyri þeim. Jafnframt virðist hann hafa tilhneigingu til að máta sig við andstæður sínar, laðast jafnvel að þeim, eins og Þórgunni vinkonu sinni, og þráir heitt að eignast fjölskyldu þó hann sé minna fyrir þá athöfn sem býr til börnin.

Bygging verksins er á þann veg að fyrsti kaflinn er í raun endir sögunnar en hann nefnist „Hálfum sólarhring fyrr“. Flestir kaflarnir eru endurlit í formi hugsana þar sem kaflaheitin endurspegla hvað klukkan er þegar Smári gengur niður í miðbæ á æskuslóðunum eða frá „Fimm mínútur yfir þrjú síðdegis“ til „Fimm mínútur yfir fjögur“. Sögutíminn spannar því aðeins hálfan sólarhring og gangan um æskuslóðirnar og endurlitið tekur aðeins klukkustund.

Kaflaskipting sögunnar er svolítið eins og hjá fanga sem bíður eigin aftöku, aðeins líða nokkrar mínútur milli kafla en þeir bera allir heiti þess tíma sem líður milli þess sem Smári er að hugsa til baka, t.a.m. „Fimm mínútur yfir hálf fjögur“ og svo „Átta mínútur yfir hálf fjögur“. Á sama tíma og endurlitið á sér stað er Smári einnig að horfast í auga við eigin dauðleika: „Smári hefur alltaf hugsað afskaplega vel um heilsuna, og það hefur varla hvarflað að honum að hann sé dauðlegur. Þess meira var áfallið í gær þegar hann var greindur með lífshættulegan hjartagalla“ (71) og stundarfjórðungi síðar hugsar Smári:

Ég hefði þurft hjálp, var bara korteri frá sjálfsvígshugleiðingum, hugsar Smári með sér og verður hneykslaður á úrræðaleysinu. Það var enga hjálp að fá í skólanum og það hvarflaði ekki að honum að leita til ömmu. Hann íhugar þetta nánar en hristir höfuðið. Amma var af gömlu kynslóðinni sem bar harm sinn í hljóði, hún hefði ekki skilið hann og ekki haft neina lausn á takteinum. (101)

En þetta úrræðaleysi sem hann hugsar um eru ímynduð viðbrögð ömmu sinnar sem er af „gamla skólanum“ sem harkar allt af sér, vina sinna sem skilja hann illa og stofulausum sálfræðingi sem hann hittir fyrir tilviljun og svo aftur þegar hún er komin með stofu og ljót gleraugu og jafnvel lakari hæfileika til að meðhöndla hann.

Ég er eins og ég er

Smári fær innblástur frá sögupersónunni Líf, sem hefur kastað hlekkjum fortíðarinnar og minnir lesendur á glæsilegt fiðrildi sem áður var púpa. Það að hitta Líf fyrir á þessu augnabliki sem Smári hittir hana verður til þess að hann losar aðeins betur um bindishnútinn (sem mætti túlka sem hengingaról) en jakkafötin mynda sterka andstæðu við litríka persónu Lífar í Gleðigöngunni. Það má finna ákveðin undirliggjandi skilaboð í textanum að fegurð okkar sem mannvera liggur ekki í hversu fullkomin við erum öllum stundum eða réttara sagt hversu fullkomin við gefum okkur út fyrir að vera en það kemur endurtekið fram að fólkið sem er best til þess fallið að hjálpa honum bregst. Í lok sögunnar er gefið í skyn að fegurðin liggi í fjölbreytileika einstaklinga þar sem hver og einn fær að vera til og blómstra á sínum eigin forsendum. Smári áttar sig á því að hann hefur sóað lífi sínu en lokasetning bókarinnar er „Í hvað hef ég eiginlega sóað lífi mínu?“

Áður en Smári hittir Líf er hann eins aleinn í heiminum og Palli var einn í heiminum nema að Smári er fullorðinn og hugsanir hans halda honum föngnum. Þær kvelja hann og hann hefði kosið að hafa gert hlutina öðruvísi, hvert einasta svokallað feilspor er tekið til vandlegrar greiningar og athugunar í stuttri gönguferð um heimaslóðirnar. Það eru engin verðlaun í lífinu fyrir að gera öllum til geðs og læðast meðfram veggjum. Og í huga Smára er örugglega ekkert til sem heitir karma þar sem allt sem hann fékk fyrir það að vera fyrirmyndardrengur var nístandi einsemd og ólæknandi hjartasjúkdómur sem móðir hans kallaði yfir hann með því að neyta fíkniefna á meðgöngu. Enginn fær að komast yfir ókleifan ísmúrinn sem Smári hefur byggt vandlega upp allt frá barnsaldri, hann felur langanir sínar og þrár og gengur svo langt að setja aðra kápu á ástarsögu sem hann les sem unglingur. Það er ekki fyrr en Líf gerir örlítið gat á ísmúrinn með hlýju sinni að allar tilfinningarnar virðast brjótast fram, bæði hlátur og grátur en það kemur fram að Smári muni ekki einu sinni hvenær hann hló síðast:

Þegar hún segir brandara skellir hann uppúr og finnur hvað það er gott að hlæja, hvernig spennan í brjóstkassanum leysist upp. Hvað er eiginlega langt síðan ég hló síðast? hugsar hann hissa, en þá finnur hann hvernig hláturinn umhverfist í grát. Hann felur andlitið í höndum sér og skelfur. Hann finnur líka fyrir nýrri tilfinningu, þrá fyrir nærveru og líður eins og hann sé í vímu (þó hann sé bláedrú) sem bendir til þess að hann sé að verða ástfanginn. (9)

Höfundi tekst mjög vel upp að fanga andrúmsloft áttunda áratugarins og virkjar um leið öll skilningarvit lesenda sem fá að komast að því hvernig er að smakka heita afmælisköku beint úr ofninum með osti sem svo reynist vera pítsusneið og rauðan brjóstsykur sem er alls ekki brjóstsykur heldur rauð paprika. Jafnvel teppin á stigagöngunum hafa nærveru og veggfóður og matarlykt af hefðbundnum íslenskum mat og svo mætti lengi telja. Kuldinn nístir inn að beini þegar Smári ber út blöð og rukkar í snjó og rigningu en hitinn kemur til sögunnar þegar Líf snertir öxl hans og bræðir ísinn.

Höfundur sagði í útgáfuhófi sínu að henni þætti afar vænt um Smára og lesendur finna það í textanum, finna til mikillar samúðar með manni sem hefur þjáðst í hljóði frá því hann var barn og vaknar fyrst til lífsins þegar hann horfist aftur í augu við fyrrum skólafélaga sem hefur kastað hlekkjum hugans og Smári verður samstundis hugfanginn.

 

Eyrún Lóa Eiríksdóttir, desember 2021