Húfulaus her

Ár: 
2010
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Smáorð um smárit

Húfulaus her jólasveina barst mér í umslagi um daginn. Umslagið er partur af „ritröð um menningu og mannlíf með ritgerðum, greinum, sögum, ljóðum og myndverkum”, segir aftan á umslaginu. Fyrsta umslagið var ljóðaumslagið Sjöund, með ljóðum eftir Gunnar Hersvein, hannað af Sóleyju Stefánsdóttur, sem hafði veg og vanda af þessari einstöku og fersku útgáfu á bókarformið. Umslagið er nefnilega ekki aðeins umbúðir heldur hluti af ritverkinu sem heftað er inn í það. Allt er þetta ákaflega skemmtilegt og sniðugt og býður höfundum upp á ýmsa leiki í máli og myndum, auk þess að gleðja lesandann voðalega því það er svo spennandi að sjá hvað kemur upp úr umslaginu hverju sinni.

Þessa nýstárlegu möguleika nýtir Sigurbjörg Þrastardóttir einkar vel í sögum sínum af húfulausum her jólasveina, en þær ganga út á samskipti sveinanna við húfur sínar. Giljagaur, til dæmis, missir alltaf af sér húfuna þegar hann keyrir hratt á blæjubílnum sínum. Skyrgámur notar húfuna sína sem kartöflusekk og Gluggagægir á í vandræðum því hann treystir sér ekki til að taka húfuna niður. Kjötkrókur klippir sína húfu niður í dúsk og Gáttaþefur getur prjónað með fingrunum. Þetta eru nútímalegar jólasveinasögur sem hafa þó ekki tapað tengslunum við fortíð sína, enda er húfa Stekkjastaurs fyrirmynd að gömlu prjónamynstri sem málað er á malbik.

Jólasveinarnir eru ómissandi hluti jólanna og það er alltaf gaman að fá í hendurnar vel heppnaðar tilraunir til að gefa þeim nýtt líf. Síðast skemmti ég mér konunglega yfir myndasögum Jan Pozok og Sigrúnar Eddu Björnsdóttur í Rakkarapakki (2005), en það er orðið svolítið síðan. Smáprósar Sigurbjargar eru næstum því einskonar myndasögur, því hún teiknar léttlyndar og furðulegar myndir við, sem falla fullkomlega að þeim léttlynda og furðulega húmor sem einkennir sögurnar.

Úlfhildur Dagsdóttir, desember 2010.