Hið heilaga orð

Ár: 
2018
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Dirfska og frumleiki

Mæðurnar voru í miðju veraldarinnar, þær voru þungamiðjan í lífi okkar, almáttugar og alvitrar. Við snerumst í kringum þær eins og tungl, og einhvers staðar á jaðrinum var faðirinn, bjartur eins og sólin, þungur eins og svarthol, af einhverjum allt öðrum heimi.

Þetta var áður en orðin komu og stafirnir, áður en þau röðuðu sér saman og urðu að setningum og sögum, endalausum runum af bókstöfum sem lögðust yfir sjóndeildarhringinn og umkringdu okkur, lokuðu annað inni, útilokuðu hitt. [...]
Segðu mér sögu, systir mín. Eins og þegar við vorum börn.
Ég skal segja þér sögu, bróðir minn. Eins og þegar við vorum börn. (bls. 8)

Hið heilaga orð er önnur skáldsaga Sigríðar Hagalín en hún þreytti frumraun sína með dystópísku skáldsögunni Eylandi (2016). Sigríður er gífurlega hugmyndaríkur rithöfundur og í annarri bók sinni sleppir hún af sér beislinu sem leiðir af sér einstaka sögu sem erfitt er að lýsa. Í verkinu bregður fyrir ótal ólíkum hugmyndum sem spanna allt frá sérkennilegu fjölskyldumynstri og erfiðleikum, til áhrifavalda á samfélagsmiðlum og yfirskilvitlegra áhrifa læsis, ásamt dassi af eiginleikum ráðgátusagna. Sagan tekur óvæntar stefnur og það er flókið mál að lýsa söguþræðinum án þess að spilla lestrarupplifuninni. Lýsingin hér verður því bundin við fyrsta hluta bókarinnar en hún hefst á því að Einar, ein helsta aðalpersóna verksins, fréttir af því í miðjum laxveiðitúr að systir hans er horfin. Fljótlega kemur í ljós að Edda, hálfsystir Einars, hefur flogið til Bandaríkjanna með fúsum og frjálsum vilja og lögreglan getur því lítið aðhafst. Meginsöguþráður verksins er leit Einars að Eddu þar sem það kemur í hans hlut að finna systur sína með því að ráða í torræðar vísbendingar og að sannfæra hana um að snúa aftur heim.

Hið heilaga orð er margslungin frásögn en Sigríður stekkur milli fortíðar og nútíðar og óvenjuleg fortíð fjölskyldunnar fléttast inn í leit Einars að Eddu. Í fyrstu fortíðarköflum verksins fær lesandinn að kynnast Júlíu og Ragnheiði, mæðrum Eddu og Einars, en þær urðu óléttar eftir sama manninn með nokkra mánaða millibili. Faðir Eddu og Einars er ekki gerður fyrir fjölskyldulíf og Júlía og Ragnheiður taka þá óvenjulegu ákvörðun að ala upp börnin sín saman. Ég hafði virkilega gaman af lýsingum Sigríðar á þessu óvenjulega heimilishaldi og persónur Júlíu og Ragnheiðar voru kraftmiklar og lifandi. Í samanburði var Einar litlaus og óáhugaverður, þrátt fyrir að leitin að Eddu og nútíðin ætti greinilega að vera meginþráður verksins. Ég syrgði það þegar fortíðarkaflarnir færðu fókusinn smám saman yfir á æsku Einars og Eddu og skildu hið sérstaka samband Júlíu og Ragnheiðar eftir. En við þessa skiptingu fór nútíðarþráðurinn að dýpka og taka á sig nýja mynd. Í upphafi virtist Einar vera klisjukenndur „karlakarl“ -- þögull laxveiðimaður sem keyrir um á jeppa -- en þegar honum er kippt úr sínu hefðbundna umhverfi fer að glitta í hvað býr í honum undir yfirborðinu. Seinni hluti verksins tekur óvæntar stefnur og undir lokin hafði Sigríður gjörsamlega sannfært mig um að tilfinningalíf og persónur Einars og Eddu væru athyglinnar virði.

Þræðir bókarinnar eru gífurlega fjölbreyttir en eins og ég kom inn á í byrjun get ég því miður ekki farið í saumana á þeim hér án þess að spilla fyrir lestrarupplifuninni. Ég get samt sagt að það krefst mikils hugmyndaflugs að flétta þeim saman í eina heilsteypta sögu sem er einn helsti styrkleikur Sigríðar. Þessu fylgja þó miklar væntingar því lesandinn verður sífellt forvitnari eftir sem líður á söguna. Flestar hliðar sögunnar fá fullnægjandi málalok en einn mikilvægur þráður fannst mér eilítið endaslepptur og ekki alveg ganga upp miðað við hvernig hann var settur fram í fyrri hluta verksins. Að því sögðu verð ég að hrósa Sigríði fyrir hugmyndaauðgi og það er virkilega ánægjulegt að sjá hana vaxa sem rithöfund. Í Eylandi fékk lesandinn að máta sig við “hliðarheim” Sigríðar þar sem Ísland missti allt samband við umheiminn. Hugmyndin var skemmtilega fjarstæðukennd en um leið kunnuleg þar sem hún átti sér rótfestu í raunverulegu umhverfi lesandans. Bókin var góð frumraun en mér finnst greinilegt að með Hinu heilaga orði hefur Sigríður tekið stórt stökk í skáldskap sínum. Hér er um mun tilkomumeiri sköpun að ræða, Sigríður hefur spunnið ótrúlega frumlega sögu og fléttað saman söguefnum sem hefðu hæglega hvert fyrir sig geta borið uppi heila skáldsögu. Mér finnst ótrúlega djarft hjá Sigríði að ægja þeim saman en henni tekst vel til og útkoman er eftirtektarverð og margslungin skáldsaga. Sigríður er rithöfundur á uppleið og ég hlakka til að lesa næstu skáldsögu sem hún sendir frá sér.

 

Már Másson Maack, 2018