Hættir og mörk

Ár: 
2005
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Orð, sorg og gleði

Það má segja að fyrsta ljóðið, „Fuglamál“, í nýju ljóðasafni Þórarins Eldjárns sé nokkurs konar stefnuyfirlýsing:

Sá er ekki endilega skáld sem skilur manna best gaggalagó trendhanans á bæjarburstinni.

Frekar sá er situr kyrr á sama stað og eru allir vegir færir.

Kemst hvert á land sem er á þrekhjóli.

Sem sagt, það fylgir því enginn gæðastimpill að fylgjast með tískunni, jafnvel þvert á móti. Betra er að æða ekki af stað, heldur vera kyrr á sínum stað. Það mætti færa rök fyrir því að þessi stefnuyfirlýsing væri óþörf, því lesendur sem þekkja Þórarinn eiga ekki beinlínis von á að hér verði tískustraumar ráðandi, og fyrir nýja lesendur þá sjá ljóðin í bókinni um sig, ef svo má að orði komast, þurfa varla á fyrirvara sem þessum að halda. En í ljóðinu birtast líka allir helstu kostir höfundarins, persónuleg notkun á hefðbundnum háttum, glettni í orðalagi og skýrt ávarp til lesandans.

Það kennir ýmissa grasa í verkinu, sum ljóðin eru stutt og snúast um eina hugmynd, eins og brandarar, eins og t.d. „KS“ og „Hagmælisgrey um ljóðið“, önnur geyma sorg og trega eins og sérlega áhrifamikil sonnettan „Spegill“. Við fáum veðurlýsingar „Sumardagurinn fyrsti“ og myndir úr hversdeginum, „Naglar“. Svo snúa sögur aftur í stuttum prósaljóðum, H. C. Andersen er mættur í „Ævintýri“ og Jón Thorodssen í „J. Th. snýr aftur“.

Skáldkskapur, skrif og fræðingar fá líka nokkuð pláss. Fræðingar fá ekki sérlega góða útreið frekar en við var að búast, en skáld eru skömmuð líka, t.d. fyrir kaldranalegan hugsunarhátt í ljóðinu „Starfshópur“. Skáldið legst í ferðalög og birtir okkur svipmyndir frá París og ein þessara svipmynda, „Björk og Snorri í París“, fær skemmtilegan eftirmála í athugasemdum höfundarins.

Í umfjöllun um ljóðabók er maður nær dæmdur til að leita að heildarsvip, en Hættir og mörk bjóða ekki endilega uppá slíkan lestur. Það eru þræðir spunnir og áframhald er fengið með árstíðaljóðum um sumar, vetur og vor. En ljóðin hafa mjög margvíslegan tón, form og framsetningu, sem gæti virkað sundurlaust í byrjun, en við frekari lestur verður þessi margbreytileiki jafnvel helsti kostur safnsins. Þessi lesandi hreifst mest af ljóðum sem lýstu sorg, efasemdum og tilverupælingum eins og „Spegill“, „Passíuskraf“ og „Þreying“, þar sem form og efni fer einstaklega vel saman í að skapa áhrifamiklar myndir. En þeir sem aðhyllast orðaglens, ákveðnar skoðanir og leiki með hætti fá hér einnig töluvert fyrir sinn snúð, og allt er þetta vel gert.

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, nóvember 2005.