Grísafjörður, Umskiptin, Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur

grísafjörður
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
umskiptin
Höfundur: 
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur
Höfundur: 
Ár: 
2020
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Barnið vex en bókin ekki?

Hér verður fjallað um þrjár myndabækur sem komu út árið 2020: Grísafjörð eftir Lóu Hjálmtýsdóttur, Umskiptin eftir Önnu Höglund (þýðandi Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson) og Myndskreytta handbók um skrautlegar skepnur eftir Maju Säfstöm (þýðandi Valgerður Bjarnadóttir). Þær eru allar barnabækur eftir konur sem bæði skrifa og myndskreyta sögurnar, og margir myndu ef til vill telja að þær hlytu þá að vera ósköp svipaðar. En í raun eru þær ólíkar á nánast allan annan hátt.

Grísafjörður eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur er ný íslensk skáldsaga fyrir börn, sem er rækilega myndskreytt af Lóu sjálfri. Lóa er þjóðþekkt fyrir myndasögur sem hún birtir víða á samfélagsmiðlum, en hefur einnig gefið út bækur eins og Alhæft um þjóðir (2009) og Lóaboratoríum (2014). Árið 2018 var frumsýnt leikritið Lóaboratoríum, sem er byggt á myndasögum Lóu.

Grísafjörður fjallar um tvíburasystkinin Ingu og Baldur sem hlakka til að byrja í sumarfríi, þegar aldraður nágranni þeirra birtist heima hjá þeim hágrátandi og alveg óhuggandi. Þeim líst ekkert á hann í fyrstu, en fjölskyldan endar á því að tengjast honum sterkum vinaböndum.

Í Grísafirði eru ekki bara myndskreytingar heldur líka stöku myndasaga sem bætir við merkingu textans og eykur á skemmtanagildi bókarinnar. Á einni síðunni má til að mynda sjá mynd af kakómalti sem ber heitið „rókókómalt“, en utan á því er mynd af kanínum í rókókó-klæðnaði, sem er frábær brandari (33). Grísafjörður er þó fyrst og fremst heilsteypt skáldsaga, og stendur algjörlega á eigin fótum sem slík. Myndasögurnar þjóna sama tilgangi í sögunni og myndskreytingarnar gera, og það er alls kostar mögulegt að skilja framgang sögunnar fullkomlega þó þær séu hunsaðar. Þær eru skemmtilegar, en sagan stendur á eigin fótum án þeirra.

Umskiptin eftir Önnu Höglund kom út á íslensku nú árið 2020, en á frummálinu árið 2018. Höglund hefur skrifað ótal barnabækur á sænsku, en áður hefur komið út á íslensku bókin Sjáðu Hamlet (s. 2017/í. 2019), sem hún myndskreytti.

Umskiptin er umfram allt ævintýri. Höglund hefur vitnað í sögu Elsku Beskow „Tripp, Trapp, Trull och jätten Dum-dum“ sem aðalinnblástur sinn að sögunni,[1] en hún fjallar um þrjár systur sem bjarga föður sínum frá risa með aðstoð spegils og regnhlífar. Stelpan í sögu Höglund sigrast á tröllskessunni á sama hátt. Umskiptin er endursögn á þessu klassíska sænska ævintýri sem einfaldar upprunalegu frásögnina.

Umskiptin er vandlega myndskreytt bók. Á öllum opnum er texti með skýrri og læsilegri leturgerð, og teikning eftir Höglund. Myndlistarstíll Höglund er afar einstakur og næstum barnslegur, sem gefur sögunni mjög sérstakan brag. Myndirnar í bókinni eru afar gráslegnar fyrir utan aðalsöguhetjuna, sem er í skærrauðum stakk. Stelpan er aldrei nefnd á nafn — hún er bara „stelpan“.

Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur eftir Maju Säfstöm kom upprunalega út á ensku árið 2016, þrátt fyrir að Safström sé sænsk eins og Anna Höglund. Bókin kemur fyrst út á íslensku nú í ár. Þessi bók reiðir sig meira á myndirnar heldur en textann. Teikningar Säfstöm eru alveg svarthvítar, og einkennast af sterkum og skýrum útlínum teiknaðar með fíltpenna. Bókin hefur engan söguþráð, heldur er hver opna tileinkuð einni dýrategund. Teikningarnar fylla flestar alveg upp í opnuna. Meðfram myndunum eru svo staðreyndir um viðkomandi dýrategund. Sumum myndunum fylgir aðeins ein staðreynd, öðrum mun fleiri.

Fíls-ungar nota ranann fyrir snuð. (87)

Staðreyndirnar eru skemmtilegar og vekja áhuga lesanda á viðkomandi dýri, en umfram allt snýst bókin um fallegar teikningar Säfstöm.

Grísafjörður er stórfín barnabók, skemmtilega skrifuð og áhugaverð. Hún er í fallegu harðspjalda broti, með innbundnu bókamerki, og auk þess fylgja henni límmiðar, póstkort og dúkkulísur af tvíburunum. Ég mæli heilshugar með Grísafirði fyrir fólk sem langar til að lesa skemmtilega bók með börnunum sínum, en ég hafði sjálf reglulega gaman af henni, þrátt fyrir að vera vel utan markhópsins. Umskiptunum hafði ég ekki eins persónulega gaman af. Þar er á ferðinni tiltölulega hefðbundið ævintýri, og mun afrdáttarlausari barnabók. Hún fjallar fyrst og fremst um valdeflingu ungrar stelpu sem tekur málin í sínar eigin hendur. Umskiptin á ef til vill minnst erindi við fullorðna lesendur af þessum þremur bókum. Sem er besta mál — það þurfa ekki allar bækur að höfða til fullorðinna. Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur er hins vegar aðgengileg öllum aldurhópum, og er áhugaverð fyrir fullorðna lesendur einfaldlega vegna þess hversu fallegar teikningar Säfstöm eru. Lesendur á öllum aldri geta notið þess að fletta í gegnum bókina og staldrað við á opnunni um sæotra sem haldast í hendur í svefni eða býflugur sem sofa aldrei, og dáðst að myndlistinni.

Þrátt fyrir að vera allar myndabækur sem eru fyrst og fremst handa börnum, eru þessar þrjár bækur gjörólíkar — bæði í innihaldi og með tilliti til hlutverks og vægis myndskreytinganna í þeim. Grísafjörður er skáldsaga sem segir frá atburðum í lífi tvíburanna Ingu og Baldurs sem gerast á um það bil hálfu ári. Sagan gerist í raunheimum í okkar eigin samtíma, og hefur upphaf, miðju og endi. Umskiptin gerast hins vegar í furðulegum ævintýraheimi, á óræðum tíma, og engar persónur eru nefndar. Hún hefur líka upphaf, miðju og endi, en er talsvert einfaldari og einblínir bara á þennan eina söguþráð án þess að reyna að vera nákvæm eða fyndin. Umskiptin er stutt og áhrifaríkt ævintýri. Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur er svo alveg gjörsamlega laus við allan söguþráð og texti bókarinnar er einungis skemmtilegar staðreyndir um dýrin sem birtast á myndunum.

Myndskreytingar geta þjónað mjög ólíkum tilgangi, og skipt mismiklu máli í gefinni bók. Myndskreytingar í barnabókum eiga það til að skipta minna máli því eldri sem markhópur bókar er. Bækur fyrir mjög ung börn samanstanda oft af ljósmyndum og litlum sem engum texta, og margar barnabækur eru skreyttar fallegum teikningum sem segja söguna til jafns við textann. Bækur fyrir eldri börn eru líklegri til þess að búa aðeins yfir myndskreytingum á stangli (nema um fræðibækur sé að ræða). Myndskreytingarnar í Grísafirði, Umskiptunum og Skrautlegum skepnum vega afskaplega misþungt. Í Grísafirði eru þær skemmtilegar án þess að vera lykilatriði og bæta í sjálfu sér ekki miklu við söguþráðinn. Í Umskiptunum vega þær jafn þungt og textinn og lesandinn upplifir söguna ekki til fulls ef hann skoðar ekki líka myndirnar. Og í Myndskreytt handbók um skrautlegar skepnur eru myndirnar langtum mikilvægari en textinn, sem hefur mögulega aðeins verið settur inn til þess að réttlæta útgáfu bókarinnar. Engin af þessum nálgunaraðferðum er röng eða óskynsamleg. Myndabækur eru jafnfjölbreyttar og aðrar bókmenntir, og þessar bækur eiga það ef til vill helst sameiginlegt að eiga allar heima á bókahillu framtíðar bókaorma.
 

Védís Huldudóttir, desember 2020