Eyland

Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur
Ár: 
2016
Flokkur: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Dystópían Ísland

Hún ætlar til Ingu vinkonu sinnar, börnin hafa verið þar frá því á laugardagsmorguninn, á meðan þau gengu frá málinu, krufðu hræið af ástarsambandinu og bútuðu það niður, þú drapst þetta, ég er bara svona, þú færð þennan útlim og ég þennan.

Hann fer í sturtu og rakar sig, horfist í augu við einhleypan manninn í speglinum. Hún situr enn og horfir niður í gólfið þegar hann kemur fram, svart hárið fellur niður vangana og grannar axlirnar. Hún er í peysu sem honum fannst einu sinni draga fram kvenlegar línur hennar, brjóstin smá og dúnmjúk, núna húkir hún eins og poki í sófanum.

Hún lítur upp. Þú ert sjálfhverft og eigingjarnt barn.

Þreytan gengur yfir hann í öldum, hann gæfi hvað sem er til að ljúka þessum samræðum, til að láta eins og ekkert af þessu hefði nokkurn tímann gerst.

Ég gerði mitt besta.

Þitt besta var eiginlega ekki neitt.

(Eyland, bls. 16-17)

Fyrsta skáldsaga Sigríðar Hagalín Björnsdóttur, Eyland, er margslungin bók sem er erfitt að festa undir eina ákveðna bókmenntagrein. Bókin hefst á einbúa í eyðifirði sem er að taka á móti lömbum. Einbúanum er umhugað um að komast lífs og virðist vera á flótta undan einhverju. Hann sest svo við skriftir í hrörlega kofanum sínum þar sem hann ætlar sér að skrifa annál um það sem hefur gerst og „hvernig þetta myrkur skall á“ (bls. 11). Í næsta kafla breytist sjónarhornið og lesandinn fær að kynnast Hjalta Ingólfssyni, blaðamanni, sem heldur fínt matarboð í Hlíðunum ásamt kærustu sinni, Maríu. Þrátt fyrir að boðið sé hið glæsilegasta og eldamennskan til fyrirmyndar kemur fljótlega í ljós að það leikur ekki allt í lyndi milli Hjalta og Maríu. Hjalti á erfitt með að tengjast börnum Maríu, Margréti og Elíasi, og sinnir þeim ekki nógu vel að mati Maríu. Þessi ágreiningur leiðir á endanum til átakanlegra sambandsslita. Upphaf bókarinnar gefur því til kynna að um sé að ræða eins konar ástar- og harmsögu þar sem stormasamt samband verður krufið til mergjar. Um leið liggur óleyst ráðgátan um aðstöðu einbúans í byrjun sögunnar, sem virðist vera Hjalti sjálfur.

Hér hefur hins vegar ekki allt upp talið því eitt helsta undirstöðuatriði sögunnar er enn ónefnt. Skömmu eftir sambandsslit Hjalta og Maríu rofnar samband Íslands við umheiminn. Erlendar netsíður verða óaðgengilegar, ekki er hægt að hringja til útlanda og skip og flugvélar sem send eru erlendis snúa ekki aftur. Bókin fjallar því um hvernig Hjalti og fólkið í lífi hans, ásamt íslensku þjóðinni í heild, reyna að bjarga sér án tengsla við umheiminn. Hægt væri að skilgreina Eyland sem vísindaskáldsögu eða dystópíu. Vísindaskáldsögunni hefur verið lýst sem bókmenntagrein hugmynda og fjarstæðukenndrar framtíðar, en dystópían lýsir óákjósanlegu eða jafnvel martraðarkenndu þjóðfélagi. Það fer hins vegar lítið fyrir „vísindahliðinni“ þar sem Sigríður fer ekki ofan í saumana á því hvað veldur sambandsleysinu og einbeitir sér þess í stað að því hvernig íslenskt samfélag myndi bregðast við svona skyndilegri breytingu. Sagan er þó alltaf bundin við persónulega reynslu og lesandinn kynnist nýja Íslandi aðallega í gegnum upplifanir Hjalta og Maríu, ásamt brotum úr blaðagreinum sem varpa ljósi á þróun samfélagsins eftir sambandsleysið.

Einn helsti styrkleiki Eylands er nálægð lesandans við atburðarásina. Við erum vanari að sjá dystópískar framtíðarsýnir af fullkomlega uppdiktuðum heimum eða sögur sem eiga sér stað í erlendum borgum eða bæjum. Í slíkum sögum getum við stjórnað því betur hvernig við mátum okkur við þær aðstæður sem koma fyrir í textanum og erum ekki bundin af okkar raunverulega lífi. Í Eylandi getur lesandinn aftur á móti ekki valið sig frá aðstæðum sínum þar sem Sigríður notar okkar eigið samfélag sem efnivið og grunn að sögunni. Lesandinn þarf að horfast í augu við hver hans hlutskipti yrðu í heimi Eylands, í það minnsta er greinilegt hvar undirritaður myndi lenda í stigskiptingu nýja samfélagsins:

Við erum ekki sjálfbær eins og er, við þurfum að tvöfalda matvælaframleiðslu þjóðarinnar. Það verður ekki gert með því að forrita tölvuleiki og snyrta neglur, skrifa bókmenntagagnrýni. Við þurfum að rækta!

(Eyland, bls. 69)

Heimur Eylands er hins vegar ekki einungis úr þeim garði gerður að láta bókmenntagagnrýnendur og aðrar listaspírur vorkenna sjálfum sér. Bók Sigríðar veltir einnig upp spurningum fyrir þá sem myndu lenda ofan á í nýrri samfélagsskipan. Ef ég myndi skyndilega fá öll völdin í mínar hendur, yrði ég góður við samborgara mín eða myndi ég fyrst og fremst hugsa um eigin hag? Auðvitað er dystópíska hvað-ef bókmenntastefnan alls ekki ný af nálinni en því verður ekki neitað að Eyland er áhrifaríkt framlag til þeirrar greinar í íslenskum bókmenntum. Sagan nær til manns þar sem hún sprettur ekki aðeins upp úr manns eigin samtíma heldur einnig upp úr manns eigin litla samfélagi.

Í Eylandi er ekki aðeins „hliðarheimur“ íslensks samfélags þar sem fjarstæðukenndir atburðir hafa átt sér stað, heldur vísar sagan líka beint til átakamála sem flestir Íslendingar ættu að kannast við úr almennri umræðu síðustu ára. Í starfi sínu sem blaðamaður rekst Hjalti á ýmsar hindranir í kjölfar sambandsleysisins, stjórnvöld vilja að umfjöllun sé uppbyggileg en fréttakempur vilja halda í aðhaldshlutverk fjölmiðla. Sigríður dregur þannig upp kunnulega umræðu um blaðamennsku og hvort hún eigi alltaf að vera gagnrýnin eða hvort hægt sé að ganga of langt í fréttaflutningi með því að „tala niður“ stöðu mála. Rasismi er tekinn fyrir ásamt því hvernig þjóðerniskennd blossar upp þegar hætta steðjar að samfélögum. Sigríður beinir einnig sjónum að átökum um stöðu menningar sem svipar til ágreinings meðal fólks á Íslandi í dag um ágæti listamannalauna. Enn einn átakapunkturinn í Eylandi – sem kemur augljóslega fram í auknu mikilvægi innlendrar matarframleiðslu í bókinni – er gjáin milli borgar og dreifbýlis. Sigríður nær að undirstrika þessi átakamál úr fjölmiðlaumræðu síðustu ára með því að einangra íslenskt samfélag á skapandi hátt og búa til grundvöll sem ýkir átökin og gerir þau sýnilegri.

Hugmyndaflugið eitt og sér ekki nóg til að skapa hrífandi bók, lesandinn þarf áhugaverðar persónur til að samsvara sig með sem heppnast ágætlega hjá Sigríði. Þrátt fyrir að það sé í raun skapaður nýr heimur í Eylandi helst aðaláherslan á Hjalta og hans vegferð í gegnum þessar furðulegu aðstæður. Upphafskaflinn um sambandsslit Hjalta og Maríu er þéttur og vel skrifaður þar sem lesandinn fær tilfinningu fyrir ríkri baksögu persónanna. Fyrri hluti bókarinnar einkennist af álíka þéttri frásögn en maður fær það á tilfinninguna að það sé farið mun hraðar yfir sögu eftir því sem líður lengra á bókina. Kaflar frá sjónarhorni aðstandenda Hjalta bætast við í seinni hlutanum, sem er dálítið ruglandi þar sem í upphafi bókarinnar er gefið í skyn að við séum að lesa ritaðar endurminningar Hjalta af atburðunum í kjölfar einangrunarinnar. Hægt er að líta framhjá þessum smávægilega galla en samt sem áður situr eftir tilfinningin að sumum sjónarhornanna sé ofaukið í bókinni. Flestir kaflarnir sem sagðir eru út frá sjónarhorni aðstandenda Hjalta virðast einungis hafa það hlutverk að reyna að fullgera söguheim Eylands og sýna hvernig sambandsleysið hefur áhrif á öll lög samfélagsins, líka þau sem Hjalti tilheyrir ekki.

Þetta á hins vegar ekki um kaflana frá sjónarhorni Maríu þar sem hún veitir áhugavert mótvægi við upplifun Hjalta. Hún er af erlendum uppruna og á tvö börn sem hún þarf að sjá fyrir, en Hjalti er innfæddur einstæðingur. Hennar kaflar búa einnig yfir þeim kosti að persóna hennar hlýtur öfluga kynningu og samband hennar og Hjalta er límið sem heldur verkinu saman.  Eyland er því vel heppnuð dystópísk saga sem byggð er á frumlegri hugmynd um skyndilega einangrun íslensks samfélags. Forsenda sögunnar felur í sér söguheim sem er frábrugðinn raunveruleika lesandans en Sigríður fetar vel línuna milli þess að sýna nógu mikið af nýja samfélaginu sem myndast og að gefa kjarna skáldsögunnar nægilegt rými, það er persónulegum þroska Hjalta og sambandi þeirra Maríu.

Már Másson Maack, desember 2016