Ekkert elskan, ég er bara að tala við köttinn

Ekkert elskan, ég er bara að tala við köttinn
Höfundur: 
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Ringulreið hugans og þráin eftir að skrifa

Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni sem eitthvað fylgist með íslenski bókaútgáfu að ljóðið er að gera gott mót þessi misserin. Ljóðabækur koma út allt árið um kring hjá stærri og smærri forlögum sem og í sjálfsútgáfu og fjölmargir nýir höfundar hafa skotið upp kollinum. Leiða má að því líkur að gróskan sé að einhverju leyti tilkomin vegna ritlistarnáms sem síðastliðin tíu ár hefur verið kennt á meistarastigi við Háskóla Íslands. Það nám er í það minnsta fæðingarstaður margra höfunda og verka sem finna má í hillum bókabúða og sú er raunin með þann höfund og það verk sem hér er til umfjöllunar. Ekkert, elskan, ég er bara að tala við köttinn, eftir Ægi Þór Jänke, kom út í byrjun nóvember hjá Endahnútum en útgáfan hefur það að markmiði að styðja við unga höfunda sem eru að koma sínum fyrstu verkum á prent. Verðugt markmið það!

Skilgreiningar afþakkaðar

Hvort rétt er að skilgreina Ekkert, elskan, ég er bara að tala við köttinn sem ljóðabók er spurning út af fyrir sig þó textinn sé sannarlega ljóðrænn og innihaldi fjölda ljóða. Kannski væri allt eins rétt að kenna bókina við lýríska essay-ju, það sjaldséða form í íslenskum bókmenntum, eða láta það einfaldlega eiga sig að reyna að troða henni á tiltekinn bás. Hér ægir í það minnsta mörgu saman, prósa, ljóðum, tilvitnunum og ritgerðum sem og heimspekilegum og bókmenntafræðilegum hugleiðingum og athugunum. Það er því allt eins gott að sleppa því að setja sig í ákveðnar stellingar fyrir lesturinn en reyna þess í stað að hvíla í textanum á þeim stað sem hann er það sinnið.

Þó hér sé ekki um að ræða hefðbundna sögu með upphafi, miðju og endi miðlar textinn sannarlega einhvers konar frásögn. Sögumiðjan er ungur maður, skáldið, sá sem er bæði höfundur og aðalpersóna, sá sem yrkir og sá sem um er ort, og meginþemað er þrá hans til að skilja og skrifa, finna ástina og leita að merkingu í lífinu. Bókinni er skipt í sex hluta skrifuðum í ólíkum formum. Hver hluti varpar ljósi á persónu og lífshlaup unga mannsins, minningar hans og hugmyndaheim og tengsl hans við heiminn. Bókinni mætti mögulega lýsa sem þroskasögu þó að loknum lestri sé það lesandanum kannski ljósara hvaða öfl og atvik í umhverfi hans og lífi hafi mótað hann fremur en að hann taki gagngerum breytingum sem persóna í gegnum söguna. Eins og áður sagði er hér ekkert upphaf og endir, fremur kakófónía hversdagsins með öllum þeim flækjum og sársauka sem fylgir því að vera á lífi og geta hugsað. Og ekki bara hugsað heldur hugsað um sjálfan sig að hugsa. Ungi maðurinn grípur til orða Jack Kerouac máli sínu til stuðnings: "Ég hef ekkert að bjóða annað en eigin ringlureið." En ætli það sé ekki einmitt ástæðan fyrir því að hann skrifar og þráir að skrifa. Skrif koma skikki á hugann.

Að skora mark

Í fyrsta hluta bókarinnar, ritgerð um fótboltaliðið Sheffield United, er tæpt á tvennu sem á eftir að koma æði víða við í bókinni, annars vegar hugmyndinni um lítilmagnann, taparann sem hefur það í sér að verða sigurvegari, og hins vegar hugleiðingum um heild. Eftir lestur þessarar ritgerðar er ófótboltafróðum hreint fyrirmunað að skilja hvers vegna einhver ætti að halda með liði með jafn glæstan tapferil að baki en það segir lesandanum um leið eitthvað um persónu unga mannsins. Hann er jú, skáld. Skítblankt skáld í þokkabót, og hefur ekki erindi sem erfiði í viðureign við útgefandann sem hann leitar til því hann er enginn sérstakur og hefur ekki lent í neinu sérstöku. Hann er enginn markaskorari. En Sheffield hefur í gegnum tíðina átt sína spretti og í því samhengi bendir ungi maðurinn á það sem heildin getur áorkað, þegar allt vinnur saman sem ein heild gerist eitthvað. Þetta má heimfæra á textann sjálfan sem á stundum gerir athugasemdir við sjálfan sig og skortinn á heild: "Hvað varðar verkið í heild þá veit ég ekki hvort réttilega sé hægt að tala um heild." Eitthvað virðist ungi maðurinn höfundurinn því vera að velta fyrir sér hverju sinn eigin texti, sá sem hann er búinn að fá lesandanum í hendur, geti áorkað. En þrána eftir heild má einnig sjá í endurteknum hugleiðingum um ástina og leitina að henni en á því sviði hefur ungi maðurinn ekki alltaf hitt í mark. Nokkur af skemmtilegri ljóðum bókarinnar lista einmitt upp vafasöm áhrif bókmennta og tónlistar á hugmyndir okkar um þá sleipu skepnu.

Það sem ævintýri hafa kennt mér um ástina

Hvort einstaklingar passi saman fer mest eftir skóstærð.

Ef þig grunar að stjúpmamma þín elski þig ekki er það rétt.

Það er ekkert að því að laðast að öðrum dýrategundum.

Það er í lagi að kyssa sofandi fólk.

ALLTAF að velja yngstu systurina.

Það er raunhæf von að lifa hamingjusöm til æviloka.

Tíminn og tungumálið

Áhrif texta af ýmsu tagi eru raunar bæði eiginlegt efni bókarinnar og hluti af byggingu hans. Ungi maðurinn flandrar um götur bæjarins "í leit að línum", sýpur ódýran bjór á sjoppulegri krá og reynir að skrifa - dröbbuð stemningin eins og í málverki eftir Caravaggio. Hann les og les og stingur stöðugt inn í textann brotum af því sem hann les sem aftur myndar textatengsl við hans eigin skrif. Hann er mótaður af textum og úr texta, hann er texti.

Þriðji hluti bókarinnar, "Meltingartruflanir sálarinnar", inniheldur ljóð, sett fram í tímaröð, sem flest tengjast æsku, uppvexti og ungdómsárum og teygja þannig tímaás bókarinnar. En tíminn sjálfur, sá sem líður án þess að maður fái rönd við reyst, er unga skáldinu ítrekað áhyggjuefni. Sér í lagi þar sem hann virðist gjarn á að sóa honum, eða í það minnsta nýta í annað en hann myndi vilja: "Ofvaxnar áætlanir dagsins verða að sjónvarpsglápi eftir kvöldmat." Í löngu ljóði sem lesa má sem einhvers konar manifesto um ljóðið sem hann langar að yrkja en hefur enn ekki getað ort segir hann meðal annars:

Mig langar að yrkja ljóð um þennan tíma

sem liggur þarna á milli hluta og enginn vill kannast við

á milli nýtingar og sóunar

sem er tími lífsins

tími augnabliksins sem er jafn eilíft og gleymska

jafn hverfult og minni

sem er punkturinn á eftir setningu.

Þrá hans eftir að skrifa eitthvað sem vert er að lesa og vandinn við að raungera þá þrá er eitt seigasta leiðarstef bókarinnar. Hann virðist fastur í þeirri algengu gildru ungra skálda að bíða eftir innblæstri fremur en að vinda sér í verkið. Hann "þarf að komast í gírinn." Miðað við hugleiðingar hans um innblásturinn virðist hann þó vel meðvitaður um að málið er flóknara en svo:

Þó leynist hann víða fyrir þeim sem kunna að lesa á milli línanna. Á milli línanna sem draga þetta hnitakerfi sem við köllum reynsluheim okkar, utan um þennan svokallaða veruleika. Allt sem við vildum segja og sögðum. Sem var þegar til kom, aldrei nákvæmlega það sem við vildum segja.

Ungi maðurinn kemur all oft að þessari glímu við tungumálið, þetta tæki sem við notum til að smíða merkingu og gera okkur skiljanleg. Hann hefur sínar efasemdir um það tæki: "Tungumálið er hilling okkar eigin þrár eftir skipulagi. Tálsýn, eintóm helvítis tálsýn." Hvernig segir maður það sem maður vill segja og hvernig getur maður verið viss um að aðrir skilji það á sama hátt og maður sjálfur – hvernig getum við verið viss um að orðin þýði það sama fyrir þér og mér? Allt eru þetta spurningar varðandi mál málanna í Ekkert, elskan, ég er bara að tala við köttinn sem hverfist um skrif og miðlun hugsunar og hugmynda. Hvað vil ég segja og hvernig kem ég því til skila þannig að einhver nenni að lesa það? Skáldið er, kannski eins og sönnu skáldi sæmir, þó á þeirri skoðun að eitthvert haldreipi megi finna í myndlíkingunni: "Mál er myndlíking. Allt tal um hið svonefnda tungumál vísindanna er hjóm þegar allar okkar grundvallarhugmyndir um heiminn byggja á myndmáli." Með öðrum orðum þá skiljum við allt með því að líkja því við eitthvað annað, með því að vísa í eitthvað annað og það gerir höfundur bókarinnar síendurtekið. Textinn úir og grúir af tilvitnunum í önnur skáld og heimspekinga, stundum eins og til frekari útskýringa eða rökstuðnings, stundum eins og í samtali við orð höfundarins. Textinn er því að hluta gerður úr öðrum textum og beinir þannig athyglinni að þeirri staðreynd að bækur spretta ekki síst úr öðrum bókum; að frumforsenda þess að skrifa er að lesa.

Var einhver að segja eitthvað

Stíllega einkennist textinn af mikilli mælsku og orðanotkun er bráðskemmtileg. Oft er stutt í húmor og jafnvel háð þó það dyljist ekki lesandanum að höfundi er alvara og að þrá hans eftir því að vera skáld er fölskvalaus. Sjálfsmeðvitund textans sem birtist í athugasemdum um eigið ágæti skapar vissa íroníu sem og lýsingar höfundar á skáldinu sjálfu. Skáldið þrammar um göturnar, síðhærður og skeggjaður í slitnum frakka með hugann fullan af djúpum pælingum. Það eitt og sér að hann kallar sig ítrekað skáldið virðist hálfgerð háðsglósa, líkt og höfundur vilji varpa fram þeim möguleika að allt sé þetta tóm tilgerð. Titillinn endurspeglar sömuleiðis vissar efasemdir um hvort verkið eigi yfir höfuð eitthvert erindi við lesendur, líkt og höfundur segi: 'Ég, sem hef svo mikla þörf fyrir að segja eitthvað, var ekki að segja neitt. Og alls ekki við þig. Bara við köttinn. Þann sem hefur hvorki skilning né tök á tungumálinu.'

Ekkert, elskan, ég var bara að tala við köttinn er illskilgreinanleg stúdía á eilífðarglímu skálda allra tíma við sig sjálf, lífið og sín skrif. Kannski er hún helst nótubók þess sem skrifar. Vangaveltur höfundar um það hvort hún eigi erindi eru í sjálfu sér óþarfar. Sá úrskurður hlýtur á endanum að liggja hjá lesandanum.


Hrafnhildur Þórhallsdóttir, desember 2021