Drón

Höfundur umfjöllunar: 

Hashtög lífs okkar

Drón er önnur bók Halldórs Armands Ásgeirssonar sem skaust upp á stjörnuhiminn íslenskra bókmennta með sinni fyrstu bók, Vince Vaughn í skýjunum (2013), en sú inniheldur tvær nóvellur; titilsöguna og Hjartað er jójó. Frumraun Halldórs var ferskt innlegg í íslenska bókmenntaflóru, sannkölluð 21. aldar saga þar sem höfundurinn beinir sjónum sínum að lífi ungs fólks á tölvuöld.

Halldór er á svipuðum slóðum í Dróni sem er metnaðarfull stúdía á hinum tæknivædda samtíma. Hér er fjallað um samband mennsku og tækni, mátt upplýsinga og hið alltumlykjandi fyrirbæri sem internetið er, sem allt man og engu gleymir. Á sama tíma er Drón kynslóða- og þroskasaga, en líkt og í titilsögunni í fyrstu bók Halldórs er unglingsstelpa í aðalhlutverki: hin 17 ára gamla Heiðrún Sólnes, menntaskólanemi, starfsmaður bæjarvinnunnar og vonarstjarna Íslands á fótboltasviðinu.

Allt virðist eðlilegt á yfirborðinu, en líf Heiðrúnar tekur stakkaskiptum þegar hana fer að gruna að sársaukafullir tíðaverkir hennar tengist dularfullum og óútskýrðum drónaárásum víða um heiminn. Eins og höfundurinn sagði í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni  á dögunum – viðtali sem var tekið í Kringlunni, sem kemur talsvert við sögu í bókinni – eru drón ógnvekjandi, en á einhvern undarlegan hátt heillandi nútímatákn. Ógnin er nýstárleg, fjarlæg og framandi eins og kemur snemma fram í bókinni:

Þannig er ógnin, hún eflist í fjarverunni, ósýnileg en alltaf hér, sálarlaus og rauðeygð, ránfugl sem aldrei sefur, óþreytandi fulltrúi hins nafnlausa óvinar á fjarstýrðu svifi yfir heiminum, suðandi eins og biluð tölvuvifta undir skrifborðinu. Knúin áfram af hreyflum nýrrar aldar er hún afsprengi viljans til að meitla söguna og æðar hennar titra undan linnulausu streymi upplýsinga. (49)

Í örvæntingu sinni leitar Heiðrún til ömmu sinnar og alnöfnu, sérfræðings á sviði alþjóðastjórnmála, hálfgerðrar rokkstjörnu í fræðaheiminum sem í upphafi bókar er fremur lítill þátttakandi í lífi barnabarnsins. Kaflarnir þar sem þær nöfnur endurnýja kynni sín og ná saman eru meðal þeirra best heppnuðu í bókinni og í raun er hinn mannlegi þáttur sögunnar sterkari en sá sem snýr að drónaárásunum.

Heiðrún eldri er hipp og kúl, aðjúnkt við King‘s College í London sem er „með selfie-æði“, fer á deit með ritstjóra Der Spiegel, skrifar vinsæla pistla í Guardian og tekur virkan þátt í baráttu aðgerðasinna. Áður fyrr vann Heiðrún Sólnes í banka og sinnti búi og börnum, og stundaði sjálfsnám í frístundum. Hún lék m.ö.o. hefðbundið kvenhlutverk, sem er jafnframt kúgandi eins og Steinar Baldvin, flokksstjórinn í bæjarvinnunni sem Heiðrún yngri er skotin í, segir: „Skoðanalausa, brosmilda amman sem bakar kökur, dekrar við börn og er góðmennskan holdi klædd er mjög háþróuð samfélagskúgun. Við bjuggum til hlutverk fyrir þær sem er of jákvætt til að þær geti flúið það“ (110). Í rás bókarinnar stígur Heiðrún yngri einnig út úr þeim ramma sem búið var að sníða fyrir hana, hún missir smám saman áhugann á fótboltanum sem fram að því hafði skilgreint líf hennar, án þess að hún hafi tekið eftir því.

Ásamt Heiðrúnunum tveimur koma ýmsar aðrar persónur við sögu: móðir Heiðrúnar yngri er afar metnaðarfull fyrir hönd dóttur hennar og rær öllum árum að því að koma henni í atvinnumennsku erlendis, faðirinn er sögukennari sem er með Kötlugos á heilanum og eyðir frítíma sínum í að búa fjölskylduna undir slíkar hamfarir, bróður Heiðrúnar er vinalegur en vinafár ofviti, besta vinkonan skilningsrík og Steinar Baldvin smart en jafnframt sérstakur ungur maður sem Heiðrún heillast af.

Samtöl Steinars Baldvins, Heiðrúnar og samstarfsmanna þeirra í bæjarvinnunni eru mörg hver vel skrifuð, þótt þau jaðri einstaka sinnum við að vera ótrúverðug. Þau lýsa veruleika netkynslóðarinnar,  sem eyðir stórum hluta lífs síns fyrir framan tölvuskjá og að lifir svo að segja á internetinu. Hin ofurjákvæða kynslóð sem óttast ekkert meira en leiðindi, eða eins og Steinar Baldvin segir:

Við vorum alin upp til þess að vera ofurjákvæð og með óeðlilega mikið sjálfstraust, okkur var fullkomlega skýlt frá dekkri hliðum tilverunnar. Þess vegna eigum við mjög erfitt með að takast á við mótlæti, við erum bara vön því að takast á við heiminn með því að læka hann. Allt snýst um það sem við fílum, öðru er ýtt til hliðar. (71)

Aðspurður um hvernig áhrif þessa uppeldis birtast svarar Steinar Baldvin:

Til dæmis í hatri og afneitun á öllu sem er leiðinlegt eða ljótt. Geturðu bent mér á einhvern okkar aldri sem þykir kúl og hefur áhuga á pólitík? Hversu marga þekkirðu sem neita að lesa dagblöð vegna þess að fréttir eru leiðinlegar og neikvæðar? „Djamm er snilld“, „Ég vil bara njóta lífsins“, „Ég vil bara upplifa eitthvað fallegt“, þú hefur heyrt þessa frasa – þetta eru hashtög lífs okkar. Hvaða hugmyndafræði endurspegla þau? Við viljum að heimurinn sé barnaefni á Stöð 2 þar sem allt er fallegt, einlægt og jákvætt. (72)

Drón er margt og mikið og Halldór hefur mikið að segja. Hann er flinkur penni og hugmyndaríkur, skapar skemmtilegar persónur og er afar fær að lýsa hinum venjulegustu hlutum á ferskan hátt, myndmál er hnyttið og bókin er oft bráðfyndin. Og þótt sum skotin geigi hitta þau flest í mark. Íslenskir höfundar hafa gert merkilega lítið af því að takast á við hinn stafræna nútíma, en nú hefur netkynslóðin eignast sinn fulltrúa í íslenskum bókmenntum, höfund sem fjallar um sína kynslóð og talar til hennar. Og því ber að fagna.

Ingvi Þór Sæmundsson, desember 2014