Bróðir

bróðir
Ár: 
2020
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Fallega ofinn harmleiksvefur

Íslendingar flykkjast þyrstir út í sólskinið af flugstöðinni í Frakklandi með blik í augum sem minnir einna helst á fólk sem hefur lifað af langvarandi styrjöld. Áhyggjur af skuldum, fjölskyldu, vinnu og verðtryggingu verða eftir norður í Atlantshafi og ekkert kemst að annað en tær lífsgleði. Árið er 2016 og Ísland er að fara keppa í sögulegum leik við Englendinga á EM í fótbolta. Skarphéðinn Skorri hefur boðið vini sínum á leikinn en þeir hafa verið í litlu sem engu sambandi síðustu árin, allt frá því að þeir náðu að drösla hvor öðrum í gegnum lögfræðina í HÍ. Draumkenndur blær er yfir alsælunni sem umlykur vinina tvo meðan þeir súpa bjór úti í blíðri eftirmiðdagssólinni. Þrátt fyrir friðsæla mynd á yfirborðinu kraumar eitthvað óþægilegt undir niðri. Í sigurvímunni um nóttina skiljast þeir að og Skorri sést ekki aftur fyrr en rétt fyrir flugið heim daginn eftir. Hann er þungur á brún og nefnir ekki hvað átti sér stað um nóttina.

Þannig hefst fjórða bók Halldórs Armand, Bróðir, en áður hafa komið út eftir hann Vince Vaughn í skýjunum (2013), Drón (2014) og Aftur og aftur (2017). Eftir inngangskaflann úti í Frakklandi hefst fyrsti hluti, þar sem sjónarhornið skiptist yfir til Hönnu Sunnudóttur þar sem hún segir frá því hvernig hún kynntist Skorra sumarið 2016, eftir útlandaferðina. Hanna hefur lengi borið þann draum í brjósti að verða rithöfundur og heldur til Borgarness til að gera atlögu að sinni fyrstu bók. Hanna kemur fyrst auga á Skorra að selja heimaræktað grænmeti á markaði í bænum. Hanna þekkti lítillega til Skorra og systur hans, Hrafntinnu Helenu, en hún var nokkrum árum á eftir henni í menntó. Hanna var aldrei náin Hrafntinnu en var gjörsamlega hugfangin af henni á menntaskólaárunum og fylgdist með henni og Skorra úr fjarlægð. Hanna hafði séð hvorugt þeirra í mörg ár, allt frá því að Hrafntinna lét sig hverfa úr skólanum rétt fyrir útskrift. Skorri segir Hönnu að Hrafntinna búi núna úti í Berlín og trúir henni fyrir því að hann hafi ekki talað við systur sína árum saman.

Eftir því sem Hanna og Skorri kynnast betur kemur betur í ljós hvernig ungur hugsjónamaður eins og hann leiddist frá því að búa til mikilsmetna hlaðvarpsþætti um endurlausn og að gegna aðjúnktsstöðu við lagadeild Háskóla Íslands, yfir í að missa frá sér náið systkinasamband og opna blómabúð og rækta grænmeti á Hvanneyri. En í gegnum frásögn hans má greina að eitthvað meira býr að baki því sem hefur hent Skorra og fjölskyldu hans. Hann ákveður loks að hleypa Hönnu inn í líf sitt til að veita henni innblástur fyrir skrif hennar og afhjúpa leyndarmálin um hvað gerðist í raun og veru milli þeirra systkina.

Maður á rangri hillu í lífinu, maður sem þráði andstæða hluti samtímis, eldhugi sem lenti upp á kant við fólk, draumur um blómabúð, jú, þetta var allt saman satt og rétt, en þessi atburðarás varð ekki til úr engu. Af hverju hafði hann skyndilega tekið upp á því — þegar allt gekk vel í lífi hans — að ögra fólki viljandi í starfi sínu og eiginlega láta reka sig? Gerðist það bara upp úr þurru? Auðvitað ekki. Hvaðan kom þessi sjálfseyðingarhvöt? Hvaðan komu þessar þagnir og þessir leyndardómar? Svarið var systir hans. Friðleysi hjartans tengdist henni. Ástæða þess að hann gat ekki leyft sjálfum sér að líða vel var hún. Hann hafði verið á barmi taugaáfalls í höfuðborginni hennar vegna, hann var að tærast upp að innan hennar vegna, það var hún sem hann þagði um og það útskýrði ringulreiðina. (53)

Seinni hlutar verksins verða þannig blanda af samtímasögu Hönnu og Skorra á Borgnesi ásamt frásögn Hönnu af fortíð Skorra, Hrafntinnu og fjölskyldu þeirra. Ekki er þó allt sem sýnist og sagan tekur þónokkrar óvæntar stefnur áður en lesandinn kemst á leiðaranda. Halldór Armand er duglegur að ýta undir forvitni lesandans allt frá upphafi verksins og stráir oft óljósum fullyrðingum um hvað koma skal. Þetta birtist í litlum innskotum eins og þegar Hanna segir frá atburðum en um leið hvernig hún hafi mistúlkað þá áður enn hún komst að sannleikanum um harminn sem skyggði á samband systkinanna. Þessir frásagnaleikir eru skemmtilegt krydd sem halda í lesandann allt fram að sögulokum. Bróðir verður þannig að ákveðnu leyti spennusaga en þrátt fyrir að fléttan sé vel framkvæmd og grípandi, þýðir það ekki að stíll og leikni textans fái ekki að njóta sín.

Prósi Halldórs er tilfinningaríkur og ristir djúpt þar sem hann gefur sér mikið rými til að grennslast fyrir í hugarheimi persónanna. Bróðir kafar ofan í dýpstu kima sektarkenndar og harms sem gefur textanum stundum háfleygan blæ. Löngum ljóðum bregður fyrir á ögurstundum innan verksins sem myndar áhugavert mótvægi við spennusagnaeinkenni bókarinnar. Aðdáendur pistla Halldórs á Rás 1 þurfa þó ekki að óttast að fá ekki eitthvað fyrir sinn snúð því analýtískri hlið hans bregður einnig fyrir í verkinu. Þetta á líka við aðdáendur fyrri verka hans en mikið var fjallað um samtímarýni Halldórs í tenglsum við síðustu skáldsögu hans, Aftur og aftur, þar sem samband okkar við snjalltæki var tekið fyrir. Hugleiðingar um ýmis málefni koma fyrir í Bróður, eins og heimspekina á bakvið endurlausn, andóf, norræn forréttindi, flóttamenn, myntkörfulán, jaðarsetningu og réttlæti.

Halldór er mjög flinkur í samfélagsrýni en á köflum getur rödd hans og Skorra — réttsýna hugsjónarmannsins sem fræðir okkur hin sem erum minna upplýst — slegið óþarflega mikið saman. Ungi og snjalli karlmaðurinn sem ,sér í gegnum’ vitleysu kerfisins er vandmeðfarin klisja og fer aðeins út af sporinu í eina ,millikafla’ verksins sem ber heitið „Stutt innskotshugleiðing um efnahagshrun efri millistéttar og þetta reddast-hugmyndafræði.“ Auk þess að vera eiginlegt stílbrot innan verksins, er kaflinn heldur predikunarlegur án þess að boða nýjan boðskap eða að bjóða upp á ferskt sjónarhorn á áhrif hrunsins á líf fólks. En þrátt fyrir að persónueinkenni Skorra geti verið þreytandi tekst Halldóri að láta sterkar hugsjónir hans hafa dýpri skírskotanir en þær bera með sér í fyrstu í gífurlega vel heppnuðum lokakafla.

Erfitt er að fjalla ítarlega um lok verks án þess að spilla því fyrir væntanlegum lesendum en síðasta kafla bókarinnar tekst svo vel upp í að binda saman ólíka þræði sögunnar saman á listilegan hátt að það verður ekki hjá því komist að taka hann fyrir. Allt sem á undan hefur gengið tekur á sig nýja mynd er heildarsagan smellur saman og skilur lesandann eftir með djúpstæðari skilning á persónum bókarinnar og gjörðum þeirra. En lokakaflinn er ekki aðeins dæmi um listilega lausn sögufléttu, heldur nær Halldór líka sýna sínar bestu stílhliðar í kaflanum. Hann fikrar sig fjær heimsádeilunni og dregur fram stemninguna með mikilli næmni og gerir læviblandið andrúmsloftið sem liggur yfir persónunum og lífi þeirra áþreifanlegt.

Halldór Armand hefur ávallt birst mér rithöfundur sem þorir, einhver sem ætlar sér að takast á við samtímann og draga íslenska skáldsagnaformið með sér inn í framíðina sama hvað það kostar. Hvort sem það er að blanda saman drónaárásum og tíðaverkjum fótboltastelpu (Drón) eða kafa ofan í samband okkar við snjalltæki eins og í Aftur og aftur. Fyrri verk hans hafa einkennst af miklum krafti en í Bróður fá lesendur að kynnast þeirri næmni sem hann býr yfir sem rithöfundur og Halldór sannar að hann getur spunnið fallegan vef úr harmleik og brothættu tilfinningalífi persóna sem og að brjótast áfram með offorsi.
 

Már Másson Maack, desember 2020