Akam, ég og Annika

akam, ég og annika
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Réttlæti, skömm og skepnuskapur annarra

Akam, ég og Annika er fyrsta skáldsaga Þórunnar Rakelar Gylfadóttur. Bókin er skrifuð fyrir unglinga en á svo sannarlega erindi við breiðari aldurshóp. Sagan er heillandi, rík af sterkri persónusköpun og talar sterkt inn í þjóðfélagsumræðu samtímans. Þórunn starfar sem kennari í Hagaskóla og það er auðséð á skrifum hennar að hún lætur sig ýmis málefni varða sem snerta þennan aldurshóp sem er virðingarvert.

Sagan fjallar um Hrafnhildi sem flytur til Þýskalands með móður sinni, stjúpföður og litlu hálfsystrum sínum. Hrafnhildur er ekki ánægð með flutningana og finnst erfitt að fara frá Íslandi. Samband Hrafnhildar við móður sína er stirt og í raun verða þær manneskjur sem hafa reynst henni best eftir á Íslandi, faðir hennar, móðuramma og Linda besta vinkona hennar. Bæði amma og pabbi Hrafnhildar hafa skoðanir á hlutum sem skipta þau máli, berjast fyrir náttúruvernd og láta skoðanir sínar í ljós. Hrafnhildur hefur einnig verið undir verndarvæng Lindu sem lætur engan vaða yfir sig. Þegar tengsl hennar við þessar persónur eru orðin ljós verður einmannaleiki hennar í nýju landi enn meira áberandi. 

Þegar Hrafnhildur er kynnt til sögunar lýsir hún sjálfri sér á þessa vegu:

Ég skara ekki fram úr í einu né neinu. Að allir séu góðir í einhverju á hreinlega ekki við í mínu tilfelli. Ekki þar með sagt að ég sé eitthvað vonlaus manneskja en stundum finnst mér ég eins ömurlega venjuleg og hægt er að hugsa sér. (7-8)

Auðvitað á eftir að koma í ljós að það er meira spunnið í Hrafnhildi en hún vill sjálf meina. En sagan er fyrst og fremst þroskasaga hennar þar sem höfundi tekst vel að koma togstreitunni sem á sér stað innra með Hrafnhildi til skila. Við sem höfum gengið í gegnum unglingsárin munum það hvernig stöðugur sjálfsefi og ótti við hvað öðrum finnst hefur áhrif á hvernig við bregðumst við þeim flóknu aðstæðum sem fylgja því að vaxa úr grasi.

Persóna Hrafnhildar er marglaga og það er einmitt þess vegna sem sagan er jafn vel heppnuð og raun ber vitni. Eftir því sem líður á söguna og Hrafnhildur fótar sig í nýrri tilveru í öðru landi verða lesendur varir við að það veganesti sem hún fékk frá fólkinu sínu heima verður til þess að hún tekur af skarið og reynir sjálf að hafa áhrif.

Þar hefur breyting á umhverfi hennar mikil áhrif. Í fyrstu upplifir Hrafnhildur sig eina í þýska skólanum, bæði vinalausa og mállausa. Fljótlega kynnist hún þó Anniku, pönkaralegri stelpu með mörg göt í eyrunum. Þó Annika virðist vera hörkutól reynist hún Hrafnhildi vel og fljótlega kemur í ljós að Hrafnhildur er ekki síður sterkari en hún. Þýska skólakerfið er strangara en það íslenska og kennararnir gera miklar kröfur, en þegar allt kemur til alls er það afslappaðasti kennarinn, Heinz-Otto, sem kennir Hrafnhildi mikilvægustu lexíuna. Hjá honum lærir Hrafnhildur um réttlæti og fer að velta fyrir sér áhrifum þöggunar og skammar sem halda fórnarlömbum frá því að leita réttar síns.

Þessar vangaveltur hafa áhrif á það hvernig Hrafnhildur bregst við þegar Linda vinkona hennar treystir henni fyrir því að fyrrverandi kærastinn hennar hafi sett nektarmyndir af henni í dreifingu og Hrafnhildur kemur vinkonu sinni til varnar.

Skyldu þeir sem beita óréttlæti reiða sig á að skömmin þaggi niður í fórnarlömbunum og þau láti þar með málið falla niður frekar en að berjast fyrir sannleikanum? Gæti það verið að Linda, þessi viljasterka og réttsýna stelpa, vildi forðast skömmina og fórnaði þess vegna sannleikanum? (171)

Það sem höfundi tekst svo vel í sögunni er að tjá innri samræður Hrafnhildar við sjálfa sig þar sem hún reynir að feta sig áfram í þessum flóknu aðstæðum.

Síðan er það þriðja titilpersóna sögunnar, Akam, sem er kúrdískur flóttamaður sem Hrafnhildur kynnist í skólanum. Í samskiptum sínum við Akam áttar Hrafnhildur sig fljótlega á sínum eigin forréttindum.

-Kannski af því að við verðum aldrei alveg þýsk, ekki svona þýsk-þýsk. Við verðum alltaf flóttafólk hér. Eða það held ég. Alltaf innflytjendur.
-Verð ég það ekki líka?
-Nei.
-Afhverju ekki?
-Þú ert frá landi sem fólk vill fara til, ég er frá landi sem fólk vill fara frá. Þú ert ekki frá landi sem fólk vill forðast og vill helst ekki vita að sé til.  (144-145)

Hrafnhildur kemst fljótt að því að hann er í vandræðum en kýs í fyrstu að líta í aðra átt. Henni finnst hún eiga nóg með sín vandamál en aftur eru það orð Heinz-Otto „Stundum verða aðrir að rísa upp til varnar þeim sem bera skömm eða er jafnvel hótað“, sem sækja á Hrafnhildi og hún getur ekki setið hjá og ekkert aðhafst.

Með því að staðsetja söguna í Þýskalandi og gera aðalpersónuna utanaðkomandi nær höfundur að koma því á framfæri hvað við manneskjurnar erum oft samdauna umhverfi okkar og hjálpum þar af leiðandi ekki fólki sem er utanveltu í samfélaginu, vegna þess að það er einfaldara að líta bara í hina áttina. Í ljós kemur að Annika veit af vandræðum Akams en það er ekki fyrr en Hrafnhildur hefur skorist í leikinn að hún stígur einnig inn í aðstæðurnar og hjálpar til. Þroski Hrafnhildar í sögunni er mikill og styrkur hennar reynist meiri en hana hefði órað fyrir. Í  lok sögunnar er hún umvafin fjölskyldu og vinum en hún hefur bæði myndað tengsl við nýja vini og styrkt tengslin við móður sína og stjúpföður. Hún er svo sannarlega ekki ömurlega venjuleg!

Akam, ég og Annika er bók sem flestir hefðu gott (og gaman) af að lesa, textinn er áreynslulaus og persónurnar trúverðugar. Þórunni tekst að fjalla um aðkallandi málefni í reynsluheimi ungs fólks án þess að vera með einhvers konar predikunartón þeirra sem eldri eru. Að skrifa bækur fyrir unglinga er vanþakklátt starf því að á meðan margar barnabækur verða sígildar og eru lesnar kynslóð eftir kynslóð á slíkt hið sama ekki við um margar unglingabækur. Hér er svo sannarlega á ferð saga sem ég vona að fái lifa áfram með lesendum ungum sem eldri. 
 

Kristín Lilja, desember 2021