Áhrif mín á mannkynssöguna

Höfundur umfjöllunar: 

Áhrif útgefanda á bókaútgáfu

Ég finn mig knúna til að byrja þessa umfjöllun á því að rifja upp dálítið fjaðrafok sem varð í kringum jólabókaflóðið í fyrra, og fór fram á vefritinu Kistan.is, en þar rauk kappsfullur rithöfundur upp til handa og fóta og ávítaði mjög kvenmannsbelg nokkurn, sem hann áleit hafa vegið að sér. Stúlkan hafði reyndar ekki á beinan hátt veist að manninum, heldur lá vandinn í því að með – þá enn óútkominni skáldsögu sinni – þótti rithöfundinum sem væntanleg útgáfa þessi væri á einhvern hátt lítilsvirðing við, ja nú man ég bara ekki alveg, íslenskar bókmenntir? bókmenntir almennt? en allavega ýmsa ónefnda höfunda sem ekki fengju bækur sínar útgefnar hjá forlögum, þrátt fyrir að vera fullkomlega boðlegir.

En hér er ég auðvitað að tala um skrif smásagnahöfundarins Ágústs Borgþórs Sverrissonar um skáldsögu Elísabetar Ólafsdóttur, Vaknað í Brussel. Það kom síðan í hlut útgefanda Elísabetar, Kristjáns B. Jónassonar, útgáfustjóra Forlagsins, að svara Ágústi og gerði hann það með sínum vanalegu langrullum sem reyna mjög á þolinmæðina, en eru yfirleitt þess virði að brjótast í gegnum. Í þessari ádrepu Ágústs var nefnilega meðal annars fjallað um útgáfustefnu Forlagsins, þarsem útgáfustjórinn er virkur aðili sem er í leit að ákveðnum bókum, eða kannski ákveðinni tegund bóka, og fær til liðs við sig óþekkta og óreynda höfunda sem spreyta sig eftir línum sem eru að einhverju marki lagðar af útgefanda. Þrátt fyrir að Vaknað í Brussel væri einungis þriðja bókin af þessu tagi, var hér strax farið að tala um þessa útgáfu Forlagsins sem bókmenntaflokk, eða allavega tegund.

Nú vil ég strax taka það fram að ég er fylgjandi þessari stefnu Kristjáns, enda hafa komið út úr þessu krulli hans áhugaverð verk, fyrst skáldsagan Dís sem varð fræg fyrir að vera skrifuð af þremur ritmeyjum, og verður svo væntanlega enn frægari með kvikmyndinni sem nú er verið að gera eftir henni. "Bráðfyndin og vel heppnuð samtímasaga" voru orð mín í hnotskurn á sínum tíma og ég stend við það. Árið eftir birtist saga Magnúsar Guðmundssonar, Sigurvegarinn, sem var öllu beittari og bæði vel heppnuð og eftirminnileg: "Skemmtileg og snörp úttekt á íslensku nútímasamfélagi" sagði ég við það tækifæri. Síðan kom bók Elísabetar sem ég verð að játa að mér þótti mun lakari en hinar tvær, kannski helst vegna óþarfa einhæfni og, já, hún var bara of löng! Hinsvegar er því ekki að neita að þarna var á ferðinni mjög áhugaverð og mikilvæg tilraun með tungumál, en eins og frægt varð er bókin skrifuð í einskonar blogg-stíl (blogg er orð sem notað er yfir (oft nærgöngul og nákvæm, en aðallega hversdagsleg) dagbókaskrif á netinu). Niðurstaðan var kannski sú að þrátt fyrir að fólk geti lesið blogg í skammtatali á netinu, þá virkar það síður í heilli – langri – lest, þ.e. skáldsögu. En það breytir ekki því, og ég vil ítreka þetta, að tilraunin sem slík var markverð.

Nú virðist mér sem fjórða bókin í þessum Forlagsflokki sé komin í umferð, en líklega má flokka skáldsögu Guðmundar Steingrímssonar, Áhrif mín á mannkynssöguna, sem dæmi um útgáfustefnu Kristjáns. En nú ber svo við að ekki er feitan gölt að flá. Skáldsaga Guðmundar er, eins og fyrri bækurnar, samtímasaga af ungu fólki, nánar tiltekið ungum manni, sem starfar í London en er mestan part sögunnar á heimili foreldra sinna á Íslandi. Söguþráðurinn, eða plottið, gengur út á það að sögumaður, Jón, man ekki mikið frá kvöldskemmtun í London, kvöldið áður en hann flaug heim, en þar virðast mikilvægir atburðir hafa gerst. Meðal annars virðist hann hafa hitt íslenska stúlku, rauðhærða, sem á eftir að koma meira við sögu.

Inn í þetta blandast svo miklar vangaveltur um Jésú. Faðir Jóns var kallaður Jésú, bæði vegna útlits og köllunar, bróðir Jóns er að gera stuttmynd um Jésú, en hún er óttalegt klúður því það vantar á hana handrit og Jón veltir fyrir sér nýja testamentinu milli þess sem hann snýr sólarhringnum við í áframhaldandi eftirsókn eftir kvöldskemmtunum. Mér var engan veginn ljóst hvað þessar Jésúpælingar allar áttu að þýða og leiddist þær frekar, þó vissulega hafi þær verið kómískar á stundum. Á Jón að vera einskonar nútíma Jésú? Dáðlaus og ráðlaus í nútímasamfélagi? Allavega mætti álykta svo ef tekin er upp sú hefðbundna bókmenntalega (og reyndar líka kvikmyndalega) aðferð að skoða uppröðun atvika og samsetningu kafla, en á einum stað fylgja minningar um pönkaraár Jóns beint í kjölfar vangaveltna um að Jésú hafi í raun verið pönkari og að Nýja testamentið sé fullt af pönki. Mögulega, svo ég haldi áfram á þessari hálu braut, gæti þá 'plottið', óminnisatvikið sem mögulega breytti mannkynssögunni, verið hluti af þessari nýstárlegu Jésúmynd.

Hvernig sem því er farið er þetta allt eitthvað hálfvolgt og ekki mjög sannfærandi, það er einhvernveginn ekki tekið á einu né neinu, hvorki Jésú, rótleysi sögumanns né samtímanum, og líkt og mér leiddust fylleríis- og karlafarssögur Elísabetar í Brussel, leiddust mér fylleríis- og kvennafarssögur Jóns í London/Reykjavík. Sagan er almennt fremur liðlega skrifuð, þó ekki beri þar á miklum 'töktum', og alveg ágætlega skondin á köflum, en í heildina fannst mér eins og álíka hafi farið fyrir höfundi og bróður sögumannsins sem er að gera stuttmyndina.

Ég get ekki skilið við þessa umfjöllun án þess að velta aðeins fyrir mér nýjustu skrifum Kristjáns B. Jónasonar, í Lesbók Morgunblaðsins laugardaginn 8. nóvember. Eins og oft áður fer Kristján mikinn í skrifum sínum og hefði greinin að ósekju mátt fara í gegnum þýðingaforritið einu sinni enn, en það breytir ekki því að þar kennir margra grasa og að meginhugsunin, eins og ég skil hana, er ákaflega þörf ábending um stöðu og sjálfsmynd, eða bara ímynd, íslenskra bókmennta. Kristján bendir á þá gamalkunnu en oft gleymdu staðreynd að íslenskar bókmenntir séu, líkt og aðrar bókmenntir (og listir), hluti af borgaramenningunni, þær eru bundnar henni og sprottnar úr henni en eru jafnframt stöðugt að stæla við hana, því við ætlumst jú til að bókmenntir bjóði okkur upp á eitthvað nýtt, rof, eða sjónarhorn: „Bókmenntir geta frelsað okkur út úr miðstéttarheiminum og þær eiga að gera það. Við eigum að kynnast nýjum möguleikum mannsins fyrir tilstuðlan þeirra.“ Inn í þessa almennu umræðu um stöðu bókmenntanna ræðir Kristján svo ímynd íslenskra bókmennta út á við og tekur þar sérstaklega dæmi af skáldsögu Hallgríms Helgasonar, 101 Reykjavík, sem hann segir réttilega hafa mótað ímynd lands og þjóðar. Og þá er hann kominn út fyrir landsteinana, í umræður um útflutning á íslenskum bókmenntum og mikilvægi þess að þeim sé sköpuð ímynd eða sjálfsmynd, að við segjum sjálf söguna af okkar bókmenntum, og í þessu tilfelli tekur hann sérstaklega dæmi af yngstu kynslóð rithöfunda, sem hann álítur sterka, en skorta kraftmikla sjálfsmynd.

Allt er þetta rétt og gott hjá Kristjáni, en þarsem ég var nýbúin að lesa skáldsögu Guðmundar gat ég ekki annað en skoðað hana í samhengi þessara skrifa útgefandans. Vissulega ber bókin þess merki að geta verið partur af þessari ímyndasköpun, ungur tónlistamaður í hljómsveit sem nýtur mikilla vinsælda og þykir hipp og kúl og töff (og er afskaplega skemmtileg), virkur í pólitík og eins og Séð og heyrt myndi segja: einn af þeim sem setur svip sinn á bæjarlífið. Hinsvegar er ljóst að bókin getur ekki heyrt undir verk sem frelsa okkur út úr borgaraheiminum, þvert á móti, þá er þetta í raun og veru afskaplega borgarlegt verk, kannski eitt af þeim verkum ungu kynslóðarinnar sem „böðuðu sig up úr mótsögnum og fegurð miðstéttarinnar“ eins og Kristján kemst að orði um hluta af útgáfu síðasta árs. Ef svo á að vera, finnst mér þetta hálfgerður kattarþvottur.

En líklega er það ósanngjarnt af mér að skoða skáldsögu svona í ljósi orða útgefanda, en ég afsaka mig með því að vera með þessu að taka þátt í bókmenntaumræðunni á breiðum grundvelli og setja skáldsöguna jafnframt í menningarsögulegt samhengi.

Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2003