Æi nei Georg þó! Stórfenglegasta undrið, Íkorninn óttaslegni, Þegar ég verð stór

Æi nei Georg þó!
Höfundur: 
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Stórfenglegasta undrið
Höfundur: 
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Íkorninn óttaslegni
Höfundur: 
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Þegar ég verð stór
Ár: 
2021
Flokkur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Höfundur umfjöllunar: 

Stórar tilfinningar í litlum líkömum

Litlar manneskjur geta búið yfir stórum tilfinningum og fyrstu ár ævinnar læra þær að þekkja og bregðast við öllum tilfinningaskalanum sem fylgir tilverunni. Þeir sem eldri eru hjálpa börnunum að átta sig á tilfinningum sínum í gegnum leiki og samskipti. Börn læra ýmislegt á því að spegla sig í öðrum og þar koma bókmenntir sterkar inn en þær hafa ekki aðeins dásamleg áhrif á ímyndunarafl í litlum kollum : Bækur geta líka kennt þeim ýmislegt.

Bækurnar sem hér verða teknar til umfjöllunar eiga það allar sameiginlegt að aðalpersónurnar eru ýmist lítil börn eða dýr sem þurfa á ráða fram úr flóknum tilfinningum. Stúlkan í Stórfenglegasta undrinu og hundurinn Georg þurfa að takast á við hvatvísi og reyna að hemja sig til að hlutirnir gangi betur. Íkorninn óttaslegni þarf að sigrast á hræðslu og kvíða og Snær í Þegar ég verð stór lætur ímyndunaraflið reika og þó ótal hugmyndir um hvað framtíðin beri í skauti sér sæki á hann ákveður hann að njóta augnabliksins og þess að vera barn.

Hvatvísi

Nýlega kom út hjá Litla sæhestinum harðspjaldabókin Æi nei Georg þó! eftir Chris Haughton í þýðingu Maríu S. Gunnarsdóttur. Bók Haughton Hvar er mamma?, sem kom út árið 2019, þekkja eflaust mörg börn. Myndirnar eru einnig úr smiðju Haughton og bera sterk einkenni höfundarins – um leið og lesandinn sér kápu bókarinnar er eitthvað kunnuglegt og þar af leiðandi forvitnilegt að sjá. Litirnir eru mildir og teikningarnar líta í fyrstu út fyrir að vera klunnalegar þó þær séu í raun vel úthugsaðar og listilega gerðar.

Aðalpersónan er hundurinn Georg sem er skilinn eftir einn heima og lofar að vera þægur á meðan. Það reynist þó erfiðara en að segja það og þegar eigandinn hans kemur aftur heim er húsið í rúst. Georg skammast sín og biðst afsökunar og virðist hafa lært af öllum sínum mistökum þegar hann og eigandinn fara í göngutúr seinna um daginn og hann nær að hemja sig og vera mjög þægur. En er þetta svona einfalt? Í lok bókarinnar rekst Georg á nýja freistingu. Tekst honum að vera þægur? Þeirri spurningu þurfa börnin sjálf að velta fyrir sér.

Bókin er byggð upp í ákveðnum takti sem börnin læra að þekkja. Fyrst rekst Georg á eitthvað spennandi, hann reynir að vera þægur en honum tekst það ekki. Á síðunum þar sem Georg missir stjórn á sér stendur alltaf „Æi nei, Georg þó!“ Þessi uppbygging er sérstaklega sniðin að yngstu lesendunum sem kunna vel að meta endurtekningar og þær halda áhuga þeirra á meðan á lestrinum stendur.

Æi nei, Georg þó! er falleg og einföld saga fyrir börn á leikskólaldri, hún sýnir á hlýlegan hátt hvernig allir gera mistök og hvernig er hægt að biðjast afsökunar á þeim og læra af þeim. Skammastrikin sem Georg gerir eru fyndin og myndirnar skemmtilegar. Svo er Georg alveg hrikalega sætur með stóru augun sín skömmustulegur á svipinn.

Reiði og ótti

Oran er barnabókaútgáfa sem hefur það að markmiði að börn geti lært að vera meðvituð um eigin tilfinningar og að þau geti alist upp við að það sé sjálfsagt að tala um tilfinningar við foreldra og vini. Tvær nýlegar bækur frá Oran stuðla svo sannarlega að þessu markmiði en á afar ólíkan máta.

Sú fyrri, Stórfenglegasta undrið eftir Ashley Spires í þýðingu Hugrúnar Margrétar Óladóttur, segir frá stúlku sem fær hugmynd. Hún ætlar að skapa STÓRFENGLEGASTA UNDRIÐ! Undrið sér hún skírt og skilmerkilega í huga sér en það reynist henni erfitt þegar henni tekst ekki að gera hugmyndina að veruleika í fyrstu tilraun, né fjölmörgum tilraunum þar á eftir. Eftir mikla vinnusemi og áræðni missir hún tökin á tilfinningunum sem þessu fylgja og reiðist og áfellist sjálfa sig. En eftir að hafa fengið sér göngutúr breytist líðanin og reiðin hverfur úr huga hennar. Hún kemur að nýju að verkinu og sér það með öðrum augum og tekst að lokum að ljúka því sátt við sjálfa sig.

Sagan er fallega myndskreytt og stúlkunni til halds og trausts í gegnum allt ferlið er besti vinur hennar, sætur hundur sem hún ræður sem aðstoðarmann sinn í verkefninu. Sagan sýnir á skemmtilegan hátt hvernig hlutir geta reynst erfiðari í framkvæmd en í fyrstu var haldið og hversu eðlislægt það er manneskjum að fara í sjálfsniðurrif og neikvæðar hugsanir. En líka hvernig það getur verið gott að stíga aðeins til hliðar og reyna að fá nýtt sjónarhorn á vandamál sem manni þykir erfitt að leysa. Í lokin kemur einnig í ljós að þó að stúlkan hafi ekki haft not fyrir allar þær mismunandi útgáfur af undrinu sem hún bjó til í ferlinu er fullt af fólki til sem finnst þær snjallar og hyggst nýta sér þær.

Síðari bókin, Íkorninn óttaslegni eftir Mélanie Watt í þýðingu Þórdísar Bjarneyjar Hauksdóttur, fjallar eins og titillinn gefur til kynna um íkorna sem er svo hræddur við ýmsa hluti í umhverfinu að hann yfirgefur aldrei hnetutréð sitt. Íkorninn segist vera sáttur við þetta hlutskipti en viðurkennir þó að því fylgi ókostir að fara aldrei niður úr trénu eins og til dæmis að sjá aldrei neitt nýtt.

Íkorninn lifir lífi sínu eftir vandlega úthugsuðu plani, allir dagar eru alveg eins, hann gerir sömu hlutina á sama tíma dags og hann er vandlega undirbúinn ef eitthvað óvænt skyldi gerast. Sem svo auðvitað gerist því skyndilega flýgur býfluga í áttina að honum. Íkornanum bregður svo mikið að hann dettur úr trénu og missir  fallhlífina sína sem hann var alltaf með á sér til að vera við öllu búinn. Það kemur þó ekki að sök því það kemur í ljós að íkorninn óttaslegni er flugíkorni. Eftir að hafa hrapað í runna og legið þar í tvo klukkutíma og þóst vera dauður áttar íkorninn sig á því að ekkert af því sem hann óttast muni henda hann og hann klifrar aftur upp í tréð. Eftir þetta gerir íkorninn að eigin sögn stórvægilegar breytingar á lífi sínu, sem felast þó eingöngu í því að hann hoppar niður úr trénu og þykist vera dauður í sama runnanum á sama tíma á hverjum degi.

Íkorninn óttaslegni er saga um ótta og kvíða sett fram á fyndinn hátt. Hlutirnir sem íkorninn óttast eru hlutir sem mörg börn eru smeyk við en eru samt sjaldgæfir eins og hákarlar og tarantúlur eða jafnvel ekki til eins og grænar geimverur. Fyrirætlanir íkornans um hvað skuli gera í neyð verða líka fyndnar og yfirdrifnar og auðvitað kemur í ljós að þær voru óþarfar og í litlu samræmi við veruleikann. Þó að íkorninn þroskist við atburði sögunnar eru breytingarnar sem hann gerir á lífi sínu lítilvægilegar og hann er ennþá óttasleginn, þó það fari örlítið minna fyrir því en áður. Þetta sýnir okkur að leiðin til baka er hæggeng og tekin á hænufeti.

Draumar um framtíðina

Þegar ég verð stór eftir Láru Garðarsdóttur er saga um Snæ sem lætur hugann reika og ímyndar sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór. Textinn er í bundnu máli og flæðir hratt í gegnum frjóan huga Snæs þegar hann bregður sér í hin ýmsu hlutverk. Við upphaf sögunnar situr Snær á rúminu sínu og horfir út um gluggann ásamt kettinum sínum. Fyrir utan er hellidemba og þeir félagarnir eru hnuggnir og langar greinilega út að leika. Snær fer að velta því fyrir sér hvað hann ætlar að verða þegar hann verður stór og hann mátar sig við ýmislegt spennandi áður en hann kemst að niðurstöðu.

Enginn getur vitað hvað framtíðin ber í skauti sér...

MAMMA! ég ætla bara út að leika mér!!!

Þá er hætt að rigna og Snær þýtur út í góða veðrið. Hann þarf eflaust ekki að bíða lengi eftir því að gera allt sem hann hafði talið upp, hann getur nefnilega gert það allt í leiknum.

Bókin endar svo á spurningu til barnanna sem hlustuðu; Hvað ætlar þú að verða? Við það geta myndast ansi skemmtilegar samræður milli barnsins og þess sem les með allskonar hugmyndum. Þegar ég verð stór er skemmtileg saga en það er eitt sem hefði að mínu mati mátt betur fara. Í byrjun bókarinnar segist Snær ætla að gera eitthvað „svo frábrugðið að allir verða hissa“ en þegar allt kemur til alls eru hlutverkin sem hann mátar sig við ekki svo óvenjuleg. Þau eru í raun lituð af staðalímyndum þess sem samfélagið segir ungum drengjum að þá langi að gera. Snær vill verða lögga, slökkviliðsmaður, flugmaður eða stýra kafbáti og kljást við sjóræningja. Það hefði verið gaman að sjá Snæ bregða sér í óhefðbundnari hlutverk og sýna þar með ungum drengjum og stúlkum sem hlýða á söguna að þeim standi allar dyr opnar í framtíðinni.

Hinar ýmsu tilfinningar sem fylgja mannlegri tilveru geta oft og tíðum virst yfirþyrmandi og ekki síst fyrir minnstu manneskjurnar. Með því að fjalla opinskátt um tilfinningar geta barnabækur opnað á nýjan skilning og hjálpað börnum að þekkja tilfinningar sem þau þurfa að takast á við í daglegu lífi á sama tíma og þau njóta gæðastundar við lestur með foreldrum sínum eða öðrum fullorðnum. Bækurnar sem hér hafa verið teknar til umfjöllunar geta allar kveikt nýja neista í skilningi barna og hjálpað þeim að ná utan um tilfinningar sem við þurfum öll að kljást við.  Bækur eru svo dásamlegir speglar inn í tilveruna og opna nýjar víddir fyrir lesendur á öllum aldri.
 

Kristín Lilja, desember 2021