Að heiman

Að heiman eftir Arngunni Árnadóttur
Útgefandi: 
Höfundur umfjöllunar: 

Að vera þar eða hér

Unni verður hugsað til fólksins sem hún þekkir, hér og þar. Tár rennur niður vangann. Hún hefur lagt það í vana sinn að fella tár þegar hún er einsömul í flugvél. Ekki endilega af því að hún er heltekin af sorg, þó hún hafi kannski einhvern tíma verið það, heldur er það eins og fastur liður í athöfn. Tár fyrir fólkið sem hún kvaddi. Fólkið sem bíður heima í tryggð. Fólkið sem hún náði ekki að kveðja. Allt sem ekki varð og allt sem ekki hélt henni fastri, hvorki þar né hér.

Nú er hún hvorki þar né hér. Hvergi. Hún pírir augun mót rauðri kvöldsólinni og veit varla hvort skiptir meira máli, að vera þar eða hér. Hún gæti jafnvel orðið eftir hérna á milli. Sest hérna að.

(Að heiman, bls. 6)

Tilfinningin að tilheyra ekki neinum ákveðnum stað og óvissan um eigin stöðu í heiminum er leiðarstefið í Að heiman (2016). Bókin er fyrsta skáldsaga Arngunnar Árnadóttur, en áður hefur hún gefið frá sér ljóðabókina Unglingar (2013). Ljóðaskrif Arngunnar skína bersýnilega í gegn í Að heiman, stíllinn er vandaður og lesandinn fær þá tilfinningu að hvert einasta orð sé vandlega valið og óútskiptanlegt án þess að gjörbreyta textanum. Bókin skiptist í rúmlega þrjátíu knappa kafla og suma mætti allt eins lesa sem örsögur eða prósaljóð. Að heiman segir frá Unni, tuttuguogþriggja ára gömlum háskólanema í sagnfræði, sem snýr aftur heim til Íslands eftir að hafa verið í skiptinámi í Berlín. Eftir dvölina úti í hinum stóra heimi virðist Ísland þrengja að Unni og hún á erfitt með að fóta sig í tilverunni. Unnur er í millibilsástandi þegar hún snýr aftur heim og hefur ekki gert upp við sig hvað hún vill fá út úr lífinu né hvar hún vill vera. Að snúa aftur heim til Íslands er í raun ekki hennar ákvörðun eða löngun heldur einungis rökrétt framhald eftir skiptinám. Fyrst fer maður að heiman og svo snýr maður aftur heim, þannig er gangur lífsins. En ekkert í lífinu er klippt og skorið og Unnur á erfitt með að vera neydd aftur í sama gamla farið.

Unnur er í senn heima og að heiman. Allt er nákvæmlega eins og hún skyldi við það áður en hún hélt út til Berlínar en þéttriðið tengslnetið á Íslandi reynist þrúgandi í samanburði við frelsið sem fólst í einsemdinni erlendis. Í einverunni felast tækifæri til að móta og skilgreina sjálfan sig upp á eigin spýtur. Unni fannst hún geta verið hún sjálf úti í Berlín en á Íslandi rekur hún sig stöðugt á öll þau mismunandi hlutverk sem hún gegnir í samskiptum við aðrar manneskjur. Þetta birtist skírt í stuttri Bónusferð Unnar með móður sinni þar sem hún rekst á tvær fyrrverandi tengdamæður og stuttu síðar hittir hún kviðmágkonu sína. Ímynd okkar og persónuleika er stöðugt þröngvað í mismunandi mót út frá tengslum okkar við annað fólk. Það er samt sem áður ekki hægt að smætta tilfinningar Unnar niður í vanþóknun á Íslandi, það er líka mikil huggun fólgin í hinu kunnuglega. Fljótlega eftir komuna heim hittir Unnur óvænt Láru, vinkonu sína úr grunnskóla. Þær ákveða að ferðast um landið ásamt Sveini vini Láru. Sagan skiptist á milli ferðalagsins annars vegar og hins vegar minninga Unnar frá Berlín af ástarsambandi sem aldrei varð, sífellt flöktandi milli heima og að heiman. Kunnugleg nærvera Láru úr æsku virðist vera einmitt það sem Unnur þarfnast eftir dramað í Berlín og til að taka Ísland aftur í sátt.

Arngunni tekst einstaklega vel til við að draga saman litlu hlutina í umhverfi okkar sem skapa stemningu og móta upplifun okkar af atburðum. Værð ríkir á yfirborði sögunnar og söguþráðurinn kann að líta út fyrir að vera einfaldur, en í textanum er sterk undiralda. Arngunnur hikar ekki við að staldra í núinu og gefur lítið fyrir stöðuga kröfu um framvindu:

Þau finna grasblett við ána skammt frá bensínstöðinni og setjast niður. Það rýkur úr kolsvörtu kaffinu og þau súpa það af nautn. Mmm, umlar Sveinn. Lára leggst á hliðina og styður við höfuðið með hendinni. Hún dregur súkkulaðipakka upp úr vasanum, brýtur nokkra bita og réttir félögum sínum. Allt í einu brýst sólin út úr skýjaþykkninu. Unnur snýr andlitinu þakklát að sólinni með lokuð augu. Niðurinn í ánni ómar um svæðið sem og tístið í fuglunum sem um þessar mundir eru sífellt að sýsla kringum egg og unga. <

Unnur leggst á hliðina og tyllir kaffibollanum í grasið. Hún leggur andlitið að grasinu og andar að sér ilminum. Í grasinu eru bara örfáar fiskiflugur á ferli, engin ofgnótt af lífi að ónáða hana. Grasið er mjúkt og stingur ekki, heldur strýkst blíðlega við húðina. Jarðvegurinn er mjúkur og ilmandi.

Hún finnur eitthvað svo sterkt. Henni finnst jörðin undir henni vera elskuleg og umfaðmandi. Henni finnst hún vera gerð úr sama efni og jarðvegurinn. Hana langar að sameinast landinu. Hún finnur að hún tárast og flýtir sér að grúfa sig betur ofan í grasið til að ferðafélagar hennar sjái ekki viðkvæmnina í henni.

(Að heiman, bls. 105-6)

Viðkvæmni Unnar orsakast af næmni hennar á umhverfi sitt og það hulda í tilverunni. Lykt er áberandi hluti af upplifun hennar og minningum í gegnum söguna,  sem á afar vel við þar sem lykt er óáþreifanlegt og ósýnilegt fyrirbæri sem vekur engu að síðar gífurlega sterk viðbrögð. Hún er á vissan hátt táknræn fyrir hið ósýnilega í tilverunni –  það sem streitist á móti tilraunum okkar til að skilgreina. Texti Arngunnar gerir slíkt hið sama og er sífellt svamlandi í kringum hið óskilgreinanlega, tilfinninguna sem felst í því að vera heima eða að heiman sem við öll þekkjum en eigum í erfiðleikum með að koma í orð.

Eins og áður kom fram er mikil værð yfir bók Arngunnar en um leið er verið að takast á við djúpstæðar tilfinningar og upplifanir. Að heiman er fallega skrifuð og hreyfir við manni á hversdagslegan máta – ekki á léttvægan hátt heldur í þeim skilningi að hún dregur fram margar af þeim litlu hugsunum og atburðum sem fólk tekst á við í dagsins amstri. Hún tekst meðvitað á við hið ómeðvitaða. Ásamt þessu er stiklað á stærri spurningum um eigin sjálfsmynd og stöðu kynjanna og öllu hrært saman í merkingarþrungið logn, fallega stillu með ógreinanlegu roki tilfinninga.

Már Másson Maack, nóvember 2016