Sumardagur bókarinnar
Í ár ber sumardaginn fyrsta upp á alþjóðlegan dag bókarinnar, 23. apríl. Af þessu tilefni og til að lyfta anda okkar allra, sem veitir svo sannarlega ekki af þessa fyrstu mánuði ársins 2020, færir Bókmenntaborgin lesendum á öllum aldri sumarkveðju í formi ljóðs sem Þórarinn Eldjárn orti fyrir okkur í tilefni dagsins og Sigrún Eldjárn teiknaði mynd við.
Ljóðið heitir Sumardagur bókarinnar og auk þess að birta það og mynd Sigrúnar hér á vefnum okkar er það líka að finna á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar í formi rafræns póstkorts sem fólk getur sent áfram að vild til fjölskyldu og vina. Einnig má hlusta á upplestur Þuríðar Blævar Jóhannsdóttur leikkonu á ljóðinu hér á vefnum okkar.
Gleðilegt sumar og gleðilegan dag bókarinnar!

Mynd: Sigrún Eldjárn, vor 2020
Sumardagur bókarinnar
Sælt er að lifa sumardaginn fyrsta
við sæinn ysta og nyrsta.
Með bók í hönd við höldum út í vorið,
hugurinn greikkar sporið,
þíðan eflir þorið.
Hugurinn stefnir ofar, innar,
út á við um leið.
Sól og lestur saman tvinnar
sumardagur bókarinnar,
gatan verður greið.
Þórarinn Eldjárn, vor 2020