Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð

Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð

Framhaldssaga í fimm lestrum hlaðvarpi með Ævari Þór Benediktssyni

Í ár bar sumardaginn fyrsta upp á dag bókarinnar, fimmtudaginn 23. apríl. 

Af því tilefni bjóða Bókmenntaborgin og Sleipnir, lestrarfélagin okkar allra, krökkum og fjölskyldum upp á sögustundir í hlaðvarpi með Ævari Þór Benediktssyni þar sem hann les sögu sína Sleipnir og stórhættulega fjölskyldutréð. Ævar skrifaði söguna fyrir Bókmenntaborgina árið 2018 og við gáfum hana út á bók með myndum eftir Gunnar Karlsson. Bókin hefur hingað til aðeins verið aðgengileg í grunnskólum og við vonum að þið njótið þessarar sumargjafar Bókmenntaborginnar sem hentar lesendum frá yngsta stigi grunnskóla og uppúr.

Lesturinn hófst á degi bókarinnar og sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl og Ævar hélt svo lestrinum áfram næstu fjóra daga. Nú er sagan öll aðgengileg í spilurunum hér fyrir ofan.

Lesturinn er einnig sendur út á Hlaðvarpi Borgarbókasafnsins, sem hægt er að finna á iTunes, Spotify og öðrum helstu hlaðvarpsveitum.

Um Sleipni og stórhættulega fjölskyldutréð

Velkomin til Ásgarðs! Hér búa fræknar hetjur, goð, garpar og gyðjur. Og auðvitað Sleipnir. Sleipnir er öðruvísi en aðrir hestar og honum finnst það pínu leiðinlegt. Hann vill helst af öllu falla í hópinn og vera eins og hin hrossin, en þegar hestur er með átta fætur er það dálítið erfitt. 

Þegar Sleipnir kynnist Miðgarðsbarninu Emblu, sem er nýflutt í Ásgarð, breytist allt. Hún býður Sleipni með sér í ævintýraferð þar sem hann kemst að því að hann er ekki sá eini í fjölskyldunni sem er öðruvísi. Hann á þrjú systkini! Og ekki nóg með það; þau eru ölll hræðilegt skrímsli. 

Að sjálfsögðu vilja þau Embla rannsaka þetta stórhættulega fjölskyldutré betur. 

Þetta er saga um tvílita stelpu, ógnvekjandi orm og afar verðmæta hauskúpu. 

En hver er raunverulegur tilgangur ferðalagsins? Og hvað leynist í risastóra skálanum á bak við Valhöll?