Kvikmyndahandrit sem bókmenntir

Andið eðlilega e Ísold Uggadóttur


Kjartan Már Ómarsson, bókmennta- og kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri hjá Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, skrifar um orðlist og kvikmyndir í tilefni Vetrarhátíðar í Reykjavík, 4. - 7. febrúar 2021. Við bendum svo líka á hlaðvarpið Engar stjörnur (t.d. á Spotify) en í nýjasta þættinum, Ísbrjótar íslenskrar kvikmyndasögu, er viðtal við Gunnar Tómas Kristófersson þar sem hann ræðir m.a. um Önnu Ruth Hanson sem var fyrst kvenna til að gera kvikmynd hér á landi og og Svölu Hannesdóttur sem hann segir leikstjóra fyrstu íslensku listamyndarinnar. 

Orðlist íslenskra kvikmynda

Nú á Vetrarhátíð í Reykjavík gerir Bókmenntaborgin tilraun til þess að vekja athygli borgarbúa á orðlist íslenskra kvikmynda með því að varpa nokkru safni textabrota úr kvikmyndum á veggi í miðborginni, a.v. Héraðsdóm á Lækjartorgi og h.v. lögreglustöðina við Hlemm. Handritagerð fyrir kvikmyndir er ögn sérstakt bókmenntaform sem lítið hefur verið hugað að í íslensku samhengi en þegar tildrög þess eru gaumgæfð ber mann helst niður á þá staðreynd að listrænt gildi bókmennta – bókmenntaleiki þeirra – sé upp að marki ákvarðað af því með hvaða augum bókmenntastofnanir, útgáfur, bóksalar, gagnrýnendur og aðrir umboðsmenn þekkingarinnar, líta þær. Mann grunar helst að kvikmyndahandritun standi niður í saltri fjöru og horfi upp eftir hæðum fjalls hins bókmenntalega stigveldis á Íslandi.

Sú spurning kann að vakna hvað sé átt við þegar rætt er um bókmenntaleg stigveldi. Svo dæmi sé nefnt má benda á að undir ákveðnum kringumstæðum njóti ljóð meiri listrænni viðurkenningar en prósatexti – og ákveðin gerð ljóða skori hærra en önnur. Þá væri hægt að nefna að raunsæjar fagurbókmenntir njóti óneitanlega meiri virðingar í hefðarveldi bókmenntanna en skvísubókmenntir þótt færa mætti rök fyrir því að orðlist þeirra síðarnefndu geti staðist hinum fyrri fullan samanburð, og séu í einhverjum tilfellum töluvert skemmtilegri. Gæði og gaman fara ekki alltaf saman.

Út frá þessum forsendum væri hægt að leggja fram menntaða tilgátu um listræna stöðu kvikmyndahandrita án þess að teygja sig í efri hillurnar. Það kemur því mögulega á óvart að bókaútgáfa kvikmyndahandrita er í örum vexti á enskumælandi/-lesandi bókamarkaði og ,handritabækur‘ veiti í sumum tilfellum þeim bókum sem þær byggja á samkeppni á sölulistum. Má þar nefna Trainspotting, bók skoska rithöfundarins Irvine Welsh – sem er oft ranglega talinn velskur sökum föðurnafnsins – um vímuefnanotendur í Edinborg. Welsh skrifaði bók sem var löguð að hvíta tjaldinu af landa hans John Hodge, og það handrit var útgefið á bókarformi, sem selst álíka vel og bók Welsh. Þá eru slíkar vendingar hreint ekkert einsdæmi, né nýjar af nálinni. Til að mynda má minnast þess þegar Christoper Wood og Richard Maibum skrifuðu handrit að The Spy Who Loved Me (1977) upp úr samnefndri bók Ian Flemming sem kom út fimmtán árum fyrr og sneru því handriti svo upp í sjálfstæða bók sem var til aðgreiningar titluð James Bond, The Spy Who Loved Me. Sú bók kom í verslanir sama ár og kvikmyndin fór á hvíta tjaldið og breytti það engu að bók Flemming væri enn í prentun. Kvikmyndir þurfa þá ekki að hafa hlotið stöðu sígilds listaverks eða menningarminja svo handrit þeirra rati í bókarform og eru jafnvel handrit nýlegri kvikmynda á borð við kynþáttarhrollvekjuna Get Out (2017) bundin í bók.

Rannsóknir á útgáfu kvikmyndahandrita í íslensku samhengi eru blátt áfram átakslitlar. Af vegsummerkjum að dæma lítur út fyrir að þrjú íslensk kvikmyndahandrit hafi ratað úr ræmum og í band. Fyrir rétt rúmum þrjátíu árum komu út handritin að Magnúsi eftir Þráinn Bertelsson og Foxtrot eftir Sveinbjörn I. Baldvinsson. Að þeim töldum var gefin út bók eftir tæpra þriggja klukkustunda sjónvarpsútgáfu Brekkukotsannáls sem sýnd var í Ríkissjónvarpinu árið 1973.

Kvikmyndahandrit voru lengi vel ekki talin tilheyra bókmenntum og þóttu þeir höfundur sem lögðu leið sína í draumaverksmiðjurnar vestanhafs – Faulkner, Steinbeck, Fitzgerald o.fl. – hafa svikið lit og hafa tekið rækilega niðurfyrir sig, þrátt fyrir að nýlegar rannsóknir haldi því fram að skrif sumra þeirra hafi notið góðs af verunni í Hollywood. Okkar maður úr Mosfellsdal reyndi jafnvel fyrir sér í handritagerðinni í Amríku en hafði ekki árangur sem erfiði og varð því að sætta sig við að skrifa bækur. Hann mun reyndar vera einhver mest kvikmyndaði ,handritshöfundur‘ íslenskra kvikmynda því sjö kvikmyndir hafa verið gerðar upp úr verkum hans og nú síðast átti að gera heila sjónvarpsþáttaröð byggða á skáldverki hans Sjálfstætt fólk. Þessar kringumstæður eru auk þess langt í frá séríslenskar. Það eru nefnilega almenn vísindi að samlífi bókmennta og kvikmynda hefur alla daga verið nokkuð náið, sem birtist meðal annars í þeirri staðreynd að mest kvikmynduðu ,höfundar‘ vestrænnar menningar eru löngu látnir meðlimir bókmenntakanónunnar: Shakespeare, Dickens og Austen.

Þá má vera að sjónrænn drifkraftur kvikmynda hafi orðið til þess að framleiðsluþætti ,tökunnar‘ sé haldið á lofti en ,orðið‘ bælt. Það er bara ekki kvikmyndalegt að tala, líkt og Rudolf Arnheim ritaði í bók sinni Um kvikmyndalistina. Þá getur einnig verið að sú bráðsmitandi tilhneiging franskra gagnrýnenda á sjötta tug síðustu aldar, að tala um leikstjóra sem ,höfunda‘ kvikmynda hafi vegið nokkuð að hluti handritahöfunda sem voru framan af taldir standa næst höfundarmiðjunni. Sumir gætu nú spurt sig hvað hafi orðið um allar þessar bókmenntir sem eigi að leynast í kvikmyndunum sem sömu sumir sofna stundum yfir í sófanum. Hvar er þá þessi orðlist?

Fyrir skömmu kom fimm ára dóttir mín heim úr leikskólanum og gat vart staðið kjurr henni lá svo á að segja mér frá. Hún vildi ólm segja mér sögu og var byrjuð að buna henni út úr sér áður en mér tókst að renna henni úr kuldagallanum. Hún sagði mér af manni sem átti heima úti í geim og var með sverð sem „var svona ljós“ og rakti í kjölfarið fyrir mér sögu og framvindu Star Wars með réttum persónum og nánast í réttri röð með öllum helstu og markverðustu atburðum sögunnar. Ég vissi fyrir víst að dóttir mín hafði ekki séð þessa kvikmynd, hvorki í heimahúsum né leikskólanum og furðaði mig á þessu eitt augnablik. Svo kveikti ég á perunni. Einhver í leikskólanum, kannski af elstu deildinni, hafði séð kvikmyndina/kvikmyndirnar og var að rekja söguna fyrir skólasystkinum sínum, svona rétt á meðan yfirvaldið var ekki að ráðskast með þau. Það rann upp fyrir mér að ég væri skyndilega orðinn þátttakandi í ævagamalli sagnahefð þar sem sögur eru sagðar mann frá manni og lifa í munnlegri geymd. Munnmælahefðin, eitthvert elsta bókmenntaform allra tíma, var komin inn á pall hjá mér. Hún var 107 sentímetrar á hæð og vildi hafrakex með smjöri og mjólkurglas að launum.

Þessi saga - sem er sönn þrátt fyrir lygileg sannindi sín - sýnir að orðlistin lifir ein og sér án þess að vera bundin við sérstakan miðil. Þar er dæmi um geimóperu sem nýtti sér formgerðir amerísks vestra og japanskra samúræjasagna sem leikskólapjakkar sneru upp í munnmæli í anda Íslendingasagna. Því skal – vonandi – seint haldið fram að veldisefni Stjörnustríðs sé hið fullkomna dæmi um orðlist sjöundu listgreinarinnar en þetta er talandi dæmi um að bókmenntirnar séu breiðari en mann grunar og þær leynist sömuleiðis víðar.

Að öllu þessu sögðu er fróðlegt að velta fyrir sér þeirri hugsun sem býr að baki þegar maður talar um ,orðlist‘. Er orðlist eitthvað sem tekur langan tíma að festa niður og krefst mikillar menntunar til þess að vera meðtekin? Eða er orðlist eitthvað sem hittir í mark nær áreynslulaust og situr svo fast í vitund manns? Hvort ætli fleiri geti botnað línurnar: „Þar sem jökulinn ber við loft hættir landið að …“; eða, „Maður gerir ekki neitt fyrir neinn sem …“?

Sá sem ritaði fyrri línurnar hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels, hinn fékk hlutdeild í málvitund þjóðar. Lengi lifi orðlist íslenskra kvikmynda.

Kjartan Már Ómarsson, febrúar 2021