Hugmyndabanki fyrir skóla

Reykjavíkurkort eftir Gröndal frá árinu 1900

HUGMYNDABANKI FYRIR LEIKSKÓLA- OG GRUNNSKÓLA OG FRÍSTUNDAMIÐSTÖÐVAR

Þema lestrarhátíðar 2017 - Bensi og aðrir fuglar

Skáldið Benedikt Gröndal og nýopnað Gröndalshús í Grjótaþorpi

Bókmenntaborgin tekur á móti skólahópum í Gröndalshúsi þar sem skáldið er kynnt og húsið sem við hann er kennt. Bókanir á netfangið bokmenntaborgin@reykjavik.is.

Benedikt Gröndal (1826-1907) var stórhugi á sínum tíma og má kalla hann glæsilegan fulltrúa nítjándu aldarinnar sem og húsið sem við hann er kennt.
Benedikt var skáld, náttúrufræðingur, myndlistarmaður og kennari. Hann var einnig áhugamaður um mótun bæjarins og þróun Reykjavíkur sem höfuðstaðar Íslands. Auk ljóða og prósatexta liggja eftir hann greinar um lífið í bænum þar sem hann leggur til umbætur á höfuðstaðnum í anda þess sem tíðkast í erlendum stórborgum.

Minning Gröndals dofnaði um miðbik síðustu aldar en mikilvægi hans í íslenskri bókmennta- og menningarsögu hefur verið staðfest síðastliðin ár með útgáfu á verki hans Íslenskir fuglar og endurútgáfu á sjálfsævisögu hans, Dægradvöl, sem er ein rómaðasta sjálfsævisaga íslenskra bókmennta. Gröndal er einnig lifandi í skáldverkum samtímaskálda og má þar nefna skáldsögurnar Sæmd eftir Guðmund Andra Thorsson og Öræfi Ófeigs Sigurðssonar.

HÚSIÐ

Húsið sem kennt er við Gröndal er merkilegt í byggingarsögu borgarinnar, það var reist árið 1882 og þá strax sérstakt fyrir einstakt útlit sitt. Húsið hefur verið friðað og í því er hluti af byggingarsögu 19. aldar varðveitt.

Mikilvægt er að heiðra minningu slíks rithöfundar og fræðimanns sem Benedikt Gröndal var og lyfta um leið fram menningarsögu 19. aldar sem fyrir margar sakir myndar grunninn að þeirri borg sem Reykjavík er í dag. Minjavernd annaðist endurgerð hússins fyrir hönd Reykjavíkurborgar og arkitekt endurgerðarinnar var Hjörleifur Stefánsson.

Hér á eftir koma hugmyndir að verkefnum sem kennarar tóku saman. Verkefnin eru opin og á að vera auðvelt að aðlaga þau eftir aldri og nemendahópum.

Um Gröndal er m.a. ritað á Lestu.is 

Gröndalshús

Húsið

Vettvangsferðir/njósnaferðir: Börnin fari út til að skoða fólk eða hús og byggingar og ímynda sér líf þeirra og sögu fólks og skrifa út frá því. Gaman er að skoða gömul hús og ný hús og hugsa sér ólíkar aðstæður íbúanna. Hér mætti vinna með ólíka miðla t.d. myndbönd.

Lýsingar á húsum: Lýsa húsunum sem börnin búa í með sögum. Hér getur verið spennandi að ganga um hverfið og skoða hús barnanna eða önnur hús sem vekja athygli þeirra, teikna myndir og skrifa sögur. Getur verið skókassaverkefni (gera lítið þrívíddar módel) eða teikning eftir efni.

Reykjavík um aldarmótin 1900: Skoða ljósmyndir á myndavef Ljósmyndasafns Reykjavíkur og rýna í hvernig borgin hefur breyst. Hægt er að lesa á timarit.is sýn Gröndals á borgarþróunina um 1900 í grein hans, Reykjavík um aldarmótin 1900, http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=2323093.

Leikrit: Búa til leikrit þar sem söguþráður tengist Reykjavík um 1900.