Jump to content
íslenska

Á ódáinsakri

Á ódáinsakri
Author
Kamala Markandaya
Publisher
Heimskringla
Place
Reykjavík
Year
1958
Category
Icelandic translations

Um þýðinguna

Nectar in a sieve eftir Kamala Markandaya í þýðingu Einars Braga.

Úr Á ódáinsakri

Náttúran er eins og villt dýr sem maður hefur komizt upp á lag með að láta vinna fyrir sig. Meðan maður hefur varann á og fer að öllu með gætni og skynsemi, er ómetanleg stoð í því. En líti maður af því andartak, sé maður andvaralaus eða gleyminn, gleypir það mann umsvifalaust.

 Íra hafði gift sig í júní sem er bezti brúðkaupsmánuður ársins, og vegna undirbúningsanna og eirðarleysis sem að mér sótti eftir brottför hennar var ekkert gert til að þétta húsið né verja landið gegn flóðhættu. Þetta ár hófst monsúnregnið snemma og varð æstara en elztu menn mundu dæmi til.

 Það rigndi svo ákaft og lengi og viðstöðulaust að sérhver hugsun um þurrviðri vakti manni furðu. Það var eins og aldrei hefði annað þekkzt en rigning, vatnið var naskt að finna hverja smugu á stráþakinu og draup niður á gólfið sem var þó nógu rakt fyrir. Hefðum við ekki reist húsið á hóli, hefði vatnið leyst sundur veggina líka. Ég gróf fram alla potta og pönnur og setti undir lekann, en bráðlega voru götin orðin fleiri en bytturnar ... Sem betur fór hafði ég safnað miklu brenni til brúðkaupsins, og nú notaði ég afganginn til að sjóða hrísgrjónin. Það snarkaði mjög í eldinum, því viðurinn var blautur, og við sátum umhverfis og reyndum að halda okkur þurrum. Fyrst í stað voru börnin í bezta skapi: þau höfðu aldrei kynnzt þvílíkum náttúruhamförum fyrr og skemmtu sér konunglega úti við hjá lækjum og tjörnum. En við Natan horfðum á það með hryggð í hjarta hvernig vatnið steig og steig og viðkvæmar grænar hrísgrjónaplönturnar hurfu undir yfirborðið.

(s. 52)

More from this author