Tilnefnt til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar

Fimmtán bækur eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar en verðlaunin eru veitt í þremur flokkum: flokki barna- og ungmennabóka frumsaminna á íslensku, flokki þýddra barna- og ungmennabóka og flokki myndlýsinga í barna- og ungmennabók. Vegna sóttvarna var ekki boðað til athafnar að þessu sinni en höfundar tóku við blómum og tilnefningarskjölum í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, miðvikudaginn 17. mars 2021.

Í dag var tilkynnt hvaða fimmtán bækur sem komu út árið 2020 eru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar. Ein bók í hverjum flokki hlýtur svo verðlaunin sem borgarstjóri mun afhenda síðasta vetrardag í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum og eru fimm bækur tilnefndar í hverjum þeirra; flokki frumsaminna barna- og ungmennabóka, flokki myndlýstra bóka fyrir börn og ungmenni og flokki þýddra barna- og ungmennabóka.

Eftirtaldar bækur eru tilnefndar til verðlaunanna.

Frumsamdar bækur á íslensku

Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur.

Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf eftir Snæbjörn Arngrímsson.

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin eftir Yrsu Sigurðardóttur.

Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur. JPV gaf út.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur.

Myndlýstar bækur

Hestar eftir Rán Flygenring og Hjörleifur Hjartarson.

Hvíti björn og litli maur eftir Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur og José Federico Barcelona.

Nóra eftir Birtu Þrastardóttur.

Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur..

Sundkýrin Sæunn eftir Freydísi Kristjánsdóttur og Eyþór Jóvinsson.

Þýddar bækur

Danskvæði um söngfugla og slöngur eftir Suzanne Collins. Magnea J. Matthíasdóttir þýddi.

Múmínálfarnir - Seint í nóvember eftir Tove Jansson. Þórdís Gísladóttir þýddi.

Ókindin og Bethany eftir Jack Meggitt-Phillips. Guðni Kolbeinsson þýddi.

Ótrúleg ævintýri Brjálinu Hansen, 3 eftir Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring. Jón St. Kristjánsson þýddi. 

Villnorn 4 og 5 - Blóðkindin og Fjandablóð eftir Lene Kaaberbøl. Jón St. Kristjánsson þýddi.

Barnabókaverðlaunin

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eiga sér lengsta sögu barnabókaverðlauna á landinu og er helsta markmið þeirra að vekja athygli á því sem vel er gert í bókaútgáfu fyrir unga lesendur svo og að hvetja þá til bóklesturs.

Skúli Þór Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, sagði af þessu tilefni að það væri frábært að sjá hve mikil gróska væri í útgáfu vandaðra barna- og unglingabóka. „Það vekur athygli mína að konur draga vagninn í hópi tilnefndra þetta árið, ekki síst varðandi frumsamin skáldverk og það er sérstakt fagnaðarefni. Við erum með læsi í forgangi nýrrar menntastefnu Reykjavíkurborgar og eigum í góðu samstarfi við bókaútgefendur um Barnabókamessu sem haldin hefur verið undanfarin ár með viðbótarfjárveitingum til skólabókasafna um eflingu bókasafna skólanna.“

Dómnefnd barnabókaverðlaunanna er að þessu sinni skipuð Tinnu Ásgeirsdóttur formanni, Ásmundi Kristberg Örnólfssyni, Guðrúnu Láru Pétursdóttur, Karli Jóhanni Jónssyni og Valgerði Sigurðardóttur.

Rökstuðningur dómnefndar

Hér fyrir neðan má lesa rökstuðning nefndarinnar um tilnefndu bækurnar.

Tilnefndar í flokki frumsaminna bóka

Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Mál og menning gefur út.
Í Blokkinni á heimsenda er sagt frá óvenjulegu samfélagi á afskekktri eyju sem er sambandslaus við umheiminn stærstan hluta ársins. Þegar Dröfn flytur óvænt á eyjuna ásamt fjölskyldu sinni taka undarlegir atburðir að gerast. Sagan er fjörug og spennandi en vekur um leið áhugaverðar vangaveltur um sjálfbærni, loftslagsmál og hvað þurfi til að skapa gott og réttlátt samfélag. Engin endanleg túlkun er gefin heldur er lesandanum látið eftir að draga sínar eigin ályktanir. Blokkin á heimsenda er frumleg og fyndin bók sem höfðar til allrar fjölskyldunnar.

Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf eftir Snæbjörn Arngrímsson. Vaka-Helgafell gefur út.
Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er önnur bók Snæbjörns Arngrímssonar um vinina Millu og Guðjón G. Georgsson. Sagan gerist sem fyrr í Álftabæ, ósköp venjulegu þorpi þar sem óvenjulegir atburðir eiga sér. Höfundurinn fer ákaflega létt með að véla lesandann inn í söguheiminn með sínum lágstemmda stíl og meitlaðri persónusköpun. Fléttan er fjörleg en fyrst og fremst eru það söguhetjan, hin sérstaka Milla, og vinátta hennar og Georgs sem grípa athyglina lesanda. Í söguframvindunni er ekki allt sagt berum orðum heldur gefið í skyn svo lesandinn fær úr miklu að moða. Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er fágað verk sem skilur eftir löngun hjá lesanda að fylgja Millu og Guðjóni á vit nýrra ævintýra.

Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin eftir Yrsu Sigurðardóttur. Veröld gefur út.
Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin segir frá raunum sérvitra hefðarkattarins Herra Bóbó, sem þvinga á í megrun, og vináttu hans og músarinnar Amelíu. Yrsa Sigurðardóttir lætur einstakt hugmyndaflug sitt og skopskyn blómstra í sögunni. Hvert lygilega og sprenghlægilega atvikið rekur annað og undarlegar hugmyndir Herra Bóbó um sjálfan sig og heiminn koma smátt og smátt í ljós í hans eigin frásögn. Herra Bóbó er heillandi sögumaður sem veitir lesendum áhugaverða sýn á líf sitt þar sem fléttast saman hasar og fallegur boðskapur um sanna vináttu.

Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur. JPV gefur út.
Ungmennabókin Skógurinn rekur endahnútinn á þríleikinn um dularfulla skápinn í bláa húsinu við Skólastræti. Hver bók hefur komið lesandanum rækilega á óvart, flutt hann áreynslulaust á ný sögusvið og milli ólíkra bókmenntagreina. Sögunni af langmæðgunum Kríu, Ölmu og Gerðu lýkur í framandi veröld þar sem ógnin kemur úr óvæntri átt. Undir hraðri og spennandi atburðarás ólga knýjandi spurningar um sjálfstæðan rétt náttúrunnar, kraft hennar og eyðileggingarmátt. Skógurinn er lipurlega skrifuð skáldsaga sem ber hugmyndaauðgi höfundarins sterkt vitni.

Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur. Vaka-Helgafell gefur út.

Í Vampírum, veseni og öðru tilfallandi glíma vinkonurnar Milla, Lilja og Rakel við óvenjulegt vandamál. Krakkarnir í unglingadeildinni veikjast einn af öðrum og Milla er viss um að vampíra gangi laus í skólanum. Margt kemur upp á í vinfengi stúlknanna og Rut Guðnadóttir gefur vinkonunum, samskiptum þeirra og samskiptaleysi gott rúm. Persónusköpunin er ákaflega trúverðug og söguhetjurnar glíma við eigin vanda meðfram lausn ráðgátunnar. Þótt átök unglingsáranna séu fyrirferðamikil bera þau spennuna ekki ofurliði. Húmor og frásagnagleði einkenna söguna og leitin að vampírunni heldur athygli lesanda allt fram í sögulok.

Tilnefndar í flokki myndlýstra bóka

Hestar eftir Rán Flygenring og Hjörleif Hjartarson. Angústúra gefur út.
Í Hestum er rakin saga hesta frá örófi og hún tvinnuð saman við goðsögur og þjóðsögur af eftirminnilegum hestum. Samstarf þeirra Hjörleifs Hjartarsonar og Ránar Flygenring er gjöfult að venju og úr verður sannkölluð gleðibók um hesta með fyndnum fróðleik og sögum frá óvæntum vinklum um fyrrum þarfasta þjón mannsins. Rán býr yfir þeim galdri að geta teiknað hverja síðuna á fætur annarri af hrossum í sínum skemmtilega og húmoríska stíl sem er nánast að springa af leikgleði. Túlkun Ránar á hestinum er ekki anatómísk, í forgrunni eru leikgleði og karakter rétt eins og í gáskafullum texta Hjörleifs Hjartarsonar, og mynda texti og myndir þannig sannfærandi heild.

Hvíti björn og litli maur eftir Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur og José Federico Barcelona. Salka gefur út.
Hvíti björn og litli maur er falleg og skemmtileg saga um vináttu fyrir yngstu kynslóð lesenda. Sagan er einföld og byggir á endurtekningum sem skapa spennu og kalla um leið á skapandi túlkun lesanda til að sagan njóti sín sem best. Myndir Sólrúnar njóta sín vel og fela í sér húmorískar viðbætur við söguna, á borð við plásturinn sem bætist á björninn eftir hvert bit maursins og það hversu vel tenntur maurinn er. Myndskreytingin er í takt við textann, einfaldir litafletir með fallegum litum sem ná þrátt fyrir einfaldleika að túlka andrúmsloft hverrar opnu. Línuteikningin er mjög fíngerð, grannar og fínlegar línur með hófstilltu flúri sem er um leið styrkur teikningana, og fellur vel að sögunni.

Nóra eftir Birtu Þrastardóttur. Angústúra gefur út.
Í Nóru segir Birta Þrastardóttir í myndum og máli sögu af kátri og vinamargri stelpu sem verður fyrir einelti. Látlaust textinn fléttast saman við myndir í dempuðum og fallegum tónum þar sem litanotkun er mikilvægur partur af söguframvindu. Og það er fyrst og fremst í myndunum sem sagan er sögð, í þeim birtast tilfinningar Nóru og grunntónn tilveru hennar. Þegar skær litur hverfur úr sögunni hverfur líka gleðin. Nóra er falleg myndsaga um viðkvæmt efni sem lesendur á öllum aldri geta notið að fletta og túlka.

Sjáðu! eftir Áslaugu Jónsdóttur. Mál og menning gefur út.
Sjáðu! er rímað myndavers þar sem tvö brosmild börn leiða yngstu lesendurna í ferð um borg og sveit, um heima og geima. Á hverri opnu birtist ný veröld þar sem ægir saman spennandi dýrum, þjóðsagnaverum og ævintýrapersónum. Orðaleikir og litríkar myndirnar kalla á spurningar og vangaveltur um allt sem fyrir augu ber; önd með hatt, ástfangna skessu, glaðar ruslatunnur og brosmildar kýr. Myndir Áslaugar eru ævintýralegar og fullar af lífi og kallast skemmtilega á við kveðinn textann svo úr verður fjörugur leikur fyrir börn og fullorðna saman.

Sundkýrin Sæunn eftir Freydís Kristjánsdóttir og Eyþór Jóvinsson. Sögur gefur út.
Sundkýrin Sæunn byggir á sönnum atburðum og segir frá því þegar leiða átti kúna Sæunni til slátrunar en kýrin sleit sig lausa og synti yfir Önundarfjörð. Það getur verið erfitt að átta sig á hvað dýr raunverulega skilja og skynja, en sagan af sundkúnni Sæunni fær lesandann svo sannarlega til að hugleiða það. Myndir Freydísar eru listilega unnar, hrífandi og vinna vel með textanum og hvort tveggja vísar á skemmtilegan hátt í sígildar íslenskar barna- og þjóðsögur. Myndstíllinn er klassískur, í raunsæisstíl, unninn með vatns-/gvasslitum og ber færni Freydísar vitni. Hún hefur frábært vald á þeim miðli sem hún hefur valið sér og um leið mikla næmni við að túlka dýr og menn.

Tilnefndar í flokki þýddra bóka

Danskvæði um söngfugla og slöngur eftir Suzanne Collins. Þýðandi Magnea J. Matthíasdóttir. JPV gefur út.
Danskvæði um söngfugla og slöngur er forsaga dystópíska þríleiksins Hungurleikarnir sem áður hefur komið út á íslensku í vönduðum þýðingum Magneu Matthíasdóttur og Guðna Kolbeins. Í Danskvæðinu er sögð saga hins unga Kórólíanusar Snow og þeim atburðum sem gerðu hann að hinum grimma einræðisherra Panem. Meginviðfangsefni sögunnar eru vinátta og svik, valdabarátta og kúgun og yfir öllu svífur dulúðug þjóðtrú Panembúa sem birtist m.a. í þeim fjölmörgu danskvæðum sem textinn hefur að geyma og Magnea Matthíasdóttir hefur fellt svo fagurlega að íslensku að þeir óma í huga lesanda að lestri loknum. Þýðingin öll er fáguð og lipur og geymir aukinheldur aragrúa tilbúinna orða sem þýðandi hefur snúið hugvitsamlega yfir á gagnsætt og fallegt mál.

Múmínálfarnir - Seint í nóvember eftir Tove Jansson. Þýðandi Þórdís Gísladóttir. Mál og menning gefur út.
Seint í nóvember er síðasta sagan af sögubókunum um Múmínálfana og sérstök fyrir þær sakir að Múmínfjölskyldan sjálf er víðs fjarri. Sagan hefur ekki sama ævintýrabrag og aðrar sögur um Múmínálfana en meginviðfangsefni Seint í nóvember eru einmanaleiki og sjálfsefi þeirra sem eftir sitja í Múmíndal og söknuður þeirra eftir Múmínfjölskyldunni. Yfirbragð sögunnar er kyrrlátt og spennan falin í innri baráttu hverrar sögupersónu um sig. Þórdís Gísladóttir hefur vandað til verka í þýðingu sinni á lokasögu Múmínálfanna. Stíllinn er hæglátur með blæbrigðaríku orðavali sem kallar oftar en ekki fram óvæntar myndir. Þýðingin kallast á við vandaðar fyrri þýðingar á öðrum bókum um Múmínálfana og það er fagnaðarefni að loksins skuli allar sögubækur Tove Jansson af Múmínálfunum vera til í íslenskum úrvalsþýðingum.

Ókindin og Bethany eftir Jack Meggitt-Phillips. Þýðandi Guðni Kolbeinsson. JPV gefur út.
Ókindin og Bethany er sannarlega gólandi fyndin en líka hjartnæm saga af ókind. Stúlkan Bethany er ættleidd í vafasömum tilgangi af fjörgömlum þjóni ókindarinnar, Ebenezer Tweezer, og úr verður mikil ærslasaga. Þýðing Guðna Kolbeinssonar ber þess vitni að þýðandinn hefur notið sín við verkið. Á hverri síðu sprettur fram lipur og kjarngóð íslenska og er skemmtanagildi bókarinnar ekki hvað síst að finna í gáskafullu málfari. Guðni hefur nostrað við verkið og úr verður fyrirtaksþýðing á virkilega skemmtilegri bók.

Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen, 3 eftir Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring. Þýðandi Jón St. Kristjánsson. Angústúra gefur út.
Þriðja og síðasta bókin um Brjálínu Hansen hverfist um ástvinamissi, ótta og söknuð. Í máli og myndum takast Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring á við þessi þungu umfjöllunarefni af einstakri næmni og hlýju. Hér er mannleg tilvist sett í samhengi við allt frá víðáttum alheimsins til smæsta rykkorns og útkoman lætur engan ósnortinn. Þrátt fyrir að efniðviðurinn sé sorglegur er andrúmsloft bókarinnar létt og frásögnin oft bæði fjörleg og fyndin. Skapandi þýðing Jóns St. Kristjánssonar fangar vel þessa ólíku þætti verksins og skilar henni á fallegu og vönduðu máli til íslenskra lesenda.

Villinorn 4 og 5 - Blóðkindin og Fjandablóð eftir Lene Kaaberbøl. Þýðandi Jón St. Kristjánsson. Angústúra gefur út.
Fantasíuflokkur Lene Kaaberbøl um villinornina Klöru hefur notið mikilla vinsælda og verið þýddur á fjölda tungumála. Þótt sögurnar fjalli um veröld norna og töfra þá leggur Kaaberbøl ekki aðaláherslu á að varpa ljósi á smáatriðin í þeim heimi. Meginþráðurinn er þroskasaga aðalpersónunnar Klöru og aðdráttarafl sagnanna felst ekki hvað síst í dulmögnuðu andrúmslofti og stíl. Af þessu taka þýðingar Jóns St. Kristjánssonar á Blóðkindinni og Fjandablóði, fjórðu og fimmtu bókunum í Villinornaflokknum, báðar mið. Málfærið er blæbrigðaríkt og lipurt, og hæfir vel ungum lesendahópnum, en tóninn er jafnframt seiðandi svo úr verður töfrandi ævintýri.