Þrjár nýjar Bókmenntaborgir UNESCO

Djakarta, Gautaborg og Vilnius bætast í samstarfsnet Bókmenntaborga

UNESCO hefur tilkynnt um útnefningu 49 nýrra borga í Samstarfsnet skapandi borga UNESCO. Netið telur nú 295 borgir í 90 löndum víðs vegar um heim. Meðal nýju borganna eru Djakarta í Indónesíu, Gautaborg í Svíþjóð og Vilníus í Litháen, sem allar hafa verið útnefndar Bókmenntaborgir. Bókmenntaborgir UNESCO eru þá orðnar 42 í 31 landi og fagnar samstarfsnetið þessari góðu viðbót. Samstarf Bókmenntaborga UNESCO lítur meðal annars að því að stuðla að opnu samfélagi fyrir alla í gegnum orðlist og bókmenntir.

„Við bjóðum samstarfsfólk okkar í nýju Bókmenntaborgunum hjartanlega velkomið í hópinn. Við hlökkum til að vinna með þessum nýju félögum að því að koma gildum okkar á framfæri, sem snúa meðal annars að því að fagna og standa vörð um tjáningarfrelsi. Þegar fjölbreytileiki samstarfsnetsins eykst, með nýjum menningarheimum, nýjum tungumálum og nýjum sögum, styrkjum við stoðirnar og grunninn að þessari vinnu“, segir John Kenyon, forstöðumaður Bókmenntaborgarinnar Iowa City og formaður stýrihóps Bókmenntaborga UNESCO.

Samstarfsnet skapandi borga UNESCO (UNESCO Creative Cities Network) var sett á laggirnar árið 2004. Það vinnur að því að efla samvinnu innan og á milli borga sem hafa viðurkennt skapandi starf sem stefnumarkandi þátt í sjálfbærri þróun í efnahagslegu, félagslegu, menningarlegu og umhverfislegu tilliti. Auk bókmennta eru í netinu borgir á sviði tónlistar, kvikmyndalistar, hönnunar, margmiðlunarlista, matagerðarlistar og loks handverks og alþýðulista.

Það gleður okkur hér í Reykjavík að Gautaborg og Vilníus sláist í hóp Bókmenntaborga á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum en þar eru fyrir, auk Reykjavíkur, Lillehammer í Noregi, Kuhmo í Finnlandi og Tartu í Eistlandi. Íslenskt bókmenntafólk þekkir vel til Bókamessunnar í Gautaborg og margvísleg menningartengsl eru einnig nú þegar milli Vilníus og Reykjavíkur. Bókmenntaborgin Reykjavík hefur unnið með Författarcentrum Väst í Gautaborg á liðnum árum, sem var einn þeirra aðila sem stóðu að baki umsókn Gautaborgar til UNESCO. Það er svo ekki síður gleðilegt að Djakarta, höfuðborg Indónesíu, taki nú þátt í starfi Bókmenntaborga og vonumst við til að þessi nýju tengsl skapi tækifæri fyrir íslenska orðlist og opni einnig fyrir strauma þaðan hingað norðureftir.