Suttungur, ný alþjóðleg ljóðahátíð

Alþjóðlega ljóðahátíðin Suttungur verður haldin í fyrsta sinn laugardaginn 12. desember næstkomandi og hefst dagskráin kl. 17:00. Tuttugu íslensk og erlend skáld flytja ljóð sín á hátíðinni sem fer fram á netinu að þessu sinni og geta gestir horft á dagskrána á vefnum suttungurfestival.com.

Suttungur er nýstárleg ljóðahátíð sem leggur áherslu á að leiða saman íslenska og erlenda strauma í tungumálinu og skapa framsækinn vettvang fyrir tilraunakennda ljóðastarfsemi af ýmsu tagi. Til að kanna möguleika ljóðsins enn frekar var ekki bara skáldum boðið að taka þátt heldur má einnig finna í hópi höfunda bæði myndlistarmenn og dansara.

Vegna takmarkanna sem heimsfaraldurinn hefur í för með sér koma listamennirnir ljóðum sínum til skila í formi myndbanda sem streymt verður á heimasíðu hátíðarinnar og því gefst áhorfendum kostur á að fylgjast með henni heima í stofu eða hvar sem er.

Þessi koma fram í ár

Alessandro Burbank, Angela Rawlings, Anne Carson , Ásdís Sif Gunnarsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir, Brynjar Jóhannesson, Brynjólfur Þorsteinsson, Efe Duyan, Eiríkur Örn Norðdahl, Fríða Ísberg, Gígja Jónsdóttir, Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kristín Svava Tómasdóttir, Luke Allan, Max Hoefler, Morten Langeland, Ragnar Helgi Ólafsson, Robert Currie og Sigurður Ámundasson.