Slamovision

Ægir Þór Jähnke tekur þátt í ljóðaslammskeppni Bókmenntaborga UNESCO ásamt skáldum frá sex öðrum borgum.

Sjö Bókmenntaborgir UNESCO standa fyrir ljóðaslammskeppninni Slamovision á netinu núna í október og nóvember 2020. Borgirnar eru Reykjavík, Edinborg, Manchester, Melbourne, Tartu, Quebéc City og Ulyanovsk.

Opið fyrir kosningu á vefnum

Ljóðskáld frá þessum sjö borgum flytja frumsamin ljóð sem eru birt á vefsíðunni Slamovision og getur fólk kosið sitt uppáhaldsskáld á síðunni með því að merkja við viðkomandi flutning. Að auki meta svo dómnefndir í hverri borg fyrir sig ljóðin og flutning skáldanna. Skáldin sem taka þátt í ár eru Ægir Þór Jähnke (Reykjavík), Kevin McLean (Edinborg), Jardel Rodrigues (Manchester), Senuri Chandrani (Melbourne), Thomas Langlois (Quebéc City), Heidi Livari (Tartu) og Danila Nozdryakov (Ulyanovsk).

Eins og lesendur hafa væntanlega áttað sig á er Eurovision söngvakeppnin fyrirmynd Slamovision. Úrslitin verða kunngerð í Tartu um miðjan nóvember. Þau ráðast af úrskurði dómnefnda í hverri borg fyrir sig, sem að sjálfsögðu geta ekki kosið eigið framlag. Dómnefnd Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO skipa þau Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Sif Gunnarsdóttir og Þorvaldur S. Helgason. 

Ægir Þór Jähnke

Við hvetjum alla til að horfa á flutning skáldanna á vefnum og gefa sínu uppáhaldsskáldi atkvæði. Kjósa má fleiri en eitt skáld og áhorfendur á Íslandi mega gefa Reykjavík sitt atkvæði jafnt sem skáldum frá öðrum borgum.

Ægir Þór Jähnke

Ljóð Ægis Þórs heitir „Rokkstjarna“ og flytur hann það á íslensku en stiklan er textuð með enskri þýðingu hans sjálfs. 

Ægir Þór er skáld og heimspekingur. Hann er einn stofnenda tímaritsins Skandala. Hann hefur sent frá sér sex ljóðabækur og er sú sjöunda, drabb, væntanleg. Hann hefur líka þýtt ljóð erlendra skálda á íslensku, m.a. ljóðið „Rigningarmorgunn“ eftir nýbakaða Nóbelsskáldið Louise Glück. Ægir Þór hefur tekið þátt í ljóðaslammi hér heima og flutt ljóð sín við ýmis tækifæri. 

Ólafur Daði Eggertsson tók upp flutning Ægis Þórs í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, fyrir Reykjavík bókmenntaborg UNESCO.