Orðlistin meitluð í stein

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO heiðrar Vilborgu Dagbjartsdóttur með ljóðlínum á Steinbryggju

Fimmtudaginn 5. september afhjúpaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ljóðlínur eftir Vilborgu Dagbjartsdóttur á nýju torgi við steinbryggjuna í miðbæ Reykjavíkur. Þetta fallega torg, sem er á horni Tryggvagötu og Pósthússtrætis, fær nafn sitt frá bryggjunni sjálfri og heitir einfaldlega Steinbryggja. Línurnar eru úr ljóðinu „Vetur“ sem fyrst birtist í bók Vilborgar Dvergliljur (1968). Vilborg var viðstödd og tvö önnur skáld, þær Gerður Kristný og Sunna Dís Másdóttir, töluðu um skáldskap þessarar merku skáldsystur sinnar og fluttu ljóð eftir hana. 

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO stendur fyrir verkefninu í samstarfi við umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar og er Vilborg fyrsta skáldið sem er heiðrað með þessum hætti. Á Steinbryggju geta vegfarendur líka sest á skáldabekk, skannað rafrænan kóða með snjallsíma og hlustað á Vilborgu sjálfa fara með ljóðið „Vetur“ og nokkur önnur ljóð auk þess sem hægt er að hlusta á sömu ljóð lesin á ensku.

Í ávarpi sínu sagði borgarstjóri m.a.: 

„Vilborg nær að fanga náttúru borgarinnar í ljóð sín á einstakan hátt – eins og sést svo vel í þessum ljóðlínum sem birtast okkur hér í dag. […] Ljóðið „Vetur“ er lifandi mynd sem spilar saman við umhverfið og náttúruna í borgarlandinu sjálfu.  Þetta ljóð Vilborgar talar til fólks á öllum aldri, hvort sem er til barna eða fullorðinna – rétt eins og hún sjálf hefur gert í gegnum tíðina, bæði sem rithöfundur og kennari í Austurbæjarskóla þar sem hún kenndi börnum óslitið í 45 ár.“

Sunna Dís Másdóttir flutti erindi frá skáldkonu til skáldkonu og sagði m.a. að ljóðlínur ristar í jörðina undir fótum okkar væru „eins og vegvísir, eða verndartákn, gegn doðanum, gegn ríkjandi öflum, gegn hugsunarleysi.“ Hún sagði líka að það væri „gott og frelsandi að vera skáld og kona og stíga út á svalir með öðru skáldi, baráttuglöðu, sem otar tuskunni framan í karlinn í mánanum, langþreytt á öllum þeim verkum sem henni er ætlað að sinna áður en hennar tími rennur upp. Vilborg markaði sér ljóðlendur þar sem börn fengu pláss, og baráttan, sorgin, gleðin og leikurinn. Þar er gott að dvelja.“

Reykjavíkurborg mun halda áfram að gera bókmenntasögu borgarinnar skil með slíkum varanlegum hætti í borgarlandinu samhliða endurnýjun torga og gatna. Bókmenntaborgin stendur þegar fyrir ýmiss konar verkefnum sem lyfta menningarsögunni fram og um leið þeim sögum og ljóðum sem búa í umhverfi okkar. Má þar nefna upplýsingaskilti við sögulega staði, fyrrnefnda skáldabekki með upplestri, tímabundin stenslaljóð á stéttum og torgum, ljóð sem birtast í rigningu og fleira. Þess má geta að fljótlega verður hægt að lesa slík „rigningarljóð“ á hinu nýja Boðatorgi á mótum Tryggvagötu og Geirsgötu, þ.e.a.s. þegar „vel“ viðrar. Auk þess að heiðra skáld og framlag þeirra til samfélagsins er tilgangurinn með þessum verkefnum að lyfta anda vegfarenda í borginni og styðja við skapandi og skemmtilegt mannlíf.

Vilborg Dagbjartsdóttir fæddist á Hjalla á Vestdalseyri við Seyðisfjörð árið 1930 en fluttist sem ung kona til Reykjavíkur og hefur lengst af búið í miðborginni. Hún er meðal okkar merkustu skálda, en fyrsta ljóðabók hennar, Laufið í trjánum, kom út 1960. Auk ljóðabóka hefur Vilborg skrifað barnabækur og hún er mikilvirkur þýðandi. Vilborg kenndi í Austurbæjarskóla samfellt í 45 ár, skrifaði námsbækur og ritstýrði um tíma barnablöðum Þjóðviljans og Sunnudagsblaðsins. Hún var virk í kvennabaráttu og ein þeirra sem stofnuðu Rauðsokkahreyfinguna og sat einnig lengi í stjórn Menningar- og friðarsamtaka kvenna.

Það er Bókmenntaborginni og Reykjavíkurborg mikið gleðiefni að heiðra þetta öndvegisskáld sem á svo stóran sess í bókmennta- og menningarsögu borgarinnar sem raun ber vitni.

Steinbryggjan

Steinbryggjan er fyrsta bryggjan sem var í eigu Reykvíkinga og því merk í sögu borgarinnar. Hún var byggð árið 1884 en fyrir þann tíma einkenndu trébryggjur strandlengjuna, allar í eigu kaupmanna. Steinbryggjan var fyrsti viðkomustaður margra gesta borgarinnar, þar steig til að mynda Friðrik áttundi á land árið 1907 og Kristján tíundi 1921. Árið 1940 var svo grafið yfir bryggjuna og hvarf hún þar með sjónum þar til núna.

Hönnun hins nýja torgs var í höndum Landmótunar og lýsing í höndum Mannvits. Unnið var með efni sem tengjast sjónum en setþrep og tröppur eru til að mynda úr bryggjutimbri og grágrýti notað í kanta og þrep. Sögu bryggjunnar verður gert skil á handriði sem liggur meðfram tollhúsinu og verður sú vinna í höndum Borgarsögusafns Reykjavíkur