Nýju ári fagnað með ljóðaflutningi

01.01.21

Fjórða árið í röð munu skáld flytja ljóðelskum Íslendingum texta sína á meðan lesbjart er á fyrsta degi ársins. Að vanda fer lesturinn fram í húsi Benedikts Gröndal í Grjótaþorpi en sökum sóttvarnaráðstafana verður gestum ekki leyfður aðgangur að þessu sinni. Þess í stað verður dagskránni varpað út á netinu, á Facebook og öðrum netmiðlum, svo enginn ætti að þurfa að líða ljóðskort á nýársdag.

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO er bakhjarl dagskrárinnar eins og verið hefur frá upphafi. Hún hefst í birtingu, á slaginu tíu að morgni, og stendur sleitulaust til sólseturs, klukkan fimm síðdegis.

Alls munu 28 skáld hefja upp raust sína á nýársdag. Í þeim hópi eru ungskáld og önnur eldri, konur og karlar, Íslendingar og meira segja einn gestur erlendis frá, kanadíska skáldkonan Anne Carson.

Þessi munu meðal annars lesa: Kristín Ómarsdóttir, Brynjar Jóhannesson, Dagur Hjartarson, Gerður Kristný, Ásdís Óladóttir, Hermann Stefánsson, Soffía Bjarnadóttir, María Ramos, Halla Þórlaug Óskarsdóttir, Guðrún Hannesdóttir , Anton Helgi Jónsson, Sigrún Björnsdóttir, Fríða Ísberg, Brynja Hjálmsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir, Björk Þorgrímsdóttir, Arndís Þórarinsdóttir, Sölvi Björn Sigurðsson, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Magnús Sigurðsson, Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Ragnar Helgi Ólafsson.

Komið ykkur vel fyrir heima í hlýjunni á nýársdag og fagnið nýju ári, vaxandi ljósi og ljóðlistinni.

Gleðilegt nýtt ár orðlistar í Reykjavík! Borgin fagnar tíu ára afmæli sem Bókmenntaborg UNESCO árið 2021.