Hver á þennan bústað? - Orðlist úr bíómyndum

Orðlist í íslenskum kvikmyndum

Reykjavík bókmenntaborg UNESCO vekur athygli á orðsnilld íslenskra handritshöfunda á Vetrarhátíð í Reykjavík, dagana 4. - 7. febrúar 2021. Hátíð ljóss og myrkurs er kjörin til þess að draga fram orðlist íslenskra kvikmynda þar sem segja má að þessar andstæður myndi grundvöll kvikmyndalistarinnar. Textabrotum úr bíómyndum verður varpað á tvær byggingar í miðborginni, Héraðsdóm Reykjavíkur á Lækjartorgi og lögreglustöðina við Hlemm. Elsta myndin er Land og synir frá 1981 og þær nýjustu, Amma Hófí og Síðasta veiðiferðin, frá 2020 svo sýningin spannar nær fjörutíu ár í íslenskri kvikmyndasögu.

Vegfarendur geta staldrað við á þessum tveimur torgum í miðborginni, rifjað upp kynnin við persónur hvíta tjaldsins og rekist á nýjar: Stellu, Bödda, Dúdda, Dís, Agnesi, Ödju, Lóu og öll hin. Það er svo auðvitað tilvalið að poppa þegar heim er komið og næla sér í íslenska mynd í tækið. Á vef Bókmenntaborgarinnar má nú lesa nýja grein Kjartans Más Ómarssonar um kvikmyndahandrit sem bókmenntir, sem er skrifuð af þessu tilefni. Einnig bendum við á hlaðvarpið Engar stjörnur en í nýjasta þættinum, „Ísbrjótar íslenskrar kvikmyndasögu“, er viðtal við Gunnar Tómas Kristófersson þar sem hann ræðir m.a. um Önnu Ruth Hanson sem var fyrst kvenna ti að gera kvikmynd hér á landi og Svölu Hannesdóttur sem hann segir leikstjóra fyrstu íslensku listamyndarinnar.

Grafiskur hönnuður sýningarinnar er Gunnar Helgi Guðjónsson.

Við val textabrota var að hluta til stuðst við bókina Ég tvista til þess að gleyma eftir Guðna Sigurðsson (Bókafélagið, 2009) með góðfúslegu leyfi höfundar.

Sjá dagskrá Vetrarhátíðar í Reykjavík.