Heiðursverðlaunin Orðstír og þýðendaþing í Reykjavík

Heiðurverðlaunin Orðstír sem veitt eru fyrir þýðingar á íslenskum bókmenntum voru veitt í þriðja sinn á Bessastöðum sl. föstudag. Verðlaunin hlutu þau Silvia Cosimini sem þýðir íslensku yfir á ítölsku og John Swedenmark sem þýðir yfir á sænsku. 

Í tilkynningu um afhendinguna segir m.a.: „Sil­via og John eru bæði mik­ils­virk­ir þýðend­ur með brenn­andi áhuga á ís­lensk­um bók­mennt­um og tungu. Sil­via hef­ur þýtt sam­tals um 70 verk úr ís­lensku á ít­ölsku og er jafn­víg á ólík­ar bók­mennta­teg­und­ir. Meðal ís­lenskra höf­unda sem hún hef­ur þýtt verk eft­ir má nefna Hall­dór Lax­ness, Hall­grím Pét­urs­son, Guðberg Bergs­son, Sjón, Svövu Jak­obs­dótt­ur og Arn­ald Indriðason.
John hef­ur þýtt tæp­lega 50 verk úr ís­lensku á sænsku, meðal ann­ars eft­ir rit­höf­und­ana Gerði Krist­nýju, Jón Kalm­an, Þór­ar­inn Eld­járn, Lindu Vil­hjálms­dótt­ur, Stein­unni Sig­urðardótt­ur og Gyrði Elías­son. Sam­an­lagt hafa farið frá þeim ein­ar 120 vandaðar þýðing­ar. Fjöl­hæfni þeirra og fag­mennska er ein­stök og starf þeirra fyr­ir ís­lensk­ar bók­mennt­ir ómet­an­legt,“

Að verðlaununum standa Miðstöð ís­lenskra bók­mennta, Banda­lag þýðenda og túlka, Íslands­stofa, embætti For­seta Íslands og Bók­mennta­hátíð í Reykja­vík og eru verðlaunin veitt annað hvert ár þeim einstaklingum sem hafa þýtt verk úr ís­lensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim ár­angri að aukið hafi hróður ís­lenskr­ar menn­ing­ar á er­lend­um vett­vangi.

Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík 29. og 30. apríl

Í kjölfar Bókmenntahátíðar í Reykjavík heldur Miðstöð íslenskra bókmennta Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík dagana 29. og 30. apríl og fer þingið fram í Veröld – húsi Vigdísar. Markmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta með þýðendaþingi hér á landi er að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru ómissandi sendiherrar íslenskra bókmenntanna og okkar besta leið til að auka hróður þeirrra um heim allan. 

Nítján þýðendum, sem þýða úr íslensku á 11 mismunandi tungumál, hefur verið boðin þátttaka í þinginu. Tungumál þátttakenda eru: pólska, tékkneska, norska, sænska, danska, enska, rússneska, lettneska, eistneska, ítalska og spænska. Dagskrá þingsins er fjölbreytt, bæði í formi fyrirlestra og vinnustofa sem fram fara í Veröld - húsi Vigdísar og móttökum, vettvangsheimsóknum, fundum með höfundum, sérfræðingum og útgefendum. Einnig tóku þýðendurnir virkan þátt í Bókmenntahátíð og styrktu þar tengsl sín við íslenskt bókmenntalíf. 

Miðstöð íslenskra bókmennta sér um undirbúning og framkvæmd þýðendaþingsins, samstarfsaðilar þeirra eru Reykjavík bókmenntaborg UNESCO í félagi við Félag íslenskra bókaútgefenda, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Bandalag þýðenda og túlka og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.