Heiðurverðlaunin Orðstír sem veitt eru fyrir þýðingar á íslenskum bókmenntum voru veitt í þriðja sinn á Bessastöðum sl. föstudag. Verðlaunin hlutu þau Silvia Cosimini sem þýðir íslensku yfir á ítölsku og John Swedenmark sem þýðir yfir á sænsku.
Í tilkynningu um afhendinguna segir m.a.: „Silvia og John eru bæði mikilsvirkir þýðendur með brennandi áhuga á íslenskum bókmenntum og tungu. Silvia hefur þýtt samtals um 70 verk úr íslensku á ítölsku og er jafnvíg á ólíkar bókmenntategundir. Meðal íslenskra höfunda sem hún hefur þýtt verk eftir má nefna Halldór Laxness, Hallgrím Pétursson, Guðberg Bergsson, Sjón, Svövu Jakobsdóttur og Arnald Indriðason.
John hefur þýtt tæplega 50 verk úr íslensku á sænsku, meðal annars eftir rithöfundana Gerði Kristnýju, Jón Kalman, Þórarinn Eldjárn, Lindu Vilhjálmsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur og Gyrði Elíasson. Samanlagt hafa farið frá þeim einar 120 vandaðar þýðingar. Fjölhæfni þeirra og fagmennska er einstök og starf þeirra fyrir íslenskar bókmenntir ómetanlegt,“
Að verðlaununum standa Miðstöð íslenskra bókmennta, Bandalag þýðenda og túlka, Íslandsstofa, embætti Forseta Íslands og Bókmenntahátíð í Reykjavík og eru verðlaunin veitt annað hvert ár þeim einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti og með þeim árangri að aukið hafi hróður íslenskrar menningar á erlendum vettvangi.
Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík 29. og 30. apríl
Í kjölfar Bókmenntahátíðar í Reykjavík heldur Miðstöð íslenskra bókmennta Alþjóðlegt þýðendaþing í Reykjavík dagana 29. og 30. apríl og fer þingið fram í Veröld – húsi Vigdísar. Markmið Miðstöðvar íslenskra bókmennta með þýðendaþingi hér á landi er að efla og treysta tengslin við starfandi þýðendur á erlend tungumál og sýna í verki hve mikils metin þeirra vinna er, en þýðendur bókmennta á erlend mál eru ómissandi sendiherrar íslenskra bókmenntanna og okkar besta leið til að auka hróður þeirrra um heim allan.
Nítján þýðendum, sem þýða úr íslensku á 11 mismunandi tungumál, hefur verið boðin þátttaka í þinginu. Tungumál þátttakenda eru: pólska, tékkneska, norska, sænska, danska, enska, rússneska, lettneska, eistneska, ítalska og spænska. Dagskrá þingsins er fjölbreytt, bæði í formi fyrirlestra og vinnustofa sem fram fara í Veröld - húsi Vigdísar og móttökum, vettvangsheimsóknum, fundum með höfundum, sérfræðingum og útgefendum. Einnig tóku þýðendurnir virkan þátt í Bókmenntahátíð og styrktu þar tengsl sín við íslenskt bókmenntalíf.
Miðstöð íslenskra bókmennta sér um undirbúning og framkvæmd þýðendaþingsins, samstarfsaðilar þeirra eru Reykjavík bókmenntaborg UNESCO í félagi við Félag íslenskra bókaútgefenda, Bókmenntahátíð í Reykjavík, Rithöfundasamband Íslands, Bandalag þýðenda og túlka og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.