Fjarsamband við Nanjing

Nanjing í Kína er ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Borgin býður upp á óvenjulega „gestadvöl“ fyrir rithöfunda frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO í ár þar sem um fjarprógramm er að ræða í ljósi Covid-19.

Höfundamiðstöðin í Nanjing heldur utan um verkefnið sem felst í rafrænum viðburðum, leiðsögnum, kynningum og samtölum við kínverska rithöfunda og annað bókmenntafólk. Dagskráin verður sniðin að hverjum gestahöfundi fyrir sig. Hún fer fram á tímabilinu 20. október til 20. desember 2020 en dagsetningar geta þó átt eftir að hnikast til.

Umsækjendur velja sér 4 – 5 viðburði af þeim sem eru í boði og Höfundamiðstöð Nanjing setur í framhaldinu upp dagskrá í samráði við viðkomandi höfund.

Umsóknarfrestur er til 17. september og sendast umsóknir til wangtaotao@njliterature.org með afriti til yuan.lilas@qq.com og ray.bai@njliterature.org.

Meðal rafrænna dagskrárliða sem velja má úr eru heimsóknir Bókasafnið í Nanjing sem er þriðja stærsta bókasafn í Kína, heimsóknir í ólíkar bókaverslanir, m.a. Librarie Avant-Guard, bókmenntadagskrár með mismunandi þemum og einnig er boðið upp á samtöl við kínverska höfunda og annað bókmenntafólk. Loks eru svo leiðsagnir um söfn í Nanjing og aðrar menningargöngur.

Sjá nánari lýsingu á dagskrárliðum hér á ensku