Bókmenntahátíð í Reykjavík

Það er einstaklega gleðilegt að segja frá því að Bókmenntahátíð í Reykjavík verður sett miðvikudaginn 8. september með pompi og prakt og stendur til laugardagsins 11. september. Hátíðina átti upphaflega að halda í vor og er bókmenntaáhugafólk því væntanlega orðið spennt að geta loks komið saman í þeirri veislu sem þessi alþjóðlega bókmenntahátíð ávallt er. 

Bókmenntahátíð er hátíð lesenda, höfunda, útgefenda og annars bókmenntafólks. Hún hefur verið haldin að jafnaði annað hvert ár allt frá árinu 1985 og er því haldin í fimmtánda sinn þetta árið. Von er á fjölda höfunda, en líka útgefendum og blaðafólki sem koma víðs vegar að til þess að taka þátt, hitta lesendur, fylgjast með nýjum vendingum í bókaheiminum og taka púlsinn á spennandi íslenskum höfundum.

Nálægð lesenda og höfunda

Galdur Bókmenntahátíðar í Reykjavík felst ekki hvað síst í nálægð lesenda og höfunda. Hátíðin er þeirra og hér gefst höfundum einstakt tækifæri að hitta fyrir lesendur sína og lesendur geta hitt höfunda verka sem þeir þekkja og kynnst nýjum. Höfundar sem tekið hafa þátt í Bókmenntahátíð í Reykjavík í gegnum tíðina hafa talað um þessa nánd við áhugasama lesendur sem einn af hápunktum Íslandsheimsóknar sinnar.

Sem fyrr er ókeypis inn á alla viðburði hátíðarinnar og þeir öllum opnir. Dagskráin, sem fer fram í Iðnó, Norræna húsinu og víðar, verður kynnt nánar á samfélagsmiðlum og heimasíðu hátíðarinnar fljótlega. 

Bókmenntahátíð í Reykjavík nýtur stuðnings frá Reykjavíkurborg, Bókmenntaborg UNESCO, Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Norræna húsinu, Félagi íslenska bókaútgefenda, Miðstöðvar íslenskra bókmennta auk annarra.

Gestir á hátíðinni í ár

Höfundar á hátíðinni í ár koma frá fjölda landa og hafa sumir tengsl við fleiri en eitt: Íslandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kanada, Sýrlandi, Þýskalandi, Bosníu og Hersegóvínu, Tyrklandi, Frakklandi, Marokkó, Sviss og Póllandi. 

Þess má geta að samhliða hátíðinni verður Ársfundur Bókmenntaborga UNESCO haldinn í Reykjavík en meðal borga í samstarfsnetinu eru borgir í heimalöndum nokkurra höfunda. Auk Reykjavíkur eru það borgirnar Lillehammer í Noregi, Iowa City og Seattle í Bandaríkjunum, Québec City í Kanada, Heidelberg í Þýskalandi, Angouleme í Frakklandi og Kraká og Wroclaw í Póllandi.

Eftirtaldir höfundar eru gestir Bókmenntahátíðar að þessu sinni: 

Patrik Svensson

Sænski menningarblaðamaðurinn Patrik Svensson býr með fjölskyldu sinni í Malmö. Fyrsta bók hans, Álabókin: Sagan um heimsins furðulegasta fisk kom út í Svíþjóð 2019 og sló samstundis í gegn enda afar óvenjuleg að mörgu leyti. Í bókinni fjallar Svensson um álinn annars vegar og samband sitt og föður síns hins vegar.  Bókin vann til August-verðlaunanna sama ár, helstu bókmenntaverðlauna Svíþjóðar. Bókin vakti mikla athygli um heim allan og var þýdd á fjölda tungumála. Benedikt bókaútgáfa gaf Álabókina út í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur árið 2020.

Barbara Demick

Barbara Demick er margverðlaunaður bandarískur blaðamaður, þekkt fyrir greinar sínar um mannréttindamál og efnahags- og samfélagslegt umrót í Austur-Evrópu og Asíu. Bók hennar Engan þarf að öfunda sem fjallar um ástandið í Norður-Kóreu og vakti heimsathygli kom út í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur. Nýverið kom út hjá Angústúru bókin Að borða Búdda: Líf og dauði í tíbetskum bæ í þýðingu Ugga Jónssonar en í henni fjallar Demick um menningu Tíbeta, hvað það þýðir raunverulega að vera Tíbetbúi í nútímanum og reyna að varðveita menningu sína, trú og tungumál fyrir óstöðvandi ofurvaldi, gripdeildum þess og viðvarandi kúgun.

Nina Wähä

Nina Wähä er margt til lista lagt en fyrir utan að vera rithöfundur starfar hún einnig sem leikkona og syngur í indie-hljómsveitinni Lacrosse. Bækur hennar hafa vakið mikla athygli og unnið til fjölda verðlauna. Bók hennar Ættarfylgjan kom út í íslenskri þýðingu Tinnu Ásgeirsdóttur árið 2020 og sló í gegn meðal íslenskra lesenda. Sagan er stór fjölskyldusaga og sögusviðið er nyrstu landamæri Finnlands og Svíþjóðar. Bókin er margverðlaunuð í Svíþjóð og hafa selst meira en 100.000 eintök af henni.

Sofi Oksanen

Sofi Oksanen er meðal þekktustu höfunda Finnlands. Hún sló í gegn fyrir þriðju skáldsögu sína, Puhdistus (2007) eða Hreinsun, sem var gefin út íslenskri þýðingu Sigurðar Karlssonar. Hreinsun vann til allra helstu bókmenntaverðlauna Finnlands og ýmissa alþjóðlegra verðlauna, svo sem Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, frönsku FNAC-verðlaunana og Femina-verðlaunanna. Árið 2013 veitti sænska akademían Oksanen Norrænu bókmenntaverðlaunin. Verk hennar hafa verið þýdd á yfir 40 tungumál og selst í milljónum eintaka. Í heimsfaraldrinum sýndi Oksanen á sér nýjar hliðar og framleiddi matreiðsluþætti á Instragram-reikningi sínum.

Khaled Khalifa

Sýrlenski rithöfundurinn, skáldið og handritshöfundurinn Khaled Khalifa býr og starfar í Damaskus, en er fæddur í litlum bæ rétt utan við Aleppo. Hann lærði lögfræði við háskólann í Aleppo og var einn af stofnendum bókmenntatímaritsins Aleph, en útgáfa þess var bönnuð af sýrlenskum stjórnvöldum. Khalifa hefur verið gagnrýninn á sýrlensk stjórnvöld og tók þátt í arabíska vorinu. Khalifa er stórtækur höfundur og hefur fyrir þrjú verk fengið tilnefningar til arabísku Man-Booker verðlaunanna. Fimmta skáldsaga Khalifa, Al-mawt 'amal shaq (2016) var gefin út á fjölda tungumála. Íslensk þýðing Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur á bókinni, Dauðinn er barningur, kom út 2019.

Saša Stanišić

Saša Stanišić er bosnísk-þýskur rithöfundur, fæddur í Visegrad í Bosníu og Hersegóvínu. Hann hefur verið búsettur í Þýskalandi frá árinu 1992, þangað sem hann kom sem á flótta undan Bosníustríðinu ásamt fjölskyldu sinni. Fyrsta bók hans, Hermaður gerir við grammófón, kom út í Þýskalandi árið 2006 og vann til fjölda verðlauna þar í landi og víðar. Hún hefur verið þýdd á yfir 30 tungumál, meðal annars á íslensku árið 2007 í þýðingu Bjarna Jónssonar. Sama ár heimsótti höfundur Bókmenntahátíð í Reykjavík. Árið 2019 vann Stanišić til þýsku bókmenntaverðlaunanna fyrir skáldsöguna Herkunft en hún kom einmitt út undir heitinu Uppruni í þýðingu Elísu Bjargar Þorsteinsdóttur 2021.

Elif Shafak

Elif Shafak er tyrkneskur rithöfundur, fræðikona og baráttukona fyrir réttindum kvenna, minnihlutahópa og málfrelsi. Hún hefur gefið út sautján bækur, þar á meðal ellefu skáldsögur og hafa skrif hennar verið þýdd yfir á nær fimmtíu tungumál. Shafak er margverðlaunaður höfundur. Hún hefur skrifað og talað opinberlega um málefni svo sem framtíð Evrópu, Tyrklands og Mið-Austurlanda, lýðræði og kvenréttindi. Shafak hefur tvisvar haldið fyrirlestra á TED Global og er meðlimur alþjóðlegs ráðs um skapandi hagkerfi í Davos. Bók hennar 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld kom nýverið út í íslenskri þýðingu Nönnu Þórsdóttur.

Leila Slimani

Metsöluhöfundurinn og blaðamaðurinn Leila Slimani hefur verið talskona málfrelsis og kvenréttinda í Frakklandi og Marokkó. Hún er höfundur fimm bóka. Skáldsaga hennar Chanson douce (Barnagæla, 2016) vakti heimsathygli, var þýdd á tugi tungumála og var sama ár valin ein af 10 bestu bókum ársins af The New York Times. Slimani fékk fyrir hana verðlaunin Goncourt-verðlaunin, en hún er einnig handhafi La Mamounia-verðlaunanna fyrir skáldsöguna Adèle. Slimani er persónulegur fulltrúi Emmanuel Macron fyrir kynningu á frönsku máli og menningu og hefur verið nefnd sem ein áhrifamesta manneskja Frakklands af tímaritinu Vanity Fair þar í landi. Nýverið kom út skáldsagan Í landi annarra í þýðingu Friðriks Rafnssonar og í haust er væntanleg í íslenskri þýðingu Irmu Erlingsdóttur Kynlíf og lygar: Samfélagseymd Marokkó.

Vigdis Hjorth

Rithöfundurinn Vigdis Hjorth er ein sterkasta rödd norskra samtímabókmennta. Hún ólst upp í Osló og lærði heimspeki, bókmenntafræði og stjórnmálafræði. Hún hóf rithöfundarferil sinn með barnabókaskrifum árið 1983 en árið 1987 gaf hún út sína fyrstu bók fyrir fullorðna. Eitt þekktasta verk Hjorth er skáldsagan Arv og miljö frá árinu 2016, sem vakti athygli og samtal um siðferði og áhrif þess að afmá línuna milli skáldskapar og raunverulegra atburða í list. Hjorth hefur unnið til fjölda verðlauna og meðal annars verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og National Book Award.

Helene Flood

Helene Flood kom sem stormsveipur inn á bókamarkað með fyrstu skáldsögu sinni, Þerapistanum árið 2019 sem jafnframt naut mikillar velgengni á Íslandi í þýðingu Höllu Kjartansdóttur og var valin besta þýdda glæpasagan. Flood er menntaður sálfræðingur og starfar sem slíkur í Osló, þar sem hún býr með eiginmanni sínum og börnum. Flood hlaut Mauritz Hansen glæpasagnaverðlaun í flokknum frumraun ársins fyrir Þerapistann og hefur útgáfuréttur að bókinni hefur verið seldur til um þrjátíu landa. Önnur bók Flood, Elskeren, kom út í Noregi fyrr á þessu ári.

Joachim B. Schmidt

Joachim B. Schmidt er upprunalega frá Grisons í Sviss, en hefur búið og starfað í Reykjavík frá árinu 2007. Hann er blaðamaður og höfundur þriggja skáldsagna og fjölmargra smásagna. Nýjasta bók Joachims Schmidt Kalmann kom út á þýsku árið 2020 og hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Bókin er morðgáta og um leið heillandi lýsing á smábæjarsamfélagi. Sögusviðið er Raufarhöfn og sagan er sögð með rödd hins einstaka Kalmanns sem minnir stundum á Forrest Gump en sagan sjálf vekur hugrenningatengsl við framleiðslu Coen-bræðra. Bókin er væntanleg í þýðingum á arabísku, ensku, frönsku, slóvakísku, spænsku og einnig á íslensku í þýðingu Bjarna Jónssonar.

Kristof Magnusson

Kristof Magnusson er þýsk-íslenskur rithöfundur og þýðandi sem búsettur er í Berlín þekktur fyrir skáldsögur, leikrit, smásögur og greinar sínar. Kristof hefur þýtt fjölda íslenskra rithöfunda á þýsku og einnig Íslendingasögur. Fyrsta skáldsaga Kristofs Das war ich nicht var tilnefnd til Þýsku bókmenntaverðlaunanna og þýdd á fjölda tungumála, meðal annars frönsku, ítölsku, og víetnömsku. Íslensk útgáfa bókarinnar, Það var ekki ég, kom út í þýðingu Bjarna Jónssonar. Eitt þekktasta verk Kristofs, leikritið Männerhort, hefur verið sett upp í yfir 100 útgáfum um gjörvalla Evrópu, meðal annars sem útvarpsleikrit á Rás 1, einnig í þýðingu Bjarna Jónssonar og leikstjórn Lárusar Ýmis Óskarssonar. Kvikmynd með sama titli sem byggð var á leikritinu kom út árið 2014. Nýjasta bók Kristofs er Ein Mann der Kunst.

Nadja Spiegelman

Nadja Spiegelman er rithöfundur og ritstjóri. Hún var áður vefritstjóri The Paris Review og vinnur nú í undirbúningi nýs tímarits, Astra Quarterly, sem mun fjalla sérstaklega um alþjóðlegar bókmenntir. Spiegelman er höfundur myndskreyttra verka á borð við Lost in NYC, auk endurminningabókarinnar I'm supposed to protect you from All This, sem fjallar um formæður hennar og skeikulleika minnis.

Þórarinn Eldjárn

Þórarinn Eldjárn er einn ástsælasti rithöfundur þjóðarinnar meðal barna og fullorðinna. Hann á langan og farsælan feril að baki, en fyrsta bók hans Kvæði kom út 1974 og skipta útgefnar bækur hans nú tugum. Þórarinn hefur gefið út verk í flestum greinum bókmennta: ljóðabækur, söngtexta, smásögur, skáldsögur, söguleg verk, leikrit og þýðingar. Þekktastur er Þórarinn líklega fyrir ljóðabækur sínar, en texta Þórarins geta flestir íslendingar eflaust þekkt af töluvert löngu færi. Hann leikur sér með hið hefðbundna ljóðform og hefur skrifað talsvert af hnyttnum og skemmtilegum ljóðabókum fyrir börn. Sigrún, systir Þórarins, myndskreytir flestar barnabóka hans.

Þórarinn hefur hlotið hinar ýmsu viðurkenningar fyrir ritstörf sín og var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2008.

María Elísabet Bragadóttir

María Elísabet Bragadóttir útskrifaðist úr heimspeki frá Háskóla Íslands, hefur fengist við pistlaskrif og lesið sögur sínar og hugvekjur í útvarp. Fyrsta bók Maríu er smásagnasafnið Herbergi í öðrum heimi, sem kom út hjá Unu útgáfuhúsi árið 2020. Sú bók fékk fádæma góðar viðtökur hjá lesendum jafnt sem gagnrýnendum sem hrósuðu bókinni í hástert fyrir hárfínt skopskyn, hugmyndauðgi og þroskaðan stíl. María Elísabet vinnur nú í annarri bók sinni, skáldsögu í fullri lengd. 

Sigrún Pálsdóttir

Sigrún Pálsdóttir lauk doktorsprófi í hugmyndasögu frá Oxford árið 2001. Að námi loknu stundaði hún kennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands, en frá árinu 2007 hefur verið sjálfstætt starfandi rithöfundur og ritstjóri. Sigrún er höfundur bókanna Þóra biskups og raunir íslenskrar embættismannastéttar, Sigrún og Friðgeir: ferðasaga, Kompa og Delluferðin. Verk hennar hafa verið tilnefnd til ýmissa verðlauna, meðal annars Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Fyrr í ár hlaut Sigrún bókmenntaverðlaun Evrópusambandsins fyrir Delluferðina.

Alexander Dan

Fyrsta skáldsaga Alexanders Dan kom út árið 2014 og skipaði hann sér þá strax sess sem einn helsti furðusagnahöfundur landsins. Alexander er ritstjóri og útgefandi tímaritsins Furðusögur, sem fjallar um fantasíubókmenntir og vísindaskáldskap. Samhliða skrifum og textavinnu er Alexander söngvari hljómsveitarinnar Carpe Noctem. Bók hans, Hrímland, hefur komið út bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi auk íslensku. Alexander er einn höfunda í afmælisriti Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, Erindi: Póetík í Reykjavík, sem kemur út á Bókmenntahátíð í ár í tengslum við tíu ára afmæli Bókmenntaborgarinnar. 

Halla Þórlaug Óskarsdóttir

Halla Þórlaug er menntuð í bæði mynd- og ritlist. Hún hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, þar sem hún hefur verið þáttastjórnandi og sinnt menningarumfjöllun. Útgefin verk Höllu eru af ýmsum toga, leikrit, ljóð, smásögur og ein barnabók sem hún myndskreytti einnig. Fyrir ljóðsögu sína Þagnarbindindi hlaut Halla Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2020 og Maístjörnuna 2021. Sviðsverk Höllu Þórlaugar og Ásrúnar Magnúsdóttur Ertu hér? er á dagskrá Borgarleikhússins haustið 2021.

Margrét Lóa Jónsdóttir

Fyrsta bók Margrétar Lóu, ljóðabókin Glerúlfar, kom út árið 1985, en síðan þá hefur hún gefið út 10 ljóðabækur auk einnar skáldsögu. Margrét Lóa hefur fengist við kennslu í skapandi skrifum, þáttagerð, ritstjórn, myndlist, hönnun bókverka og ljóðaþýðingar. Auk þess hefur hún starfrækt listagalleríið Marló og forlag undir sama nafni. Margrét Lóa hlaut viðurkenningu frá Bókasafnssjóði fyrir ritstörf árið 2002 og frá Fjölíssjóði Rithöfundasambands Íslands árið 2005.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir

Bergþóra Snæbjörnsdóttir sló í gegn með hinni umtöluðu skáldsögu Svínshöfuð árið 2019 og hlaut fyrir hana Fjöruverðlaunin í flokki fagurbókmennta. Áður hafði hún vakið mikla athygli fyrir ljóðabókina Flórída. Bergþóra hefur komið að vinnu við kvikmyndahandrit, heimildarmyndagerð, bókaútgáfu og sinnt verkefnastjórnun á sviði lista og menningar auk þess að vera helmingur gjörningatvíeykisins Wunderkind Collective.

Ingólfur Eiríksson

Fyrsta ljóðabók Ingólfs Eiríkssonar, Línuleg dagskrá, var gefin út 2018 af Partus. Nýverið kom út eftir hann bókverkið Klón: eftirmyndasaga. Klón vakti mikla athygli en í þessari myndskreyttu ljóðsögu er ævi klónahundsins Samsonar Ólafssonar Moussaieff rakin á fallegan og frumlegan hátt. Ingólfur hefur áður birt ljóð í Tímariti Máls og menningar og Fríyrkjunni I ásamt því að hafa flutt pistla og skrif sín í útvarpi. Hann var meðal þýðenda verkanna Doktor Fástus í myrku ljósi eftir Gertrude Stein (sýnt á Herranótt 2013) og Sími látins manns eftir Söruh Ruhl (sýnt á Listahátíð í Reykjavík 2016). Ingólfur hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta í ár fyrir Stóru bókina um sjálfsvorkunn sem væntanleg er til útgáfu í haust.

Gerður Kristný

Gerður Kristný er stórtækur penni og einn af ástsælustu höfundum Íslands. Hún hefur sent frá sér bækur af ýmsum toga, barnabækur, skáldsögur, smásögur og viðtalsbók, svo fátt eitt sé nefnt, en verk hennar skipta tugum. Þekktust er hún fyrir ljóðabækur og -bálka. Gerður hefur unnið til margvíslegra verðlauna, meðal annars voru henni veitt Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndin af pabba – Saga Thelmu, og tók hún árið 2020 við Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar, sem veitt eru þeim sem hefur með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn. Gerður Kristný var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir ljóðabækurnar Höggstað og Sálumessu, og hlaut þau verðlaun fyrir Blóðhófni, sem jafnframt var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Gerður er einn höfunda í afmælisriti Reykjavíkur bókmenntaborgar UNESCO, Erindi: Póetík í Reykjavík, sem kemur út á Bókmenntahátíð í ár í tengslum við tíu ára afmæli Bókmenntaborgarinnar. 

Mao Alheimsdóttir

Mao Alheimsdóttir hlaut Nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2021 fyrir skáldsöguna Veðurfregnir og jarðarfarir, sem er hennar fyrsta bók. Skrif hennar hafa þó áður birst á opinberum vettvangi, meðal annars í Tímariti Máls og menningar. Mao er frá Póllandi og skrifar á íslensku. Hún hefur í skrifum sínum meðal annars fjallað um eigin uppruna. Hún er starfandi listakona og hefur komið að ýmsum sviðsverkum, meðal annars Ástarbréf til Kantors og Ég kem alltaf aftur.

Sverrir Norland

Sverrir Norland hefur sinnt margbreytilegum störfum á sviði bókmennta: skrif, þýðingar, fyrirlestra og bókmenntagagnrýni og hefur gefið út ljóðabækur, smásögur og skáldsögur í fullri lengd. Sverrir rekur útgáfuna AM forlag og er reglulegur gagnrýnandi hjá Kiljunni. Ellefta bók hans, Stríð og kliður vakti athygli fyrir persónulega nálgun að stórum málefnum samtímans: tækni, sköpun og loftslagsvánni.

Egill Bjarnason

Egill Bjarnason er blaðamaður og höfundur bókarinnar How Iceland Changed the World: The Big History of a Small Island sem kom út hjá Penguin Books árið 2021. Egill fjallar um Ísland fyrir fréttastofu AP og skrifar reglulega fyrir The New York Times, Lonely Planet og Hakai Magazine. Áður en Egill fjallaði um Ísland á heimsvísu fjallaði hann um heiminn á íslenskum miðlum og birti þar greinar og myndir frá Afghanistan, Úganda, og Vestur-Afríku. Egill er með MA gráðu í fjölmiðlun frá University of California, Santa Cruz. Hann kennir nú við Háskóla Íslands.

Eliza Reid

Eliza Reid er höfundur bókarinnar Secrets Of The Sprakkar: Iceland's extraordinary women and how they are changing the world sem væntanleg er til útgáfu á íslensku seinna í haust í þýðingu Magneu Matthíasdóttur. Bókin er jafnframt væntanleg á ensku á næsta ári. Eliza Reid er meðstofnandi Iceland Writers Retreat og sinnir fjölmörgum bókmenntatengdum verkefnum í hlutverki sínu sem forsetafrú.