Barnabókaverðlaun Reykjavíkur afhent

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar voru veitt í Höfða í dag, miðvikudaginn 28. apríl, og er þetta annað árið í röð sem það er gert við nokkuð óvenjulegar aðstæður vegna Covid-19. Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, afhenti höfundunum verðlaunin í Höfða.

Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar eru veitt í þremur flokkum bóka fyrir börn og ungmenni, flokki frumsaminna bóka, flokki myndlýsinga og flokki þýðinga.

Verðlaunahafar eru Snæbjörn Arngrímsson fyrir frumsamda bók, Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf, Freydís Kristjánsdóttir fyrir myndlýsingu í bókinni Sundkýrin Sæunn og Jón St. Kristjánsson í flokknum þýðingar fyrir þýðingu sína á Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3

Verðlaunin eru elstu barnabókverðlaun á Íslandi en þau voru fyrst veitt sem Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur árið 1973. Árið 2016 voru Dimmalimm verðlaunin og Barnabókaverðlaun Reykjavíkur sameinuð og urðu flokkarnir þá þessir þrír. Verðlaunaféð er 350.000 kr. í hverjum flokki.

Í ár fékk dómnefndin 116 bækur til skoðunar. Fimm bækur voru tilnefndar í hverjum flokkanna þriggja og nú er ljóst hvaða þrjár bækur hljóta verðlaunin í ár. Dómnefnd verðlaunanna skipuðu þau Tinna Ásgeirsdóttir, sem var formaður, Ásmundur Kristberg Örnólfsson, Guðrún Lára Pétursdóttir, Karl Jóhann Jónsson og Valgerður Sigurðardóttir.

Umsögn dómefndar um verðlaunabækurnar:

Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf eftir Snæbjörn Arngrímsson. Vaka-Helgafell gefur út.

Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er önnur bók Snæbjörns Arngrímssonar um vinina Millu og Guðjón G. Georgsson. Sagan gerist sem fyrr í Álftabæ, ósköp venjulegu þorpi þar sem óvenjulegir atburðir eiga sér stað. Fléttan er fjörleg og kemur þar margt við sögu, svo sem bófar og óupplýst rán, glæsileg furstynja sem flytur í bæinn, hvarf Dodda bekkjarbróður barnanna og ráðgáta um dularfulla froskastyttu. Í söguframvindunni er ekki allt sagt berum orðum heldur gefið í skyn svo lesandinn fær úr miklu að moða, um vinina tvo og aðstæður þeirra.

Höfundurinn fer ákaflega létt með að véla lesandann inn í söguheiminn með lágstemmdum stíl sínum og meitlaðri persónusköpun. Tónninn er bjartur og innilegur en það er ekki hvað síst persónusköpunin, hin einstaka Milla, og sönn vinátta þeirra Georgs sem dýpkar frásögnina og heldur lesendum hugföngnum. Snæbjörn ber virðingu fyrir ungum lesendum og skilur margt eftir handa þeim til að ráða úr textanum og lesa á milli línanna. En fyrir þá sem eru styttra á veg komnir standa fléttan og spennan fyllilega fyrir sínu og bókin á því erindi til margra. Dularfulla styttan og drengurinn sem hvarf er fágað verk sem skilur eftir löngun hjá lesanda að fylgja Millu og Guðjóni á vit nýrra ævintýra.

Sundkýrin Sæunn eftir Freydísi Kristjánsdóttur og Eyþór Jóvinsson. Sögur gefur út.

Sundkýrin Sæunn byggir á sönnum atburðum og segir frá því þegar leiða átti kúna Sæunni til slátrunar en kýrin sleit sig lausa og synti yfir Önundarfjörð. Það getur verið erfitt að átta sig á hvað dýr raunverulega skilja og skynja, en sagan af sundkúnni Sæunni fær lesandann sannarlega til að hugleiða það. Myndir Freydísar eru listilega unnar, hrífandi og vinna vel með textanum og hvort tveggja vísar á skemmtilegan hátt í sígildar íslenskar barna- og þjóðsögur. Myndstíllinn er í raunsæisstíl, unninn með vatns-/gvasslitum, og ber færni Freydísar vitni. Hún hefur frábært vald á þeim miðli sem hún hefur valið sér og um leið mikla næmni við að túlka dýr og menn. Texti Eyþórs er lipur og á vönduðu máli en jafnframt skýr og aðgengilegur fyrir börn og líkt og myndlýsingarnar hefur hann yfir sér klassískt yfirbragð frásagnar og þjóðsögulegan blæ.

Bókin í heild sinni er góður gripur á fallegum, möttum pappír sem hentar vel vatnslitamyndum Freydísar. Hún er í broti sem er sjaldnar notað í myndabókum en á vel við þegar texti og mynd eru aðskilin, þannig fá myndirnar betra rými til að koma umhverfi og frásögn til skila. Hér er sannarlega á ferðinni tímalaus klassík sem tengir brot úr lífi landsbyggðar yfir í hjörtu barna á hvaða tíma sem er hvort sem er í borg eða bæ.

Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3: Endalok alheimsins eftir Finn-Ole Heinrich og Rán Flygenring. Þýðandi: Jón St. Kristjánsson. Angústúra gefur út.

Ótrúleg ævintýri Brjálínu Hansen 3: Endalok alheimsins er þriðja og síðasta bókin í flokknum um hina skapstóru Pálínu Klöru Lind Hansen og foreldra hennar. Þegar hér er komið sögu hafa veikindi mömmu Pálínu tekið sig upp og fljótlega verður ljóst í hvað stefnir. Í bókinni er tekist á við ýmis þung málefni; fjallað um líf og ábyrgð barna sem þurfa að sinna veikum foreldrum, um ástvinamissi, ótta og söknuð. Um leið er þetta saga um kærleika og þau órjúfanleg bönd sem tengja okkur hvert við annað, um vináttuna, heitt kakó, bréfskutlur og allt annað sem gerir lífið þess virði að lifa því þótt það sé stundum svona hræðilega sorglegt. Mannleg tilvist er sett í samhengi við allt frá víðáttum alheimsins til smæsta rykkorns og útkoman lætur engan ósnortinn. Teikningar Ránar eru veigamikill þáttur í frásögninni og segja söguna gjarnan til jafns við textann og eiga stóran þátt í að glæða frásögnina lífi og léttleika.

Þýðandinn, Jón St. Kristjánsson, glímir við afar fjölbreytt verkefni. Ekki aðeins þarf hann að búa til skapandi staðarheiti á borð við Brjálivíu og Plastgerði og nýyrði eins og Blappír og Brús-ís, hann þarf líka að þýða fjölda uppskrifta og myndasagna og halda takti í iðandi frásögn sem lýtur sínum eigin lögmálum. Allt ferst þetta honum afar vel úr hendi. Hann fangar einstök blæbrigði verksins og skilar bæði sorgum og sigrum Brjálínu til íslenskra lesenda á lipru og leikandi máli svo unun er að lesa.

 

Tilnefndar bækur

Eftirtaldar bækur voru tilnefndar til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar 2021 auk verðlaunabókanna:

Bækur frumsamdar á íslensku
Blokkin á heimsenda eftir Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Mál og menning gaf út.
Herra Bóbó, Amelía og ættbrókin eftir Yrsu Sigurðardóttur. Veröld gaf út.
Skógurinn eftir Hildi Knútsdóttur. JPV gaf út.
Vampírur, vesen og annað tilfallandi eftir Rut Guðnadóttur. Vaka-Helgafell gaf út.

Myndlýsingar í barnabók
Hestar eftir Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring. Angústúra gaf út.
Hvíti björn og litli maur eftir José Federico Barcelona og Sólrúnu Ylfu Ingimarsdóttur. Salka gaf út

Nóra eftir Birtu Þrastardóttur. Angústúra gaf út.
Sjáðu eftir Áslaugu Jónsdóttur. Mál og menning gaf út.

Þýddar bækur
Danskvæði um söngfugla og slöngur eftir Suzanne Collins. Þýðandi Magnea J. Matthíasdóttir. JPV gaf út.
Múmínálfarnir - Seint í nóvember eftir Tove Jansson. Þýðandi Þórdís Gísladóttir. Mál og menning gaf út.
Ókindin og Bethany eftir Jack Meggitt-Phillips. Þýðandi Guðni Kolbeinsson. JPV gaf út.
Villinorn 4 og 5 - Blóðkindin og Fjandablóð eftir Lene Kaaberbøl. Þýðandi Jón St. Kristjánsson. Angústúra gaf út.


Reykjavík bókmenntaborg UNESCO hefur umsjón með verðlaununum líkt og öðrum bókmenntaverðlaunum Reykjavíkurborgar.