Alþjóðadagur ljóðsins

Líkt og síðustu ár halda margar af Bókmenntaborgum UNESCO upp á alþjóðadag ljóðsins í ár en UNESCO lýsti 21. mars alþjóðlegan ljóðadag árið 1999. Markmiðið er að vekja athygli á ljóðrænni tjáningu og fjölbreytileika tungumála heimsins.

Þema Bókmenntaborganna á ljóðadaginn í ár, að undirlagi Bókmenntaborgarinnar Granada á Spáni, er endurnýjun tengsla, ekki síst í ljósi þeirrar einangrunar sem margir hafa fundið fyrir á covid tímum. Þar í borg verða haldnir þrír viðburðir: einn þar sem upplestri 50 skálda er streymt frá Sacromonte hverfinu, ljóðaslamm í Háskólanum í Granada og loks er boðið upp á ljóðaþjónustu þar sem skáld lesa ljóð fyrir fólk í síma.

Að þessu sinni standa 22 aðrar Bókmenntaborgir UNESCO einnig fyrir viðburðum af ólíkum toga, m.a. Reykjavík.

Viðburðir í Reykjavík

Í Reykjavík hefur Bókmenntaborgin gert fjórar örstuttar ljóðastiklur út frá „Nokkrum verklegum æfingum í atburðaskáldskap“ eftir Sigurð Pálsson sem verða birtar á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar, sú fyrsta sunnudaginn 21. mars og svo hinar síðar í vikunni. Við fylgjum þessum stiklum eftir með stuttri grein um skáldið á vefnum okkar sem birtist í ljóðavikunni. Ljóðlínur eftir Sigurð verða hluti af götumynd nýrrar Tryggvagötu þegar endurgerð hennar lýkur í sumar og þar verður einnig skáldabekkur með upplestri úr verkum hans. Það er Bókmenntaborginni mikið gleðiefni að heiðra minningu og skáldskap þessa mikla borgarskálds með þessum hætti og stiklurnar nú í mars eru eins konar upptaktur að þessu stærra verkefni.

Þá opnar Bókmenntaborgin hlaðvarp á alþjóðadegi ljóðsins þar sem upplestur á skáldabekkjum í borgarlandinu verður aðgengilegur og eins er hægt að sjá fjölmargar ljóðastiklur sem Bókmenntaborgin hefur áður gert með íslenskum skáldum á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar, hér á vef hennar og YouTube. Bókmenntaborgin leggur þannig áherslu á upplifun á skáldskap í borginni og endurnýjaða sýn á og tengsl við borgina okkar á þessum ljóðadegi þegar vorið er rétt handan við hornið.

Að auki tekur Reykjavík þátt í rafrænni sýningu sem nýtt ljóðabókasafn í Manchester, Manchester Poetry Library, stendur fyrir en þar eru ljóðabækur frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO kynntar. Bækurnar tengjast allar heimaborginni efnislega á einhvern hátt, hvort sem er í stöku ljóði eða bókinni sem heild. Á sýningunni eru bækurnar Drápa eftir Gerði Kristnýju, Waitress in Fall eftir Kristínu Ómarsdóttur og Ljóð námu völd eftir Sigurð Pálsson ásamt bókum frá tólf öðrum Bókmenntaborgum.

Borgarbókasafn Reykjavíkur býður svo upp á Freyðandi ljóð í ljóðakaffi Kringlusafns í ljóðavikunni, fimmtudaginn 25. mars en þar koma fram skáldin Arndís Lóa Magnúsdóttir, Brynja Hjálmsdóttir og Dagur Hjartarson en gestgjafi er Júlía Margrét Einarsdóttir.

Dagskrá borganna

Auk Reykjavíkur og Granada taka eftirtaldar Bókmenntaborgir þátt með viðburðahaldi í ár: Bucheon, Dunedin, Edinborg, Heidelberg, Iowa City, Kraká, Kuhmo, Ljubljana, Lviv, Manchester, Mílanó, Nanjing, Notthingham, Óbidos, Odessa, Québec City, Seattle, Tartu, Ulyanovsk, Utrecht og Wonju bjóða upp á í tengslum við alþjóðadag ljóðsins.

Hér má sjá þá fjölbreyttu viðburði sem þessar borgir bjóða upp á en eðlilega eru margir þeirra rafrænir að þessu sinni.

Bucheon, S-Kóreu

Bucheon stendur fyrir ljóðameðferðarviku þar sem ljóð eftir sjö skáld verða birt á vefmiðlum daglega undir þemanu tengsl.

Dunedin, Nýja Sjálandi

Börn á aldrinum 6 – 8 ára taka þátt í ljóðasmiðjum í skólum borgarinnar. Verkefnið kallast City of Literature Primary Possibilities og er því stýrt af verðlaunaskáldinu Liz Breslin. Börnin yrkja saman ljóð sem verður hluti af verkefninu Possibilities sem Bókmenntaborgin Dunedin stendur fyrir.

Edinborg, Skotlandi

Á ljóðaslóð (Poetry Path) verður ljóðlist úr bókmenntasögu borgarinnar kynnt og vakin athygli á innbyrðis tengslum ljóðanna. Hvert ljóð sem verður birt á samfélagsmiðlum tengist ljóðinu sem fer á undan, annað hvort þematískt eða í gegnum skemmtilegar staðreyndir sem tengjast ljóðunum.

Heidelberg, Þýskalandi

Ljóðaunnendur í Heidelberg eiga von á góðu því þar í borg verður boðið upp á símtöl frá sautján ljóðskáldum þar sem skáldin lesa upp eigin ljóð. Fólk getur pantað símtal og verða hlustendur og skáldin pöruð saman af skipuleggjendum hjá Bókmenntaborginni. Verkefnið ber heitið Bei Anruf: Poesie.

Iowa City, Bandaríkjunum

Hlaðvarpsþættir um ljóðrænar slóðir í borginni og aðrar bókmenntaslóðir verða birtir á vef Bókmenntaborgarinnar Iowa City. Þeir eru opnir öllum sem vilja njóta.

Kraká, Póllandi

Í Kraká verða ýmsir viðburðir í tilefni dagsins, m.a. birt ávarp ljóðskálds og ljóðaviðburðir ársins framundan í Potocki Palace og á Miłosz ljóðahátíðinni kynntir. Nýr skjólborgarhöfundur innan ICORN verkefnisins kemur líka fram og ljóðum verður varpað á veggi í borginni.

Kuhmo, Finnlandi

Í Kuhmo verða birt ljóðavídeó þar sem skáld úr héraðinu eru kynnt. Efnið verður bæði á finnsku og ensku og er hægt að nálgast það á YouTube rás Bókmenntaborgarinnar Kuhmo.

Ljubljana, Slóveníu

Bókmenntaborgin í Slóveníu hefur látið gera þriggja klukkustunda vídeó með 21 ljóðskáldi þar sem skáldin lesa ljóð eftir sig sjálf og annað að auki. Hið hefðbundna 24 klukkustunda ljóðamaraþon sem jafnan er haldið á þessum degi hefur verið fært til haustsins.

Lviv, Úkraínu

Ljóð verða flutt frá fjórum bókasöfnum í borginni og geta allir tekið þátt með því að lesa ljóð sem tengjast þemanu endurnýjun tengsla. Þessu ljóðamaraþoni verður streymt á vefjum Bókmenntaborgarinnar og Borgarbókasafns Lviv.

Manchester, Bretlandi

Nýtt vídeó með ljóðaflutningi verður birt þar sem skáld lesa ljóð í borgarlandinu. Tvö ljóðanna eru ort sérstaklega af þessu tilefni en öll verða flutt í dyrum sem eru kennileiti í borginni. Bókmenntaborgin Manchester og Manchester Poetry Library standa að viðburðinum. Í framhaldinu eru skáld svo hvött til að yrkja ljóð sem fást á einhvern hátt um dyr sem gáttir. Sérstaklega er leitað að ljóðum sem gefa von á erfiðum tímum þar sem dyr verða tákn um hlið eða upphaf að nýju ferðalagi. Ljóðin verða birt á YouTube og samfélagsmiðlum.

Manchester Poetry Library, sem opnar innan skamms vekur líka athygli á ljóðabókum eftir skáld frá öðrum Bókmenntaborgum UNESCO sem tengjast heimaborgunum á einhvern hátt efnislega, m.a. bókum eftir íslensku skáldin Gerði Kristnýju, Kristínu Ómarsdóttur og Sigurð Pálsson. 

Mílanó, Ítalíu

Í Mílanó verður hægt að fylgjast með vefviðburðinum Poeti in paralello – Poetas en paralelo þar sem 60 gestaskáld, 25 frá Kúbu, 25 frá Ítalíu og 10 frá Spáni flytja ljóð á eigin móðurmáli. Myndverk sem eru innblásin af ljóðlistinni eru hluti af verkinu og verður hægt að fylgjast með þessum ljóðavídeóum á YouTube og Facebook síðu Bókmenntaborgarinnar Mílanó. Að auki verður útiviðburðurinn Liturgia (laica) della parole sem felur í sér hljóðláta göngu þar sem þögnin er rofin öðru hvoru með ljóðainnslögum. 

Nanjing, Kína

Í Nanjing verður hringborg með skáldum og gagnrýnendum þar sem rætt verður um gildi ljóðlistar í nútímanum, fléttað dansi, tónlist og ljóðaflutningi. Haldið verður upp á daginn í bókaverslunum, Nanjing háskóla, í skólum og í borgarlandinu.

Nottingham, Bretlandi

Bókmenntaborgin Notthingham og Trent háskóli halda upp á alþjóðadag ljóðsins með útgáfu vefritsins The Story of Us en þetta er safnrit með textum eftir þátttakendur í námskeiðinu Writing Reading and Pleasure (WRAP). WRAP birtir eitt ljóð á dag á netinu frá 1. – 21. mars ásamt vefstiklum frá höfundum. Skáldahópurinn Poets Against Racism stendur líka fyrir vefviðburði í tilefni dags gegn rasisma

Óbidos, Portúgal

Ljóðahátíðin í Óbidos stendur yfir í mánuð með ljóðaflutningi, smiðjum fyrir börn, útvarpsþáttum og hlaðvarpi. Fylgjast má með öllum viðburðum á YouTube

Odessa, Úkraínu

Í Odessa verður alþjóðadegi ljóðsins fagnað á alþjóðlegu bókmennta- og tónlistarhátíðinni Music of Words frá 19. – 22. mars.

Ouébec City, Kanada

Ljóðahátíðin Le Mois de la Poésie býður upp á hlaðvarp með ljóðaflutningi í mars. Hlaðvarpsþátturinn Amuse-bouches, spécial poési verður birtur 21. mars og hægt að nálgast hann á Facebook og YouTube

Seattle, Bandaríkjunum

Í Seattle verður deginum fagnað með borgarskáldinu Jourdan Imani Keith og skáldum sem skilgreina sig sem "womxn" á viðburðinum Womxn and Whales First, Poetry in a Climate of Change.

Tartu, Eistlandi

Í Tartu verður deginum fagnað með viðburði á netinu. Fólk er hvatt til að taka upp eigin ljóðalestur og senda Bókmenntaborginni. Öll tungumál eru velkomin og fólk getur tekið þátt hvaðan sem er í heiminum. Fjögur ný ljóðavídeó með skáldum frá Tartu verða einnig frumsýnd.

Ulyanovsk, Rússlandi

Í Ulyanovsk er fólki boðið upp á ljóðasendingar í tölvupósti. Íbúar hvar sem er í Rússlandi gátu óskað eftir að fá ljóð send til sín og var hægt að tilgreina þema og tungumál. Bókmenntaborgin Ulyanovsk og sjálfboðaliðar meðal bókmenntafræðinema völdu síðan viðeigandi ljóð. Þau 150 fyrstu sem óskuðu eftir ljóðum fá þessar skemmtilegu sendingar á ljóðadaginn.

Utrecht, Hollandi

Í Utrecht yrkir skáldið Yentl van Stokkum fyrstu þrjár línurnar í ljóði sem verður svo birt á alþjóðadegi ljóðsins 2022. Þann 21. hvers mánaðar fram að því birtir Bókmenntaborgin Utrecht þrjár nýjar ljóðlínur eftir skáld frá annarri Bókmenntaborg UNESCO þannig að úr verður keðjuljóð sem tekur á sig endanlega mynd eftir árið.

Wonju, S-Kóreu

Fimm skáld flytja eigin ljóð í vefstiklum. Ein stikla verður birt dag hvern í fimm daga ásamt myndlýsingu á Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar Wonju.