Vefir um bókmenntir

BÓKMENNTAVEFIR

Bókmenntagagnrýni.is

Tilgangurinn með vefnum er að safna saman bókmenntagagnrýni og umsögnum um íslenskar bækur á einn stað. Hugmyndin er að lesendur og áhugafólk, fræðimenn, nemendur, háskólastúdentar og fleiri geti flett upp bók og séð á einum stað allt sem hefur verið skrifað um hana, þ.e. gagnrýni sem birst hefur í blöðum, tímaritum og á vefsíðum.

Druslubækur og doðrantar

Bloggsíða þar sem konur með víðfeðman áhuga á bókmenntum skrifa um hugðarefni sitt. Fjallað er um gamlar sem nýjar bækur, bókmenntaumræðu og ýmislegt annað sem bókmenntunum tengist eftir því sem aðstæður og áhugi bjóða og andagiftin blæs littererum dömum í brjóst.

Hugrás

Vefrit Hugvísindastofnunnar Háskóla Íslands. Þar eru greinar um bókmenntir og menningarmál, myndskeið, veffyrirlestrar og fleira.

Konubókastofa

Markmið Konubókastofu, sem er staðsett á Eyrarbakka, er að halda til haga þeim ritverkum sem íslenskar konur hafa skrifað í gegnum tíðina. Um leið er markmið safnsins að verk þess séu aðgengileg þannig að hver og einn geti komið og fræðst um þau og höfunda þeirra. Á vef Konubókastofu má sjá hvaða höfunda og bækur safnið geymir. 

Lestrarklefinn

Lestrarklefinn er vefsíða með umfjallanir um bækur, bókmenntir og lestur á bókmenntaeyjunni Íslandi. Umfjallanir um bækur, skrifaðar af lesendum fyrir aðra lesendur. 

Miðstöð íslenskra bókmennta

Hlutverk Miðstöðvar íslenskra bókmennta er að efla bókmenningu á Íslandi, kynna íslenskar bókmenntir erlendis og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Á vef miðstöðvarinnar er m.a. að finna upplýsingar um styrki sem hún heldur utan um, kynningarstarf hennar, bæklinga um íslenskar bókmenntir í þýðingum og annað gagnlegt efni um íslenskar bókmenntir.

Ritið

Tímarit Hugvísindastofnunnar Háskóla Íslands.

Ritþing Gerðubergs og Borgarbókasafns

Menningarmiðstöðin Gerðuberg hefur staðið fyrir ritþingum um árabil. Þar veita rithöfundar innsýn í lif sitt og feril. Umræðum er stýrt af stjórnanda og tveimur spyrlum og einnig er lesið úr verkum höfundarins. Þingin eru hljóðrituð og þau síðan gefin út á bók. Ritþingin má nálgast á PDF-formi á vef Borgarbókasafns.

Starafugl

Vefur um bókmenntir og aðrar listgreinar með pistlum og greinum eftir ýmsa höfunda svo og ljóðum eftir fjölmörg skáld.

Skáld.is 

Konur skrifa um konur sem skrifa, vefur um kvennabókmenntir. 

Skírnir

Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags. Skírnir hefur komið út frá árinu 1827 og er elsta bókmenntatímarit landsins sem enn er í útgáfu. Á vef Hins íslenska bókmenntafélags er að finna fréttir af starfsemi félagsins og útgáfu. 

Tímarit Máls og menningar

Tímarit Máls og menningar kom fyrst út árið 1938 og hefur útgáfan verið óslitin síðan. Auk tímaritanna, sem koma út fjórum sinnum á ári, heldur TMM úti vefsíðu þar sem lesa má greinar úr ritinu, leikdóma og umsagnir um bækur.

 

Vefir um einstaka höfunda

Gunnar Gunnarsson

Á vef Skriðuklausturs, húss Gunnars Gunnarssonar í Fljótsdal, má fræðast um ævi og verk skáldsins.

Halldór Laxness

Gljúfrasteinn í Mosfellsdal var heimili og vinnustaður Halldórs Laxness og fjölskyldu hans í um hálfa öld. Hús skáldsins var opnað sem safn í september 2004 og á vefsíðu þess má nálgast ýmsar upplýsingar um Halldór og verk hans.

Halldór Laxness og Nóbelsverðlaunin

Menningardeild RÚV og Ljósmyndasafn Reykjavíkur halda úti vefsvæði sem er helgað Nóbelsverðlaunum 1955 þegar Halldór Laxness hlaut þau.

Hallgrímur Pétursson

RÚV heldur úti vefsvæði um Passísálma Hallgríms Péturssonar. Á vefnum má meðal annars finna texta eiginhandarrits Hallgríms, fornan og nýjan Passíusálmasöng, efni úr segulbandasöfnum Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Útvarpsins auk fróðleiks um Hallgrím og sálma hans.

Jóhannes úr Kötlum

Vefurinn Jóhannes hefur að geyma upplýsingar um ævi og verk Jóhannesar úr Kötlum. Í kynningu Silju Aðalsteinsdóttur á skáldinu á vefnum segir m.a.: „Ef velja ætti eitt skáld sem fulltrúa 20. aldar á Íslandi yrði það nærri því óhjákvæmilega Jóhannes úr Kötlum. Hann lifði mikla umbrotatíma í sögu og bókmenntum og um engan samtímamann hans í skáldahópi verður sagt með jafnmiklum sanni að hann hafi fundið til í stormum sinnar tíðar. Enginn fylgir heldur eins nákvæmlega þróun ljóðlistarinnar á öldinni.“

Jón Sveinsson, Nonni

Á vef Nonnahúss eru upplýsingar um Jón Sveinsson og verk hans. Nonnahús á Akureyri er safn sem helgað er minningu rithöfundarins.

Jónas Hallgrímsson

Landsbókasafn Íslands heldur úti vefsvæði með upplýsingum um Jónas Hallgrímsson og verk hans. 

Jónas Hallgrímsson, ljóðavefur

Mjólkursamsalan og Námsgagnastofnun standa saman að verkefni til að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar. Á vef verkefnisins má finna ljóð eftir íslensk skáld sem tengjast íslenskri náttúru og á vefsvæði Námsgagnastofnunnar má nálgast hugmyndir að því hvernig nota megi vefinn í kennslu.

Steinn Steinarr

Steinshús á Nauteyri við Ísafjarðardjúp er safn og fræðimannasetur um skáldið Stein Steinarr. Það var opnað 2015. Á vefnum um Stein má finna upplýsingar um hann og verk hans á íslensku og ensku. 

Þórbergur Þórðarson

Þórbergssetur í Suðursveit heldur úti vef um Þórberg og verk hans.