Sturlunga rituð

1214-1284

Sturlunga heitir svo eftir ætt afkomenda Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum, sem nefndir voru Sturlungar. Sturla Þórðarson (1214 – 1284) er talinn hafa lagt mest til ritunar Sturlungu en einnig hafa aðrir sagnaritarar komið að verkinu.

Sturlunga segir frá samtímaviðburðum eða nýliðnum viðburðum og er að því leyti ólík Íslendingasögum sem segja frá löngu liðnu fólki og atburðum. Sturlunga er samsett úr nokkrum sögum, en þær helstu eru Íslendinga saga, Þorgils saga og Hafliða, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Þórðar saga kakala, Þorgils saga skarða og Svínfellinga saga. Efnið er valdabarátta höfðingjaætta og endalok þjóðveldisins þegar Ísland gekkst Noregskonungi á hönd árið 1262.

Sturlunga hefur varðveist í tveimur skinnhandritum frá 14. öld, Króksfjarðarbók og Reykfjarðarbók, þó ekki í heild sinni, og seinni alda pappírsuppskriftum.

Sturlunga var fyrst gefin út með nútímastafsetningu 1988 í ritstjórn Örnólfs Thorssonar. Nokkrir samtímahöfundar okkar hafa sótt efni til sögunnar í sín skáldverk og má þar nefna Thor Vilhjálmsson og skáldsögur hans Sveigur (2002) og Morgunþula í stráum (1998) og Einar Kárason sem sækir efni skáldsagnanna Ofsi (2008) og Óvinafagnaður (2001) til Sturlungu.

Á vefnum handrit.is má skoða síður úr nokkrum útgáfum Sturlungu.

Ljósmynd: síða úr handriti AM 121 fol. (1630-1675).