Maístjarnan

Maístjarnan

2017

Ljóðaverðlaunin Maístjarnan veitt í fyrsta sinn. Rithöfundasamband Íslands og Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn standa saman að verðlaununum en hvatamaður að stofnun þeirra var skáldið Kári Tulinius og gaf hann þeim nafn. Verðlaunin eru veitt árlega. Sigurður Pálsson var fyrsti handhafi þeirra fyrir bókina Ljóð muna rödd og tók hann við verðlaununum þann 18. maí 2017 við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni. Bókin er síðasta ljóðabókin sem Sigurður sendi frá sér, en hann lést þann 19. september sama ár.

Í umsögn dómnefndar um verkið segir:

„„Hér af spássíu Evrópu“ heitir eitt ljóð í bókinni Ljóð muna rödd, bók sem er rík af röddum, ljósi, skuggum, nálægð og fjarlægð. Spássían getur á óvæntan hátt verið auðugt svæði og það lýsir vel skáldinu sem svo yrkir. Í þessari bók birtist auðugur ljóðheimur Sigurðar Pálssonar, skálds sem hefur sannarlega lagt sitt fram til endurnýjunar og krafts íslensks ljóðmáls. Ljóð muna rödd er sterk bók þar sem glímt er við stórar spurningar. Röddin í titlinum er áleitin, ljóðin eru myndræn, tregafull og magnþrungin, en eru jafnframt óður til lífsins og lífsgleðinnar.“