Ingunn Arnórsdóttir – fyrsta lærða konan á Íslandi

1100

Ingunn Arnórsdóttir var íslensk menntakona og kennari á 12. öld. Hún var á Hólum hjá Jóni biskupi Ögmundssyni og er fyrsta íslenska konan sem sögur fara af sem var menntuð í latínu og öðrum fræðum til jafns við pilta og kenndi þeim líka. Frá henni segir í sögu Jóns biskups:

„Þar var og í fræðinæmi hreinferðug jungfrú, er Ingunn hét. Öngum þessum var hún lægri í sögðum bóklistum, kenndi hún mörgum grammaticam og fræddi hvern er nema vildi; urðu því margir vel menntir undir hennar hendi. Hún rétti mjög latínubækur, svo að hún lét lesa fyrir sér, en hún sjálf saumaði, tefldi, eða vann aðrar hannyrðir með heilagra manna sögum, kynnandi mönnum guðs dýrð eigi aðeins með orðum munnnáms, heldr og með verkum handanna.”

Ásamt því að kenna prestsefnum latínu, stundaði Ingunn útsaum og er talið að hún hafi meðal annars saumað altarisklæði um heilaga Maríu og ævi St. Marteins. Bæði þessi klæði eru nú á erlendum söfnum.

Ingunn Arnórsdóttir hefur einnig verið nefnd meðal heimildarmanna Odds Snorrasonar munks á Þingeyrum að Ólafs sögu Tryggvasonar Noregkonungs.

Ingunnarskóli í Grafarholti í Reykjavík er kenndur við Ingunni Arnórsdóttur.