Halldór Laxness hlýtur Nóbelsverðlaunin

1955

Halldór Laxness hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum fyrir „litríkan skáldskap sem endurnýjað hefur íslenska frásagnarlist“, eins og segir í tilkynningu sænsku akademíunnar. Halldór er eini Íslendingurinn sem hlotið hefur verðlaunin til þessa.

Halldór (1902 – 1998) var afkastamikill höfundur og byrjaði snemma að skrifa, sína fyrstu bók gaf hann út árið 1919 aðeins sautján ára gamall. Það var þó með Vefaranum mikla frá Kasmír (1927) sem hann vakti verulega athygli, en skáldsagan er meðal þeirra verka sem talin eru marka upphaf íslenskra nútímabókmennta. Halldór skrifaði fimmtán skáldsögur, sumar í nokkrum hlutum, fimm leikrit, endurminningabækur, kvæði, greinasöfn og smásagnasöfn. Verk hans hafa verið þýdd á yfir fjörutíu tungumál og margar skáldsagna hans hafa verið settar á svið og þær kvikmyndaðar.

Sjá nánar á vef Nóbelsverðlaunanna.

Sjá einnig um Halldór Laxness og verk hans á vef Gljúfrasteins.