Árni Magnússon

1685

Árni Magnússon (1663 – 1730) tekur að safna handritum og heldur því áfram næstu fjóra áratugina. Árni fór til náms í Kaupmannahöfn um tvítugt og starfaði þar æ síðan þótt hann dveldi einnig langdvölum á Íslandi.

Handritin sem hann safnaði á Íslandi flutti hann til Danmerkur og þar varðveitti hann safn sitt. Hluti þess glataðist í stórbruna í Kaupmannahöfn árið 1728 en þó tókst að bjarga miklu, meðal annars flestum skinnhandritunum.

Árni ánafnaði Kaupmannahafnarháskóla safnið eftir dauða sinn og voru handritin varðveitt þar næstu aldirnar. Íslendingar börðust lengi fyrir því að fá handritin heim og gerðu loks saming við Dani um skiptingu safnsins árið 1961. Fyrstu handritin komu síðan aftur heim áratug síðar þegar varðskipið Vædderen lagðist að bryggju í Reykjavík með Flateyjarbók og Konungsbók Eddukvæða innanborðs.

Á vef Stofnunnar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum má lesa ítarlegt yfirlit yfir ævi Árna Magnússonar.