Jump to content
íslenska

Haukur Ingvarsson

Æviágrip

Haukur Ingvarsson er fæddur í Kaupmannahöfn 12. febrúar 1979 og alinn upp í norðurbæ Hafnarfjarðar. Hann lauk doktorsprófi í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2020. Haukur starfaði sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1 frá árinu 2005, lengst sem einn af umsjónarmönnum og ritstjórum Víðsjár. Um skeið hélt hann úti sínum eigin bókmenntaþætti Glætu en þar fyrir utan gerði hann fjölda þátta og þáttaraða um bókmenntir, menningu og listir.

Eftir Hauk hafa birst ljóð, smásögur og greinar í ýmsum tímaritum og sýnisbókum heima og erlendis. Fyrsta ljóðabók hans var Niðurfall og þætti af hinum dularfulla Manga (2004). Önnur ljóðabók hans, Vistarverur (2018) hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og þriðja ljóðabók hans, Menn sem elska menn (2021), hlaut Maístjörnuna fyrir ljóðabók ársins. Fyrsta skáldsaga Hauks er Nóvember 1976 (2011). Hann hefur einnig gefið úr fræðibækurnar Andlitsdrættir samtíðarinnar: Síðustu skáldsögur Halldórs Laxness (2009) og Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu: Orðspor Williams Faulkners í íslensku menningarlífi 1930-1960 (2021). Haukur er ritstjóri Skírnis, tímarits hins íslenska bókmenntafélags, ásamt Ástu Kristínu Benediktsdóttur.