Jump to content
íslenska

Bubbi Morthens

Æviágrip

Bubbi Morthens (Ásbjörn Kristinsson Morthens) fæddist í Reykjavík 6. júní 1956. Hann er tónlistarmaður, söngvasmiður, rithöfundur og ljóðskáld, svo að nokkur dæmi séu tekin. Hann hefur verið meðlimur í ýmsum hljómsveitum, þekktastar eru hljómsveitirnar Utangarðsmenn og Egó, en Bubbi hefur lengst af starfað einn með gítarinn sem trúbador. Nokkrar bækur hafa verið gefnar út um listamanninn sjálfan og má nefna viðtalsbók Silju Aðalsteinsdóttur, sem kom út árið 1990 og hét einfaldlega Bubbi. Fyrsta útgefna bókin hans sjálfs var barnabókin Rúmið hans Árna sem kom út árið 1994 með myndskreytingum frá bróður hans, Tolla. Síðan hefur hann gefið út nokkrar bækur um stangaveiði og bók um hnefaleika. Öskraðu gat á myrkrið kom út árið 2015 og var fyrsta útgefna ljóðabókin hans.

Bubbi hefur komið víða við. 17 ára að aldri byrjaði hann sem farandverkamaður og sá tími hefur reynst honum mikill innblástur til sköpunar. Hann leyfir raunsæinu að ríkja og hefur í gegnum tíðina reynt að vekja athygli á bágum kjörum verkafólks, einkum ber að nefna kjör verkafólks í sjávarútgerðargeiranum, geiri sem áður var haldinn mikilli rómantík. Í ljóðabókinni Rof (2018) tekst hann á við kynferðislega misnotkun sem hann varð fyrir sem barn.

Hann hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir tónlist sína. Árið 2015 fékk Bubbi sérstaka viðurkenningu frá Verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar.

Heimasíða: bubbi.is